Alaska efnahagur Bandaríkin,
Flag of United States


ALASKA
EFNAHAGUR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fisk- og gildruveiðar.  Alaska er í fararbroddi allra fylkja BNA í fiskveiðum og vinnslu.  Árið 1989 skilaði fiskiðnaðurinn rúmlega helmingi allrar fiskframleiðslu BNA.  Laxveiðar og vinnsla eru í fremstu röð.  Þrátt fyrir eða vegna veiðistjórnunar og takmörkunar veiða, hefur aflinn aldrei verið meiri og farið fram úr metveiðinni á fjórða og fimmta áratugi 20. aldar.  Rauð- og bleiklax er uppistaða aflans en chum-, coho- og chinooklax er líka veiddur.  Lunginn úr aflanum er frystur til útflutnings, aðallega til Japans og Evrópu.  Þriðjungur aflans, aðallega bleiklax er soðinn niður.  Aðrar verðmætar tegundir úr sjó eru alls konar skelfiskur, krabbar, rækjur og hörpudiskur auk stórlúðu, síldar og sverðfisks.  Fiskroð er notað í auknum mæli til framleiðslu á peningveskjum, fatnaði o.fl.

Minkur
er verðmætasta dýrið, sem er veitt í gildrur. Þar að auki byggist veiðin á bjór, marðardýrum, gaupum, sléttuúlfum, landotrum og moskusrottum.  Loðdýrarækt í Alaska byggist aðallega á mink og ref, en þessi búgrein er ekki eins mikilvæg nú eins og fyrrum.

Námugröftur.  Miklar birgðir af gulli, nikkel, tini, býi, sinki, kopar og molybdenum (króm, sem er notað til að herða stál) eru í jörðu í Alaska en vegna erfiðra samgangna hefur þróun í vinnslu þessara efna verið hægfara.  Tvær stórar námur voru þó opnaðar árin 1989 og 1990, Greens Creek við Juneau og Red Dog við Kotzebue.  Helztu málmar, sem unnir eru til útflutnings í tiltölulega litlu magni en verðmætir, eru gull, platína, króm, kvikasilfur, silfur og molybdenum.  Olía, sandur og möl, kol, gull og náttúrulegt gas eru rúmur helmingur þess, sem unnið er úr jörðu.  Miklar kolabirgðir eru víða í jörðu en vinnsla þeirra hefur verið lítil og að mestu takmörkuð við Usibelli námuna nærri Healy.  Árið 1990 voru mörg svæði könnuð með framtíðarvinnslu í huga, þ.á.m. Wishbone Hill norðaustan Anchorage. 

Olíuvinnslan hófst, þegar olía fannst á Kenaiskaganum árið 1957.  Mestu olíubirgðir í Norður-Ameríku fundust í norðanverðum Pfudhoeflóa árið 1968 og þá var lögð 1280 km löng olíuleiðsla til hafnarborgarinnar Valdez, sem hefur íslausa höfn allt árið.  Lagningu leiðslunnar var lokið árið 1977.  Þessar framkvæmdir ollu mikilli uppsveiflu í efnahagslífi og fólksfjölda fylkisins.  Hugmyndir eru uppi um lagningu gasleiðslu.  Árið 1989 fundust geysimiklar olíubirgðir á McIntyretanga við Prudhoeflóa, en verkfræðingar Bandaríkjahers mótmæltu nýtingu þeirra um tíma á grundvelli umhverfissjónarmiða.

Skógarhögg.  Árlega er hægt að fella tré, sem nægja til framleiðslu margra milljarða borðmetra.  Skóglendið inni í landinu, aðallega rauðgreni, Alaskabirki, svartur baðmullarviður, balsamösp og ösp, er gríðarlega víðáttumikið.  Þessi skóglendi ná yfir u.þ.b. þriðjung lands fylkisins, en lítið hefur verið fellt af trjám þar.  Skógarhögg er aðallega stundað á aðgengilegum stöðum meðfram suðurströndinni og í landræmunni, þar sem langir firðir gera aðgengi auðveldara.  Þar eru einkum felld eftirtaldar tegundir:  Marþöll, sitkagreni, rauður sedrusviður og gulur sedrusviður.

Tongass þjóðarskógurinn þekur meira en helming suðausturhluta fylkisins.  Þaðan kemur mikið af timbri á markaðinn.  Einnig selja frumbyggjar, sem eiga stór landssvæði mikið timbur.  Í í trjadeigsmyllunum í Ketchikan er miklu magni af timbri breytt í hráefni til pappírsframleiðslu.  Önnur stór trádeigsmylla er nálægt Sitka.  Hún framleiðir líka hráefni, trádeig og sellulósa, sem er aðallega flutt til Japans.


Landbúnaður.  Alaska flytur vörur inn frá hinum fylkjunum.  Upp undir 90% af innflutningnum er matvörur.  Landið er ekki vel til landbúnaðar fallið.  Frjósamt og gott land er víðast þakið skógi, sem er of dýrt að fella í þessum tilgangi.  Landbúnaðartæki og áburður er líka dýr í innflutningi.  Ræktunartíminn er líka skammur, þótt plöntur og gras vaxi hratt í langri sumarbirtunni.

Bændabýlum fækkaði og ræktað land minnkaði á áttunda og níunda áratugi 20. aldar.  Árið 1989 var ræktað land u.þ.b. 1000 km².  Bezta ræktunarlandið er í Matanuskadal, 80 km norðaustan Anchorage, í Tananaárdal nærri Fairbanks, á láglendissvæðum Kenaiskagans og litlum og mjóum láglendissvæðum landræmunnar.

Verðmætasta uppskera bænda í Alaska er grænmeti, mjólk og egg.  Kartöflur, gulrætur og kál verða mjög stór í vexti í sífelldri sumarbirtunni.  Kartöflur eru meðal þess, sem er stöðugt ræktað.  Það er hægt að rækta alls konar berjategundir.  Framleiðsla mjólkurafurða er mikilvæg.  Hafrar og baunir eru ræktaðar í stað maís og notaðar til vetrarfóðrunar húsdýra.

Ferðaþjónusta.  Þúsundir ferðamanna heimsækja Alaska ár hvert og ferðaþjónustan er þriðji mikilvægasti atvinnuvegur landsins.  Flestir gestirnir koma fljúgandi og  siglandi en æ fleiri koma akandi um Alaskaþjóðveginn.

Samgöngur.  Í Alaska eru rúmlega 200 jarðstöðvar, sem þjóna öllum byggðum með fleiri en 25 íbúa.  Gervitunglinu Aurora var skotið á braut um jörðu árið 1982 fyrir fjarskipti í Alaska.  Sjónvarp um gervihnetti nær til 90% íbúanna.  Margar borgir hafa eigin jarðstöðvar auk kapaltenginga.

Miðsuðurhlutinn er tengdur byggðunum inni í landi með Alaskabrautinni og malbikuðu vegakerfi, sem tengist Alaskahraðbrautinni.  Einu borgirnar í landræmunni, sem eru tengdar Alaskahraðbrautinni eru Porcupine, Klukwan, Haines og Skagway.  Hainshraðbrautin liggur um Kanada til Anchorage og Fairbanks.  Klondike hraðbrautin liggur frá Skagway til Whitehorse á Yukonsvæðinu.

Mikilvægustu samgönguleiðirnar eru í lofti.  Áætlunarflug þjónar öllum borgum og bæjum og margar minni byggðir fá póst og vörur einungis loftleiðis.  Auk áætlunarflugsins er fjöldi smáflugfélaga, sem gera út eigin flugvélar og taka að sér alls konar verkefni.  Alaskaferjurnar, sem líta út eins og skoðunarferðabátar, tengja  borgir og bæi meðfram ströndinni með áætlunarferðum.  Samgöngum í landræmunni er þjónað af mörgum ferjum, sem sigla milli Washingtonríkis og Skagway.  Ferjurnar í suðvesturhlutanum þjóna borgum og bæjum frá Kodiak til Valdez auk sumarferða til Dutch Harbour.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM