Connecticut sagan Bandaríkin,
Flag of United States


CONNECTICUT
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Indíánar, sem bjuggu á svæðinu áður en Evrópumenn komu til sögunnar, voru af algonquianætt.  Sextán ættkvíslir þeirra á Connecticut-svæðinu töldu 6000-7000 manns.  Pequot-indíánarnir voru hinir einu, sem veittu yfirgangi Evrópumanna viðnám, en hinir lifðu í sátt og samlyndi við landnemana.  Þeir lifðu að mestu á dýra- og fiskveiðum og söfnun og ræktuðu aðeins maís, grasker, baunir, sætar kartöflur og ýmsar berjategundir.

Nýlendutíminn.  Hollendingurinn Adriaen Block varð fyrstur til að kanna árdal Connecticut árið 1614.  Þar var skinnaverzlunarsvæði fram til 1625, þegar Hollendingar byggðu nokkur virki.  Að þeim gengnum komu Englendingar undir forystu Winslow af Plymouth, sem stofnaði til byggðar við Windsor árið 1635.  Aukins áhuga á frjósömum jarðvegi og trjáauðgi Connecticut gætti æ víðar meðal landnema í Massachusetts og margir þeirra tóku föggur sínar og fluttu til svæðisins.  Fjölmennasti hópurinn kom undir forystu fríkirkjuprestsins Thomas Hooker í júní 1636.  Hann var kornið, sem fyllti mælinn að mati Pequot-indíánanna og fjandsamleg viðbrögð þeirra leiddu til útrýmingar ættflokksins á árunum 1636-37.

Samkvæmt úrskurði aðaldómstóls Massachusetts í marz 1636, leyfðist landnemum í Connecticut að stofna eigin stjórn, sem stjórnaði eftir eigin höfði þar til hún fékk nokkurs konar grundvallarlög til að fara eftir 1639.  Stjórn svæðisins byggðist á þessum lögum þar til nýlendan hlaut konunglega viðurkenningu árið 1662.

árið 1685 bárust stjórninni þau skilaboð frá James II, konungi, að nýlendan yrði sameinuð nýlendubandalagi Nýja-Englands.  Þegar hinn konunglegi landstjóri, Edmund Andros, kom í eigin persónu í október 1687 til að taka við grundvallarlögunum og völdunum, var honum tilkynnt, að þau væru falin í stóru, holu tré, lagaeikinni.  Connecticut var hluti af sambandinu þar til James II var velt úr sessi í byltingunni 1688-89.

Síðla á 17. öldinni og langt fram eftir hinni 18. ollu aukin landnám í norðurnýlendunum fjölgun árása indíána, sem höfðu þá fylkt sér við hlið Frakka.  Í upphafi franska indíánastríðsins (sjöárastríðsins) árið 1754, skipulögðu landnemar í Connecticut landnámsbyggð í Wyoming-dalnum í Pennsylvaníu undir stjórn Connecticut til ársins 1786.

Sjálfstæðisstríðið og fyrsti hluti sjálfstæðistímans.  Íbúar Connecticut mótmæltu brezku lögunum um stimpilgjald kröftuglega og tóku áberandi þátt í sjálfstæðisstríðinu.  Nýlendubúar rufu opinberlega tengslin við Stóra-Bretland í júlí 1776 og í október varð Connecticut sjálfstætt ríki.  Rúmlega 40.000 íbúanna þjónuðu í byltingarhernum.  Bretar brenndu Danbury árið 1777 og rændu New Haven, Fairfield og Norwald 1779.  Í september 1781 eyddu brezkar hersveitir undir forystu Benedikt Arnold New London og Groton að mestu í eldi.

Stríðið árið 1812 var mjög óvinsælt í Connecticut.  Þegar Massachusetts sendi fulltrúum sínum boð um að koma til þings og mótmæla stríðinu, voru íbúar Connecticut þeim sammála og buðu þeim að funda á þeirra svæði.  Hartfordfundurinn samþykkti margar breytingar á stjórnarskránni til að draga úr völdum sambandsstjórnarinnar en engar þeirra urðu að veruleika.

Fylkisréttindi.  Þrælahald var afnumið í Connecticut árið 1848.  Í forsetakosningunum 1860 studdi fylkið Abraham Lincoln og í borgara/þrælastríðinu börðust íbúarnir við hlið hans og framleiddu skotfæri.  Stríðið styrkti efnahag fylkisins.  Iðnaður og fjármálastarfsemi blómstruðu og járbrautirnar hættu að byggja eingöngu á flutningi landbúnaðarafurða.  Eftir 1870 hvarf sjálfsþurftarbúskapur af sjónarsviðinu, iðnvæðing jókst og borgir stækkuðu.  Iðnaðurinn krafðist aukins fjölda verkamanna og fjöldi innflytjenda jókst.  Í kringum 1910 voru u.þ.b. 30% henna 1.114.756 íbúa fylkisins fæddir erlendis.  Flestir komu þeir frá Írlandi, Ítalíu, Rússlandi, Þýzkalandi og Austurríki.

Á 20. öldinni óx sérhæfðum iðnaði, sem hafði verið stofnað til í lok 19. aldar, enn fiskur um hrygg, þ.m.t. stál-, skotvopna-, silfur-, úra- og klukkuiðnaður.  Hartford varð leiðandi miðstöð í tryggingamálum í BNA.  Síðari heimsstyrjöldin gerði fylkið að hinu fremsta í framleiðslu flugvélahluta, kafbáta auk hluta og tækja fyrir geimferðaáætlunina.  Tengsl iðnaðarins við varnarmál BNA dró úr kreppueinkennum, sem gerðu vart við sig víða í kjölfarið.  Á níunda áratugi 20. aldar voru tekjur einstaklinga í fylkinu með hinum hæstu í BNA og atvinnuleysi meðal hins minnsta.  Snemma á 10. áratugnum urðu fjármála-, trygginga- og fjármálamarkaðirnir fyrir alvarlegum skelli.  Þá fyrst neyddust yfirvöld fylkisins til að leggja tekjuskatt á borgarana til að stemma fjárlögin af.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM