Árið
1724 fór Vitus Bering, danskur höfuðsmaður í Rússaher, að skipun
Péturs Rússakeisara að kanna löndin austan Síberíu.
Í öðrum leiðangri sínum árið 1741 fór hann til meginlands
Alaska og lýsti það yfirráðasvæði Rússa.
Hann dó á heimleiðinni en hluti leiðangursmanna komst til
baka. Sögur þeirra um gnótt pelsdýra ýtti undir veiðimenn og
höndlara að kanna nýjar slóðir.
Rússneskir
skinnakaupmenn komu sér fyrst fyrir við Three Sains flóann á
Kodiakeyju árið 1784. Innfæddir
voru snuðaðir, misnotaðir og myrtir í stórhópum.
Pelsdýrum á láði og legi var slátrað í unnvörpum.
Sæotri var næstum útrýmt.
Ógnaröldin minnkaði, þegar Páll keisari réði Rússnesk-ameríska
félagið til að stjórna nýlendunum. Alexander Baranow, sem var forstjóri þess í 19 ár, stjórnaði
Rússnesku Ameríku eins og keisari. Eftir að hópur tlingit indíána
jafnaði nýlendunni Mikhailovsk við jörð árið 1802 hefndu nýlendubúar
sín með því að eyðileggja þorp innfæddra og stofna New Archangel
(nú Sitka) þar sem það var. Þar
setti Rússnesk-ameríska félagið upp höfuðstöðvar sínar síðar
og bærinn varð höfuðborg nýlendunnar.
Hún var stundum kölluð París Kyrrahafsins og breyttist í
skrautlegasta, konunglega stað Ameríku. Hinar mörgu rússnesku rétttrúnaðarkirkjur með lauklaga
turnum eru frá þessum tíma.
Rússar
reyndu að selja Bandaríkjamönnum Alaska árið 1855. Samkeppnin við BNA og Breta hafði gert Rússnesk-ameríska
félagið óarðbært og þátttaka Rússa í Krímstríðinu gerði stöðu
Rússa í Alaska ótrygga. Samningurinn
um sölu Alaska til BNA var undirritaður árið 1867 að kröfu innanríkisráðherra
BNA, William H. Seward, í forsetatíð Andrew Johnson.
Verðið var 7,2 milljónir dollara.
Charles Sumner studdi þessar ráðagerðir í öldungadeildinni
og lagði til að landið yrði nefnt Alaska.
Landið komst undir stjórn BNA 18. oktober 1867.
Efasemdamenn
í BNA kölluðu Alaska „Heimsku Sewards” og „Kæliskápinn hans
Sewards”. Landherinn, fjármálaráðuneytið
og sjóherinn sáu um stjórn landsins til skiptis.
Engin kjörin stjórn var við lýði fram til 1884, þegar
Alaska varð héraði og stjórnað í anda laga Oregonfylkis.
Skálmöld
hófst, þegar hið litríka gullæði gróf um sig við gullfundinn í
Klondike í Kanada árið 1896. Hópar
gullleitarmanna þustu skemmstu leið um Skagway í suðausturhlutanum
til Klondike. Áður en
gullæðið hjaðnaði þar byrjaði nýtt í Nome á Sewardskaga.
Síðar, 1902, varð kapphlaup um að tryggja landskika á
Fairbankssvæðinu til að leita að gulli.
Hinn
24. ágúst árið 1912 undirritaði William Howard Taft lög, sem gerðu
Alaska að héraði í BNA. Árið
1942 hernámu Japanar Kiska og Attueyjar í Aleuteyjaklasanum og vígbjuggust
þar. Sumarið 1943 náðu bandarískar herdeildir með aðstoð
Kanadamanna þeim aftur. Lagningu
Alaska hraðbrautarinnar var hraðað til að tryggja öryggi Alaska.
Samtímis var unnið að undirbúningi hernaðarmannvirkja í
Alaska og haldið áfram eftir síðari heimsstyrjöldina.
Alaskabúar
börðust fyrir fylkissambandi í 40 ár.
Frá nóvember 1955 til janúars 1956 sátu 55 fulltrúar á ráðstefnu
í Alaskaháskóla og sömdu stjórnarskrá fyrir hið verðandi fylki
og í apríl var uppkastið samþykkt í kosningum (17.447 með og 7.180
á móti). Samtímis var
tillaga Tennesseeríkis samþykkt og kosnir voru tveir óopinberir
fulltrúar í öldungadeild til að koma málinu áfram á alríkisþinginu.
Hinn
30. júní 1958 samþykkti öldungadeildin með 64 atkvæðum gegn 20 að
veita Alaska aðild að BNA sem fylki eftir að fulltrúadeildin hafði
samþykkt tillöguna. Þjóðaratkvæðisgreiðsla
studdi hana í hlutfallinu 5/1. Dwight
D. Eisenhower forseti undirritaði yfirlýsinguna um stofnun fylkisins
3. jan. 1959 og Alaska varð opinberlega 49. fylki BNA.
Síðan
Alaska varð að fylki hefur tekizt að jafna talsvert sveiflur í
efnahagslífi landsins. Það
hefur verið erfitt að hvetja til og auka fjölbreytni efnahagslífsins
vegna þess, að alríkisstjórnin ræður svo mörgum auðlindum í
Alaska. Þrátt fyrir það
hefur ríkið reynt að finna jafnvægi milli náttúrunnar og þróun
uppbyggingar með bæði lang- og skammtímaáætlunum og leysa úr kröfum
innfæddra um landsvæði fyrir sig. |