Samkvæmt manntalinu frá 1990 var íbúafjöldi fylkisins
666.168 og hafði fjölgað um 12,1% áratuginn á undan. Að
meðaltali bjuggu þá 103 manns á hverjum ferkílómetra.
Flestir íbúanna búa í norðurhluta fylkisins. Hvítir voru
80,3% og negrar 16,9% auk 2.301 kínverja, 2.183 af asískum
uppruna og 1.982 indíánar. Í kringum 16.000 manns voru af
spænsku bergi brotin.
Menntun og menning. Þingið stofnaði almennan fræðslusjóð
árið 1796 en skólakerfi var ekki komið á fót fyrr en 1829.
Á níunda áratugi 20. aldar voru u.þ.b. 170 ríkisreknir
grunnskólar í landinu með 97.800 nemendum. Samtímis
stunduðu 17.800 nemendur nám í einkaskólum.
Fyrsta æðri menntastofnunin, Newark College (nú
Delawareháskóli í Newark), var stofnuð árið 1833. Eftir
1980 voru slíkar stofnanir orðnar 10 með rúmlega 40.000
stúdenta. Auk framangreinds háskóla má nefna Delaware State
College (1891) og Wesley Collega (1873), sem eru báðir í
Dover, Goldey-Beacom College (1886) í Wilmington og
Wilmington College (1967) í New Castle.
Helztu menningarstofnanir fylkisins eru Henry Francis du
Pont Winterthur-safnið í grennd við Wilmington (rúmlega 150
salir fyrir mismunandi tímaskeið), bandaríska skreytilist
tímabilsins 1640-1840, og Hagley-safnið í Wilmington, sem er
helgað bandarískum iðnaði.
Íþróttir og afþreying. Frábærar baðstrendur við
Atlantshafið eru aðalútivistarsvæðin fyrir sund, aðrar
vatnaíþróttir og sjóstangaveiði. Rehoboth-strönd er talin
aðalútivistarsvæðið en auk hennar má nefna Bethanyströnd og
Fenwickeyju. Skeiðvellir eru víða, s.s. Dover Downs
(Dover). |