Little Rock Arkansas Bandaríkin,
Flag of United States


LITTLE ROCK
ARKANSAS

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Little Rock er höfuðborg Arkansasfylkis.  Auk þess að vera stjórnsetur þess er hún miðstöð fjármála, viðskipta, iðnaðar og vörudreifingar.  Meðal framleiðsluvara borgarinnar eru samgöngutæki, eldflaugahlutar og elektrónísk tæki, timbur og timburvörur.  Mikið er gefið út af prentuðu máli og matvælaframleiðsla er talsverð.  Meðal náttúruauðæfa héraðsins er olía, gas, kol og timbur og mörg vinsæl útivistarsvæði eru umhverfis borgina.  Inni í borginni skoða ferðamenn helzt þinghúsið (1911), Quapaw-hverfið, sem er endurnýjað, gamalt hverfi, og MacArthur-garðinn, þar sem eru listamiðstöð borgarinnar, Vísinda- og sögusafnið og fæðingarstaður Douglas MacArthur, hershöfðingja.  Í borginni er einnig Baptistaháskólinn (1884), Philander Smith-háskólinn (1877), Arkansasháskóli (1927) og Læknaháskólinn (1879).

Franski landkönnuðurinn, Bernard de la Harpe, kom til þessa landsvæðis 1722, þegar það var byggt Quapaw-fólkinu.  Hann kom upp hefðbundnum verzlunarstað við Arkansas-ána rétt hjá litlu klettabelti en annað stærra var fjær.  Árið 1812 byggði skinnaveiðimaðurinn William Lewis sér bústað við Litlukletta og þar þróaðist byggðin smám saman þar til hún varð að höfuðborg Arkansashéraðs 1821.  Þegar héraðið fékk viðurkenningu sem sérstætt fylki, varð bærinn að höfuðborg þess árið 1836.  Á níunda áratugi 19. aldar varð bærinn mikilvæg miðstöð samgangna og frekari vöxtur tengdur iðnaði hófst á fimmta áratugi 20. aldar.  Árið 1957 komst borgin í heimsfréttirnar vegna andstöðu við að leyfa níu svörtum nemendum að stunda nám í menntaskóla hvítra.  Fylkisstjórinn gerði allt, sem hann gat, til að koma í veg fyrir aðgang þeirra.  Lyktir þessa máls urðu þær, að alríkisstjórnin skarst í leikinn og síðan hafa blandaðir skólar viðgengist í borginni.  Bill Clinton, fyrrum forseti BNA, var fylkisstjóri í Arkansas með aðsetur í Little Rock áður en hann varð forseti.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var 176 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM