Connecticut land og náttúra Bandaríkin,
Flag of United States


CONNECTICUT
LAND og NÁTTÚRA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál fylkisins er 14.358 ferkílómetrar (48 sæti í stærðarröð).  Sambandsstjórnin á 0,4% landsins.  Lögun fylkisins er nokkurn veginn ferhyrnd, 145 km frá austri til vesturs og 120 km frá norðri til suðurs.  Fylkið hækkar smám saman frá sjávarmáli við Long Island-sund í suðri til 725 m í norðvestri í suðurhlíðum Frissellfjalls.  Meðalhæðin yfir sjó er u.þ.b. 152 m.  Strandlengjan við Long Island-sund er 995 km löng.

Skipta má fylkinu í fimm landfræðilegar einingar:  Taconic-fjöll í norðvestri, láglendi Connecticut-dalsins um miðbikið, strandláglendið, Vestur-Nýja-Englands hálendið og Austur-Nýja_Englands hálendið.

Taconic-fjöll standa á myndbreyttu bergi.  Þau eru hlíðabrött með þrönga dali.  Jarðvegurinn er tiltölulega ófrjósamur.  Þarna er hæsti staður fylkisins yfir sjó.

Láglendi Connecticut-dalsins teygist til norðurs inn í Massachusetts.  Þetta belti er 40-56 km breitt í Connecticut og hækkar smám saman í frjósömum stöllum upp frá ánni.

Vestur-Nýja-Englandshálendið hækkar smám saman frá suðri í u.þ.b. 460 m nyrzt.  Yfirborð þess er öldótt og hæðótt.  Austurhálendið er talsvert lægra (hæst 215m) og landslagið ekki eins öldótt eða hæðótt.  Ísaldarjökullinn mótaði landslagið á báðum svæðum og skildi eftir sig súran jarðveg og mörg grettistök.

Helztu vatnsföll fylkisins eru Housatonic og Thames.  Stöðuvötn eru yfirleitt smá og í jökulgröfnum lægðum.  Flest þeirra, þ.á.m. hið stærsta, eru á Vestur-Nýja-Englands hálendinu.  Tvö manngerð lón, Lake Candlewood við Danbury og Barkhamsted Reservoir, eru stærri en hið náttúrulega stærsta.

Loftslagið er rakt meginlandsloftslag.  Meðalárshitinn við ströndina er 10,6°C og í norðvesturhlutanum 7,2°C.  Annars staðar í fylkinu er hann víðast milli 8,3°C og 9,4°C.  Lægsta skráð hitastig er -35,6°C (1946 í Falls Village) og hið hæsta 40,6°C (1926 í Waterbury).  Fárviðri eru sjaldgæf, þótt nokkrir fellibyljir hafi skollið á ströndina.  Skýstrókar eru fátíðir.  Einn slíkur fór fyrir norðan Hartford 1979 og olli miklum skemmdum.

Flóra og fána.  Rúmlega helmingur (56%) fylkisins er skógi vaxinn (beyki, birki, hlynur og eik).

Helztu villtu spendýrin eru dádýr, kanínur, íkornar, refir, otrar og moldvörpur.  Meðal stórra veiðifugla eru fasanar, lynghænur og endur og aðrar áberandi fuglategundir eru rauðbrystingur, bláskjár, spæta, kráka, söngfugl og ýmsir spörfuglar.  Fyrir ströndinni má finna ostrur og annan skelfisk, röndóttan bassa og bláfisk.  Í ferskvatni synda vatnasíld, karfi, áll, bassi og silungur.

Auðlindir, framleiðsla og iðnaður.  Verðmæt jarðefni eru takmörkuð, þótt eitthvað finnist af járngrýti, kopar, tungsten, blýi og silfri.  Jarðefnin, sem gefa mest í aðra hönd eru sandur, grjót, möl, leir og kalksteinn.

Helztu landbúnaðarafurðir eru kjúklingar, egg, mjólkurvörur, nautakjöt, hey, epli, grænmeti og tóbak.  Fiskveiðar eru takmarkaðar og lítill hluti þjóðartekna.  Talsvert er um ostruveiðar og ræktun í Long Island-sundi.

Helztu iðnaðarvörur á níunda áratugnum voru flugvélamótorar, þyrlur, kjarnorkukafbátar, skotvopn, elektrónískur vélbúnaður, klukkur, efnavörur og matvæli.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM