Alaska náttúran Bandaríkin,
Flag of United States


ALASKA
NÁTTÚRAN
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Alaska er á risastórum skaga.  Út frá honum suðvestanverðum teygjast Alaskaskaginn og Aleuteyjakeðjan.  Til suðvesturs teygist 805 km löng landræma meðfram landamærum Brezku Kólumbíu í Kanada.  Austan við norðurlandamærin er Yukonsvæðið í Kanada.  Heildarflatarmál fylkisins er 1,530.693 km², þar af vötn og ár 52.243 km².  Strandlengjan er 54.562 km löng, þ.m.t. allar eyjar meðfram ströndinni.

Nyrzti tangi landsins og þar með BNA er Barrowtangi, sem teygir sig út í Íshafið.  Þriðjungur landsins er norðan heimsskautsbaugs.  Í vestri teygja Aleuteyjar sig inn á hafsssvæði Austurlanda fjær.  Vestasta eyjan, Attu er á 173° austur, beint norður af Nýja Sjálandi.  Það er lengra á milli Attu og Ketchikan í suðurhlutanum en milli San Francisco og New York.  Frá yzta odda Sewardtanga í Alaska eru rúmlega 80 km yfir Beringssund til Rússlands.  Alþjóðlega dagslínan (180°) liggur um Beringssund.  Öðrum megin við hana er Litla-Diomedeeyja í bandarískri lögsögu en hinum megin er Stóra-Diomedeeyja í rússneskri lögsögu.


Landslag og lega Landið skiptist í fjögur aðalsvæði:  Heimsskautssvæði, Klettafjöll, Hásléttuna og innanlandsfarveg Yukonárinnar  og Kyrrahafsfjöllin.  Íbúarnir skipta landinu þar að auki í þrennt: Mjóu landræmuna syðst (The Panhandle), Alaskaskagann og Aleuteyjar og miðsuðurhlutann.

Heimsskautssvæðið er u.þ.b. einn sjötti hluti landsins.  Loftslagið er samsvarandi, úrkoma lítil og stórar, trjálausar túndrur.  Sumardagar eru langir og gróðurinn, aðallega mosar og blómjurtir, tekur fljótt við sér, þótt ófrosið yfirborðið sé þunnt (60-70 sm).  Á Barrowtanga sezt sólin ekki í 84 daga samfleytt.  Þótt sumrin séu stutt verpir meira en helmingur 12 tegunda fugla jarðar þar, 24 norðuramerískar tegundir eiga einu varpsvæði sín þar og til viðbótar 50 tegundir annarra norðuramerískra tegunda, sem verpa líka annars staðar.

Klettafjallasvæðið er á milli heimsskautssvæðisins og innanlandshásléttunnar.  Aðalfjallgarðurinn er Brooks Range, 960 km langur og þakinn ís og snjó.  Sumir tindarnir ná yfir 2400 m hæð og skógur vex aðeins í suðurhlutanum.  Þessi fjallgarður er allur norðan heimsskautsbaugs.

Innanlandshásléttan er öldótt og stærri en Texas.  Yukonáin rennur um hana vestanverða.  Hún og þverár hennar hafa myndað risastór óshólmasvæði við Kyrrahafið.  Svæðið er þakið skógum, vötnum og votlendi.  Rauðgreni þekur margar hlíðar og baðmullartré vaxa meðfram ánum.  Þarna ríkir ekta meginlandsloftslag með miklum mun sumars og veturs.  Hitinn fellur niður í -48°C á veturna og meðalúrkoma er 20-38 sm.  Sumrin eru stutt en dagsbirtan nær 21 klst., þegar bjartast er, og hitinn fer upp í 38°C.  Á sumrin þiðnar yfirborðið, en frosið undirlagið heldur vatninu kyrrstæðu, ef landhalli er lítill.

Kyrrahafsfjöllin sveigjast meðfram allri suðurströndinni.  Loftslagið er kalt og rakt úthafsloftslag.  Hafstraumar eru heittempraðir og hlýir vindar blása frá asíska meginlandinu.  Þegar Alaska varð fylki í BNA missti Kalifornía heiðurinn af hæsta fjalli BNA (Mt. Whitney).  Kinleyfjall (6194m) er í þessum hluta Alaska, næstum 1800 m hærra en Whitneyfjall.

Mjóa landræman (Pönnuskaftið) milli Kyrrahafsins og Brezku Kólumbíu er landfræðileg strandlegja kanadíska fylkisins.  Þessi landræma er að meðaltali 48 km breið og um 800 km löng.  Fjöllin rísa næstum beint upp úr sjó og með ströndinni er langur eyjaklasi, Alexandereyjar.  Fegursta leiðin til Alaska er sjóleiðin milli lands og þessara rúmlega 1000 eyja.  Undirhlíðar fjallanna eru þaktar þéttum rauðgrenisskógum, fjallaþöll og sedrusviði, sem eru undirstaða skógarhöggs.  Fjallaskallarnir eru þaktir ís og snjó og skriðjöklar mjakast niður hlíðarnar og dýpka árdalina og grafið djúpa firði líka hinum norzku.

Í suðausturhluta landræmunnar er hitinn jafnari vegna Hawaiistraumsins, 10-16°C á sumrin og -7-+5°C á veturna.  Landræman er mesta úrkomusvæði Norður-Ameríku og mest rignir mánuðina nóvember til marz.  Þessi mikla úrkoma heldur jöklunum við og skýrir hinar mörgu ár og læki, sem Kyrrahafslaxinn rennur upp í til að hrygna.  Mestu skógar fylkisins eru í Tongass (Tongass National Forest).  Fáir tindar strandfjallanna eru hærri en 3000 m.  St. Eliasfjöll rísa hátt í norðri, þar sem ströndin sveigir í vestur og stórir skriðjöklar fylla dalina.  Malaspinajökull, hinn stærsti, mjakast niður frá St. Elias (5488m).  Hinn stórbrotni Muirjökull í þjóðgarðinum Glacier Bay á uppruna sinn á sömu slóðum.

Í suðvesturhluta landræmunnar er Alaskaskaginn og Aleuteyjar.  Skaginn liggur í 800 km langri beygju frá Naknekvatni að þeim stað, þar sem Aleuteyjar teygja sig áfram rúmlega 1600 km.  Þetta er að mestu fjalllendi með rúmlega 50 eldfjöllum.  Loftslagið er svalt, hitinn er 10°C eða hærri á sumrin en fer niður í -7°C á veturna.  Það er vinda- og þokusamt á Aleuteyjum vegna þess, að þær eru að mestu trjálausar.

Miðsuðurhlutinn nær frá landræmunni að Cookfirði.  Hinn ægifagri Alaskafjallgarður, 240 km breiður, teygir sig inn í land í 640 km löngum boga og skilur á milli strandlengjunnar og hálandssléttunnar.  Kórónan þessara fjalla er hæsta fjall N.-Ameríku, Mt. McKinley.  Meðfram ströndinni vestan St. Eliasfjallgarðsins gnæfa Chugachfjöll.  Chugach National skógurinn þekur suðurhlíðar þeirra.  Þessi fjallgarður rennur saman við Kenaifjöll, aðalfjallgarð Kenaiskaga og framhald þeirra eru lág fjöll Kodiakeyju.  Loftslagið á skaganum og eyjunni er milt eins og í landræmunni og úrkoma er mikil.  Loftslagið á meginlandinu er kaldara og þurrara.  Dalirnir þar eru fallnir til landbúnaðar.


Náttúruauðlindir
BNA áttu 99% lands í Alaskahéraði, en þegar landið varð að fylki, afhenti Bandaríkjastjórn því eignarréttinn að 418.257 km² innan 25 ára.  Fylkið má selja einstaklingum og fyrirtækjum land fyrir bændabýli, heimili eða verksmiðjur.  Eignarréttur nær ekki til náttúruauðlinda, s.s. járnnáma eða olíu í jörðu.  Það verður að sækja um leyfi til námavinnslu til fylkisstjórnarinnar og greiða henni leigu.

Árið 1971 voru samþykkt lög á þingi fylkisins, sem áskildu frumbyggjum landsins, inúítum, nærri eins milljarðs dollara greiðslu og yfirráð yfir 160.000 km² lands.  Inúítar stofnuðu fyrirtæki til að annast umsjón með þessum verðmætum og úrvinnslu þeirra.

Fylkið ber ábyrgð á stjórnun fiskveiða og villibráðar alls staðar nema á svæðum alríkisstjórnarinnar.  Stjórnarskrá fylkisins kveður á um, að endurnýjanlegar auðlindir séu í eigu fylkisins og nýting þeirra eigi að vera sjálfbær.  Samkvæmt þessari stefnu má ekki skerða höfuðstólinn.  Milljónir fugla dvelja sumarlangt á klettaeyjum og votlendissvæðum landsins.  Ránfuglar eru helztir:  Skallaörninn, gullörninn, ýmsar ugluteg., haukar og fálkar.  Orrinn, sem sést í þéttum hópum svo hundruðum skiptir, er þjóðarfugl Alaska.  Látur feldselanna eru á Pribilofeyjum.  Sæotrum fjölgar nú talsvert síðan þeir voru friðaðir.

Beztu stórdýra- og fiskveiðimöguleikar í BNA eru í Alaska.  Meðal hinna mörgu tegunda brúnbjarna er hinn frægi Kodiakbjörn, stærsta villta kjötætan af spendýraætt á þurrlendi.  Hann vegur allt að 770 kg.  Aðrar tegundir eru m.a. grábjörninn, svartbjörninn og ísbjörninn.  Önnur villt spendýr eru m.a. hreindýr, elgir, vísundar, sitkadádýr, villifé og fjallageitur.  Hreindýrarækt er stunduð víða í Vestur-Alaska.

Vatnsorka fylkisins er gríðarleg.  Búið er að finna rúmlega 200 staði, þar sem vænlegt væri að byggja vatnsorkuver.  Flestir þeirra eru á landræmunni.  Snettisham (nærri Juneau) og Eklutna (nærri Anchorage) eru orkuríkastir.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM