Heildarflatarmál fylkisins er 269.620 ferkílómetrar (hið
áttunda í stærðarröðinni). Sambandsstjórnin á 29,9%
landsins. Fylkið er nokkurn veginn rétthyrnt í lögun, 445
km frá norðri til suðurs og 620 km frá austri til vesturs.
Hæðarmunur landslagsins er frá 1021 m við Arkansasána til
4399 m á toppi Elbertsfjalls. Meðahæð fylkisins yfir sjó er
u.þ.b. 2073 m (hin hæsta í BNA).
Fylkinu má skipta í þrjár landfræðilegar heildir:
Slétturnar miklu, Klettafjöllin og Kóloradósléttuna.
Austasti þriðjungur landsins er hluti af Sléttunum miklu,
sem hvíla aðallega á hellu-, sand- og kalksteini. Sléttunni
hallar sígandi úr 2105 m í 1070 m við landamærin að Kansas
og Nebraska.
Klettafjöllin ná yfir tvo fimmtunga miðlandsins. Þar er einn
hæstu tinda BNA (4267m) meðal alls 54 tinda fylkisins.
Helztu fjallgarðarnir eru Front Range í austri, Sawatch
Range í miðjunni, Park Range í norðri, Sangre de Cristo í
suðri og San Juan-fjöll í suðvestri.
Kóloradósléttan liggur meðfram vesturlandamærunum og þekur
u.þ.b. fimmtung landsins. Hún er víða djúpt skorin og er að
mestu ofar 2000 m línunnar. Þar eru svokallaðar “mesas” og
djúp gljúfur og dalir. Hluti Wyoming lægðarinnar nær inn í
norðvesturhluta fylkisins. Þar er landslag hálent og hæðótt.
Helztu vatnsföll Kóloradó eiga upptök í Klettafjöllum, þar
sem úrkoma og leysingar leggja þeim til vatn. Vatnaskil
meginlandsins skilja lengstu á landsins, Kóloradóána, frá
North Platte, South Platte, Arkansas og Rio Grande ánum, sem
falla til Atlantshafs. Fossar gil og gljúfur eru umgerð
margra ánna, sem steypast niður úr fjöllunum. Helztu
gljúfrin eru Royal Gorge (Arkansasáin) og Svartagljúfur
(Gunnison-áin). Stærsta stöðuvatn landsins er Grand Lake í
Klettafjöllum. Nokkur manngerð lón fyrir vatnsveitur eru
stærri (John Martin Reservoir við Arkansasána og Blue Mesa
Reservoir við Gunnison-ána).
Loftslagið. Í Kóloradó ríkir hálendismeginlandsloftslag,
sem breytist með hæð yfir sjó og tengslum við fjallgarðana.
Vetur eru kaldir og víðast þurrviðrasamir og sumrin eru heit
utan hálendustu svæðanna. Meðalárshiti er á bilinu 10,5°C á
sléttunum til 2,2°C uppi í fjöllum. Lægsta skráða hitastig
(1985) var -51,7°C og hið hæsta (1888) 47,8°C. Stundum nær
vindhraði 161 km/klst á Sléttunum miklu, þegar hlýr vindur (chinook)
blæs af Front Range-fjöllum. Þá hækkar hitastigið í 28°C á
nokkrum klukkustundum.
Flóra og fána. Helztu trjátegundir eru ponderosa-fura,
doglasfura, engelmannsgreni, birki, elri, blæösp,
furutegundin pinyon og einir. Margar tegundir villtra blóma
prýða landslagið.
Dýralífið er fjölbreytt vegna ólíkra landslagsþátta. Á
sléttunum og í aðliggjandi hlíðum eru antilópur, sléttuúlfar,
sléttuhundar, refir, kanínur, greifingjar og skröltormar.
Fuglalífið er einnig fjölbreytt, s.s. fasanar, haukar og
ýmsar andategundir (farfuglar). Uppi í fjöllum og á
vesturhásléttunum eru hirtir, svartbirnir, fjallaljón,
bifrar, sléttuúlfar, stórhyrnt fé og fjallageitur auk arna
og ýmissa tegunda akurhæna. Í ám og vötnum er silungur, lax
og hvítfiskur.
Auðlindir, framleiðsla og iðnaður. Meðal helztu
náttúruauðlinda eru olía, kol, gas, sandur og möl. Þar
finnst einnig gull, silfur, vanadium, blý, kopar, sink, leir,
olíuauðugt hellugrjót og molybdenum.
Helztu landbúnaðarafurðir eru nautakjöt, maís, hey, hveiti
og mjólk. Einnig er talsvert ræktað af kartöflum, grænmeti
og ávöxtum.
Helztu iðnaðarvörur eru elektrónísk tæki og flutningatæki (þ.m.t.
til geimflutninga). |