Key West skoðunarvert Flórída Bandaríkin,
Flag of United States


KEY WEST
Áhugaverðir staðir
FLÓRÍDA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

*Pelican Path er gönguleið fyrir þá, sem langar að kynna sér sögu eyjarinnar betur.  Á þessari leið eru 49 sögulegar byggingar.  Til frekari upplýsingar er hægt að fá leiðarvísi hjá verzlunarráðinu (Chamber of Commerce), 402 Wall Street.

Old Town Trolley (sporvagn, líkur þeim, sem eru í San Fransisco), sem byrjar 1½ klst. skoðunarferðir (daglega frá kl. 09:30-16:30) á Mallorytorginu, fer um alla athyglisverðustu staði eyjarinnar.

Conchlestin fer frá Mallorytorgi og Norður-Rooseveltstræti 3850.  Í ferð með henni, sem tekur 1½ klst., fræðist fólk um lífið á Key West í gamla daga, indíána, sjóræningja, strandmenn og tímabil Hemingways.

Sædýrasafnið (1 Whitehead Street; opið dagl. kl. 10:00 - 18:00; leiðsögn).  Kerin með risaskjaldbökunum, barrakúdafiskunum, flórídahumrinum og hákörlunum vekja mesta athygli.

Fjársjóðssýning Mel Fisher (200 Green Street/Front Street; opið dagl. kl. 10:00-18:00; kvikmynda sýningar).  Þar er að finna spænska gullskartgripi, silfurmynt og fleiri dýrgripi, sem Mel Fisher hefur náð úr spænsku silfurgaleiðunum Atocha og Santa Margarita á síðustu árum.  Þær sukku í fellibyl við Marquesas Keys árið 1622.  Einnig er þarna sýning helguð fornleifafræði neðansjávar.

Audubon House & Gardens (205 Whitehead/Green Street; opið dagl. 09:30-17:00).  Þetta er dæmigert Conchhús, sem frægur dýra- og plöntumálari bjó í árið 1832.  Nú er þar safn með húsgögnum frá 18.- og 19. öldum auk nokkurra frummynda málarans.  Í kvikmyndinni, sem sýnd er í safninu, sjást nokkrar myndir Audubons af fuglategundum eyjarinnar.  Í garðinum er fjöldi hitabeltisplantna.

Bar Tony's skipstjóra (Captain Tony's Saloon; Green Street) var nefndur 'Sloppy Joe's Bar' á árunum 1933-1937.  Þarna setti Hemingway punktinn fyrir aftan flesta daga í sama stólnum.  Loft og veggir barsins eru þaktir nafnspjöldum gestanna.

Sloppy Joe's bar hinn nýi (201 Duval Street; opinn 09:00-04:00) er rétt handan við hornið við nokkuð líflegri götu.  Á veggjum hans eru myndir og minningar um Hemingway.

Turtle Kraals ásamt Lands End Village eru við hinn endann á Green Street.  Fyrri landnemar króuðu risaskjaldbökurnar af við legurnar í þessari litlu vík, því að þær voru aðalfæða þeirra.  Enn þá er hægt að sjá skjalbökurnar þar, en núna eru þær verndaðar.  Í þorpinu Lands End eru mörg frábær sjávarréttaveitingahús og fiskibátarnir vagga á öldum Key West Bight.

Wrecker's Museum er í elzta húsinu í borginni, Duval Street 322 (opið dagl. kl. 10:00-16:00).  Það er dæmigert timburhús, sem var byggt árið 1829.  Þar sést, hvernig auðugur strandmaður og skipstjóri bjó.

Fort Zachary Taylor State Historic Site (opið dagl. 08:00-sólseturs; leiðsögn dagl. kl. 14:00) er á suðvesturenda eyjarinnar og þangað liggur Southard Street.  Virkið var byggt úr múrsteinum á árunum 1845 - 1866.  Það tók langan tíma að byggja það vegna margs konar erfiðleika.  Virkið gegndi veigamiklu hlutverki í borgarastyrjöldinni í baráttunni gegn hafnbannsbrjótum.  Það var endurnýjað í spænsk-ameríska stríðinu og síðan 1947 hefur það verið bækistöð sjóhersins.  Margs konar vopn úr borgarastyrjöldinni og fallstykki eru til sýnis þar auk athyglisvert safn gamalla ljósmynda.  Við hliðina á virkinu er vinsæl baðströnd.

*Heimili og safn Ernest Hemingways
er vafalaust vinsælasti skoðunarstaður Key West.  Það er við Whiteheadstræti 938 og er opið daglega kl. 09:00 - 17:00.  Húsið er í spænskum nýlendustíl og er mjög fallegt.  Rithöfundurinn keypti það árið 1931 og skrifaði lungann af verkum sínum þar allt til ársins 1961.  Gestum er fylgt um safnið, sem er búið upprunalegum húsbúnaði og ýmsum minjagripum.  Úti í hitabeltisgarðinum eru óteljandi afkomendur katta Hemingways.

Lighthouse Museum (Vitasafnið) er í vita, sem var byggður árið 1847.  Ofan úr honum er útsýni gott og inni í honum eru varðveittir ýmsir sögulegir gripir, þ.á.m. munir úr sjóferðasögunni.  Úti í garði vitans er japanskur kafbátur, sem tekinn var herfangi í Pearl Harbour.

Southern Point (Suðuroddi).  Við endann á Whiteheadstræti er risavaxin steinsteypubauja, sem markar syðsta punkt Bandaríkjanna. og þaðan eru bara 144 km til Kúbu.

East Martello Tower & Art Gallery (3501 S.Rooseveld Blvd í grennd við flugvöllinn; opið dagl. 09:30-15:00.  Bygging listasafnsins hófst í borgarastyrjöldinni.  Byggingu múrsteinsvirkisins, sem átti að vera til stuðnings Taylorvirkinu á Atlantshafsströndinni, var þó aldrei lokið og nú er það safn með margs konar munum frá Keys eyjunum, listasafn og margar skiptisýningar.

Captain's Corner er við norðurenda Duvalstrætis.  Þaðan er haldið í skoðunarferðir með glasbotnabátum, haldin köfunarnámskeið, farið í köfunarferðir um kóralheiminn og bátsferðir um sólarlag með tónlist.

Marquesas Keys.  Það borgar sig, ef tími er til, að fara siglandi til fenjaskóga vaxinna smáeyja vestan Key West.  Þessar eyjar eru kjarni Key West verndarsvæðis fyrir villt dýr, s.s. kríur, nokkrar tegundir skarfa, ýmsar kórallategundir o.fl.

*DRY TORTUGAS eru smáeyjar og kóralrif 110 km vestan Key West.  Þar fann Ponce de León aragrúa verpandi skjaldbakna árið 1513.

*Jeffersonvirkið er á einni þeirra, Garden Key.  Þangað er bara hægt að komast í eigin bát eða með litlum sjóflugvélum, t.d. frá Key West (Key West  Seaplane Service).  Hafizt var handa við byggingu virkisins árið 1846 til að stjórna siglingum inn í Karíbahafið.  Brátt kom í ljós, að undirstöðurnar voru ekki nógu sterkar.  Virkið var lengi herfangelsi.  Þar mátti Dr. S. Mudd, sem gerði að fótbroti banamanns Lincolns 1865, dúsa í tvö ár.  Eftir að mjög öflugur fellibylur gekk yfir eyjuna og mikinn gulufaraldur var virkið notað sem kolageymsla og útvarpsstöð sjóhersins um tíma. Því næst var það gert að miðstöð verndar dýralífsins á eyjunum, einkum varpstöðva ýmissa fuglategunda, en eggjasafnarar höfðu næstum útrýmt karabísku kríunni.  Árið 1935 var virkið lýst þjóðarminnismerki.  Stór hluti virkisins er opinn gestum til skoðunar, falleg baðströnd freistar margra til að fá sér sundsprett og sleikja sólina um stund og framangreint flugfélag leigir þeim, sem það flýgur með til eyjanna, útbúnað til köfunar, ef þeir óska.

Bush Key er aðalvarpland kría og annarra fugla. Þar er bannað að stíga á land frá marz til oktober ár hvert á varptímanum.  Þar eru brúnir pelikanar algengir, toppskarfar og freigátufuglar með rúmlega tveggja metra vænghaf.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM