Montgomery er höfuðborg Alabamafylkis á frjósömu
landbúnaðarsvæði, sem er kallað Svarta beltið. Þar er mikið
verzlað með baðmull og búfénað og mikill iðnaður á sviði
framleiðslu pappírs, vela, húsgagna, vefnaðarvara, efna og
lyfja, kælibúnaðar, hugbúnaðar og fullvinnslu. Ýmsar aðrar
greinar vega þungt í efnahagslífinu, s.s. skipasmíðar,
ferðaþjónusta, byggingarstarfsemi, ríkisstofnanir,
fjármálastofnanir og nærliggjandi Gunter-herflugvöllurinn.
Alabama Fylkishálskólinn var stofnaður 1874, Auburn-háskólinn
1967, Huntington-miðskólinn 1854 og Troy Fylkisháskólinn
1966. Meðal áhugaverðra staða eru Þinghúsið í grískum
endurreisnarstíl (1851), Montgomery listasafnið, W.A. Gayle
stjörnuskoðunarstöðin,
mannréttindaminnisvarðinn (1989), reistur til minningar um 40 manns,
sem létu lífið í baráttunni fyrir kynþáttajafnrétti á árunum
1954-1968, Cramton Bowl leikvangurinn, þar sem miðskólalið keppa í
ruðningsbolta eftir aðalvertíðina, Garrett Coliseum og Junius Bragg
Smith leikhúsið.
Árið 1819 voru tvö þorp, sem voru sameinuð, á núverandi borgarstæði og
Montgomery varð til. Borgin var nefnd eftir Richard Montgomery,
hershöfðingja í bandaríska frelsisstríðinu. Hún varð að miðstöð
plantekranna í fylkinu og tók við höfuðborgarhlutverkinu af Tuscaloosa
árið 1847. Fimm árum síðar var hún kominn í járnbrautarsamband til
suðvesturs og norðausturs. Borgin var kölluð „Vagga Suðurríkjanna” og
var höfuðborg þeirra til maí 1861. Á sjötta og sjöunda áratug 20.
aldar var borgin vettvangur mikillamótmælaaðgerða og ofbeldis. Árið
1955 vannst einn veigamesti sigur jafnréttisbaráttunnar, þegar
aðskilnaður kynþátta í strætisvögnum og rútum var afnuminn. Martin
Luther King, Jr. stýrði baráttunni, sem leiddi til þessarar niðurstöðu,
og samtökin efldust mjög í kjölfarið. Áætlaður íbúafjöldi 1980 var
177.900 og árið 1990 var hann 187.100. |