Heildarflatarmál Delawarefylkis er 6.447 ferkílómetrar (hið
annað minnsta í BNA). Sambansstjórnin á 2,4% landsins.
Fylkið er nokkurn veginn þríhyrnt í lögun, mest 154 km frá
norðri til suðurs og 58 km frá austri til vesturs. Hæð yfir
sjó nær frá sjávarmáli í 152 m á ónefndri hæð í norðurenda
fylkisins.. Meðalhæð yfir sjó er 18 m (lægsta fylki BNA).
Atlantshafsströndin er 45 km löng.
Langstærstur hluti Delaware (95%) eru á Delmarvaskaga.
Meðfram ströndinni eru setlög, sem dýpka til suðurs, þar sem
þau eru allt að 3.000 m þykk, og hæsti hluti
strandlengjunnar liggur 30 m yfir sjó. Jarðvegur er víðast
tiltölulega ófrjór. Við austurlandamæri fylkisins eru
mýrlendi og um sunnanvert miðbikið eru Cedar-mýrarnar.
Nyrzt, á Piedmont-sléttunni , er öldótt landslag, sem hvílir
á myndbreyttu bergi í 75-125 m hæð yfir sjó. Þar er
jarðvegur talsvert frjósamari en meðfram ströndinni.
Inni í landi eru engar stórar ár en ósar Delawarefljóts
mynda landamæri fylkisins. Flestar árnar renna til austurs
í átt að Delawarefljóti, ósum þess eða beint í Atlantshafið
(Christina, Smyrna, Leipsic, St Jones, Broadkill og
Indiánaáin). Hvergi eru stór stöðuvötn en sum þeirra eru
notuð til sundiðkana og veiða.
Loftslagið er temprað og rakt og víðast svipað. Meðalhiti á
veturna er 1,7°C en stundum fer hann niður fyrir frostmark (u.þ.b.
100 daga á ári). Meðalhitinn á sumrin er 24°C. Mestur
verður hann 32,2°C í 30 daga á ári. Lægsta skráða hitastig
(1893) var -27,2°C og hið hæsta (1930) 43,3°C. Báðar
mælingarnar voru gerðar í Millsboro.
Flóra og fána. Skóglendi ná yfir u.þ.b. 30% landsins,
aðallega eik og fura á strandsvæðinu og túlípanatré á
Piedmont-sléttunni. Algengar trjátegundir auk henna
fyrrnefndu eru rauðeik, hvíteik, víðieik, hikkorítré og
rauður hlynur. Af blómategundum má nefna nokkrar tegundir
lyngrósar (rhododendron), vatnaliljur og önnur villt blóm.
Víðast í fylkinu má finna dádýr, refi, þvottabirni, þefdýr,
pokarottur, kanínur, moldvörpur, íkorna og moskrottur.
Fuglafánan er einnig fjölbreytt. Delawareflói er mikilvægt
vetrardvalarsvæði fyrir mikinn fjölda fugla. Fyrir
ströndinni veiðist talsvert af fiski og ostrum.
Náttúruauðæfi, framleiðsla og iðnaður. Einu verðmætu
jarðefnin í fylkinu eru sandur og möl, sem finnast alls
staðar en þó mest í norðurhlutanum. Örlítið finnst af
magnesium, leir, eðalsteinum og járngrýti.
Lítill iðnaður byggist á trjáviði, einkum í smáskógasvæðum,
þar sem fura, eik og fleiri trjátegundir eru nýttar. Gulösp
og önnur tré eru notuð til framleiðslu spóns. Lítið eitt er
framleitt af viðarkvoðu. Mikið er um kjúklingarækt og
eggjaframleiðslu og nokkuð er ræktað af kartöflum,
sojabaunum, eplum, hnetum, melónum og berjum.
Fiskveiðar og vinnsla er talsverð. Krabbi er verðmætastur
en ostrur og annar skelfiskur og sjóbirtingur vega líka
þungt.
Helztu iðnaðarvörur eru dúkur úr gerviefnum, farartæki og
varahlutir, matvæli, nákvæmistæki, gúmmí- og plastvörur,
prentað efni og tæki til iðnaðar. |