Alaska íbúarnir Bandaríkin,
Flag of United States


ALASKA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Alaska er svo strjálbýlt, að íbúafjöldinn er ekki nema 1 íbúi á hverja 2,5 km².  Mesta fjölgunin varð strax eftir síðari heimsstyrjöldina.  Árið 1940 var íbúafjöldinn 72.524 en árið 1990 var hann kominn upp í 551.947.  Hluti íbúanna er af erlendu bergi brotinn, s.s. rússnesku, filipínsku, japönsku, kínversku og norrænu.  Fjöldi frumbyggja, inúíta, indíána og aleuta er u.þ.b. 64.000.  Meiri hluti þeirra lifir að hætti forfeðranna og aflar viðurværis á sama hátt og þeir en hinir búa í þorpum og bæjum við nútímalifnaðarhætti og stunda ýmiss konar störf.

Inúítar
eru fjölmennastir frumbyggjanna.  Þeir búa með ströndum fram við Íshafið og Beringshaf og í hinum stóru óshólmum Yukon- og Kuskokwimánna.  Sumir eru fiskimenn, veiðimenn og pelsveiðimenn.  Aðrir stunda hreindýrabúskap eða viðskipti í fjölmennari bæjum og borgum.

Indíánar eru næstfjölmennastir.  Helmingur þeirra eru tlingitindíánar, sem búa á eyjum og strönd landræmunnar.  Sumir stunda fiskveiðar á sumrin og gildruveiði og aðra veiðimennsku á haustin og veturna en aðrir stunda viðskipti.  Allmargir starfa í niðursuðuverksmiðjum á sumrin og margir varðveita siði og venjur forfeðranna með minjagripagerð.

Haida og tsimshian indíánar komu í landræmuna frá Brezku Kólumbíu.  Þetta eru skyldir ættbálkar, sem eru þekktir fyrir listmunagerð úr tré, beini og skeljum og haglega skreyttar minningarsúlur, einkum úr sedrusviði.  Margir tsimshianar búa í þorpinu Metlakatla, sem er að hluta til rekið á samvinnugrundvelli.  Þeir eiga fiskibáta og reka laxniðursuðu, fiskiræktarstöðvar og sögunarmyllu.  Athapaskanar búa dreifðum þorpum inni í landi og í suðurhlutanum.  Margir þeirra eru veiðimenn.

Aleutar eru náskyldir inúítum en tala sitt eigið tungumál og hafa eigin siði.  Þeir eru góðir fiskimenn og búa á hinum þokusömu Aleut- og Pribilofeyjum, Alaskaskaganum og Kodiakeyju.

BORGIR
Um það bil 66% íbúanna býr í bæjum og borgum.  Borgirnar eru jafnnútímalegar og borgir annars staðar en mun lengra er á milli þeirra og mikið strjálbýli utan þeirra.  Samgöngur til þeirra og frá þeim eru stundum erfiðar eða ómögulegar landleiðina.

Anchorage er langstærsta borgin.  Hún er í miðjum suðurhlutanum við utanverðan Cookfjörð fyrir ofan Knik Arm.  Hún er miðstöð loftflutninga og aðalherstöð norðurhersins.  Anchorage hefur stækkað mikið, einkum á áttunda áratugi 20. aldar.  Þá óx íbúafjöldinn úr 48.081 í 174.431, 260% fjölgun á einum áratug.  Árið 1964   jafnaði jarðskjálfti hluta miðbæjarins við jörðu.

Fairbanks er næststærsta borgin.  Hún er við Chenaá, aðalþverá Yukonárinnar, á sléttunum inni í landi.  Mikilvægi hennar byggist á samgöngum við aðra minni bæi á sléttunni og á heimsskautssvæðinu og olíuvinnslusvæðin í fjöllunum fyrir norðan.  Borgin er aðalmiðstöð Alaskajárnbrautarinnar og vegakerfisins.

Juneau, höfuðborgin, er nyrzt í landræmunni.  Hún er eina höfuðborgin í BNA, sem er ekki hægt að komast til landleiðina.  Aðalatvinnuvegirnir eru þjónusta, ferðaþjónusta, námugröftur og fiskveiðar.  Mörgum ferðamönnum finnst hún líkjast San Francisco vegna húsanna, sem standa þétt saman við bugðóttar götur í fjallshlíðunum.  Greens Creek, einhver stærsta silfurnáma í BNA, er nærri borginni.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM