Ýmisar fornminjar, s.s. haugar, benda til þess, að fólk hafi
búið í Alabama í a.m.k. 9000 ár. Helztu ættkvíslir indíána
á landnámstímanum voru Chickasaws og Cherokees í
norðurhlutanum og Creeks og Choctaws í suðurhlutanum.
Spánverjar voru líklega fyrstir Evrópumanna til að stíga
fæti á Alabamasvæðið. Alonso Pineda var á ferðinni 1519 og
Pánfilo de Narváez árið 1528, en Frakkar urðu fyrstir til að
stofna til byggðar í og við Louis-virkið árið 1702, Dauphin-virkið
1702 og í Mobile 1711. Kröfur Breta til svæðisins voru
viðurkenndar í Parísarsamningnum árið 1763 en Spánverjar
fengu Mobile og Flóaströndina í öðrum Parísarsamningi 1783.
BNA fengu Alabamasvæðið eftir styrjöldina 1812.
Creek-stríðið (1813-14). Creek-indíánarnir reyndu að
verjast ágangi hvíta mannsins þar til Andrew Jackson,
hershöfðingja, tókst að gjörsigra þá í orrustunni við
Horseshoe Bend 1814.
Árið 1817 varð Alabama hérað í BNA og fullgilt fylki 14.
desember 1819. Tímabilið fyrir borgarastyrjöldina
einkenndist af stöðugri þróun landbúnaðar á plantekrum í
miðju og sunnanverðu fylkinu, flutningi indíána til vesturs
og vaxandi deilum um eðli og lögmæti þrælahalds og
útbreiðslu þess í nýjum héruðum. Þegar Abraham Lincoln var
kjörinn forseti BNA, var fylkisþingið kallað saman og það
samþykkti að segja sig úr lögum við BNA í janúar 1861.
Montgomery varð fyrsta höfuðborg Suðurríkjanna og Jefferson
Davis var skipaður forseti þar í febrúar. Norðurríkin
réðust nokkrum sinnum inn í fylkið og David Farragut,
aðmíráll, hafði sigur í orrustunni við Mobile 1864. Eftir
borgarastyrjöldina var ný stjórnarskrá, sem viðurkenndi
afnám þrælahalds, leidd í lög í desember 1865. Í marz 1867
var fylkið sett undir herstjórn og önnur stjórnarskrá var
lögleidd í nóvember, þar sem 14. grein stjórnarskrár BNA var
staðfest og viðurkennd. Leysingjar brugðu við með því að
iðka frelsi sitt og bæta lífsskilyrði sín. Margir þeirra
voru kosnir til opinberra starfa. Íhaldssöm stefna
demókrata hélzt óbreytt fram undir aldamótin 1900. Sömu
sögu er að segja um meðhöndlun leiguliða og léleg
ræktunarskilyrði á býlum þeirra, þrátt fyrir viðleitni
flokks fólksins (Populists) á síðasta áratugi aldarinnar.
Vöxtur og viðgangur iðnaðar í norðurhluta fylkisins varð
mjög mikilvægur.
Tuttugasta öldin. Sjórnarskráin frá 1901 kvað á
um forréttindi hvítra, sem gerði það að verkum, að fæstir
negrar gátu neytt kosningaréttar síns. Hvítir voru því í
miklum meirihluta í stjórnunarstörfum og á þingi. Þegar
kjörmenn fylkisins greiddu atkvæði um frambjóðanda til
forsetakjörs BNA árið 1948, var Harry S. Truman útnefndur í
stað frambjóðanda, sem barðist fyrir auknum réttindum
svartra. Svipaðs gætti á sjötta og sjöunda áratugnum í
trássi við réttindabaráttu svartra. Þegar svartir hættu að
nota rútur og strætisvagna í Montromery 1955, olli sú aðgerð
upphafi mótmælaaðgerða í maí 1961. Vorið 1963 handtók
lögreglan í Birmingham fjölda mótmælenda í friðsömum hópum
undir forystu Martin Luther King, Jr. Síðan var samið um
ágreiningsatriðin og niðurstaðan var hagstæð negrum.
Mótmælagangan til Montgomery 1965 hraðaði afgreiðslu laga um
kosningarétt. Efnahagsþróunin í Alabama á sjöunda og
áttunda áratugnum var hraðari en á öðrum skeiðum 20. aldar,
einkum vegna aukinnar áherzlu á æðri menntun um öll BNA.
Næsta áratuginn hélt framþróunin áfram en á síðasta áratugi
aldarinnar dróst Alabama afturúr öðrum fylkjum í tekjum á
einstakling. |