Bútan skoðunarvert,
Flag of Bhutan

Aðalsíða Bútan Aðalsíða Ferðaheims    

BÚTAN
SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Thimphu (Thimbu; 2370 m.y.s.; 20þ. íb.) hefur verið höfuðborg landsins síðan 1960.  Hún er um miðbik landsins vestanverðs í breiðum dal samnefndrar ár.  Yfir borginni gnæfir *Tashichho Dzong ('Kastali trúarinnar').  Turninn (Uchi) er frá árinu 1641, en hinn hlutinn var endurnýjaður á árunum 1961/62.  Þarna situr ríkisstjórnin að mestu leyti og þingmenn koma þar saman í þingsalnum.  Þar að auki er þarna krýningarsalurinn og sumarsetur æðstu trúarleiðtoganna (hinn æðsti er Je Khenpo).  Konur mega ekki vera í kastalanum eftir sólsetur.  Ofan kastalans og handan árinnar andspænis konungshöllinni er nýja þjóðarbókhlaðan og Hæstiréttur.

Markaðurinn er við margar götur.  Í Food Corportation of Bhutan, stórmarkaði, sem selur vörur á lágu verði, fást matvæli og heimilisvörur.  Fjöldi áfengisverzlana er búinn einföldum tréborðum og stólum fyrir viðskiptavini sína.  Að auki eru nokkur einföld vöruhús, sem bjóða alls konar neytendavörur (að mestu frá Indlandi).

Í Changgangkhahofinu, sem er í tíbezkum stíl og er örskammt frá markaðnum, eru fallegar freskur og gamlar trégrímur og að utan er það skreytt með andamyndum.

*Minningarmusteri (Tshorten) Jigme Dorji Wangchuk konungs, sem dó 1972, blasir við ofar í dalnum.  Þar eru fagrar trúarlegar veggmyndir.  Þangað er stöðugur straumur pílagríma, sem ganga þar um í auðmýkt og biðja.

Á hverjum sunnudagsmorgni er haldinn markaður í Thimphu.  Þar eru seldir ávextir, grænmeti, kjöt, hressingardrykkir og heimilisvörur.  Á markaðnum er alltaf sérstakur bænasöngvari, sem kemur með trúarskríni með sér.  Þetta skríni er fagurlega skreytt smámálverkum og gylltum myndum.  Samkvæmt gömlum hefðum á að gauka skildingi að honum.

Í nokkurra mínútna akstursfjarlægð utan borgarinnar, neðan við hina stóru byggingu indverska sendiráðsins, er konungshöllin Dechenchholing, þar sem móðir konungsins bjó.  Þar er líka Cherihofið, eitt hið elzta í Bútan.

U.þ.b. 8 km frá borginni er Simtokha Dzong-virkið (1627) til varnar í dalsmynni Thimphu-dalsins.  Þar vekja helzt athygli freskur og útskornar flísar og styttur Buddha og Bodhisattva.  Í virkinu er Rigneyskólinn, þar sem dsonghamálið er kennt auk trúarbragðafræða.  Þaðan liggur 700 m langur stígur upp til klaustursins Phajoding (1748; fallegt útsýni yfri Thimphu).  Á hólunum umhverfis borgina eru nokkur virki og klaustur.

FRÁ  PHUNTSHOLING  TIL THIMPHU Borgin Phuntsholing (270 m.y.s.; 20þ. íb.) er við aðallandamærastöðina að Indlandi.  Um hana liggur þjóðvegurinn til Vestur-Bengal.  Gerð þjóðvegarins milli Phuntsholing og Thimphu, sem deildir úr hernum önnuðust, var meðal mikilvægustu þróunarverkefna landsins á sjöunda áratug 20. aldar.  Vegurinn liggur um þykkan frumskóg á láglendinu, upp í 1800 m hæð, þar sem hann heldur áfram á flötu landi um hríð þar til hann tekur stefnuna upp á við á ný að hæsta punkti í 2516 m hæð.  Síðan lækkar hann lítið eitt niður til Paro.  Gamla reiðleiðin, sem tók 5-6 daga að ferðast um, liggur víða meðfram nýja þjóðveginum.  

Eftir rúmlega þriggja tíma akstur frá Phuntsholing er komið til orkuver-inu Chukha Hydel (útsýnisstaður), sem byrjað var að byggja árið 1976 með indverskum stuðningi.  Þrátt fyrir mikla tæknilega erfiðleika, tókst að ljúka því. Þremur stundarfjórðungum lengra er Bunakha Jakhang, þar sem hægt er að fá hressingu í kaffiteríunni.  Frá Chapchha-skarðinu (2516m; + 40 mín.) er geysigott útsýni yfir farinn veg.  Þrjátíu mínútum handan skarðsins birtist Dobji Dzongvirkið á hól til vinstri.  Þar er nú fangelsi.  Skömmu síðar koma ármót (Chuzom) Paro Chu- og Wang-ánna.  Þar kvíslast vegurinn.  Til vinstri heldur hann áfram inn Hadalinn og til Paro.  Enn þá er tveggja klst. akstur eftir á aðalþjóðveginum til höfuðborgarinnar Thimphu.

Það tekur u.þ.b. 45 mín. að aka leiðina frá Chuzom til Paro (2200m).  Dalurinn, sem ekið er um, er talinn einn fegursti dalur landsins, einkum á vorin, þegar ferskju- og eplatrén standa í blóma.  Áin Paro Chu liðast á milli hrísgrjóna- og hveitiakra og húsa á stangli.  Á hæð við ána, skammt frá flugvellinum, er Rimpung Dzongvirkið (eða Paro Dzong; frá 1645), sem brann árið 1907 og var endurbyggt.  Nú hýsir það opinberar skrifstofur Paro og ríkisklaustur.  Inngarðurinn er ríkulega skreyttur lágmyndum og málverkum.  *Turninn (Uchi) er athyglisvert dæmi um bútanskan byggingarstíl.  Í virkinu er safn heilagra grímna, áhalda, skreytinga og 'thondrel' (stór thangkha) með ásaumuðum skreytingum, sem eru til sýnis á hverju ári í stuttan tíma síðasta morgun tsechhu.  Á veröndinni (kundrey) við innganginn í lhakhang eru ríki himinsins, jarðarinnar og helvítis sýnd á myndrænan hátt.

Handan árinnar, neðan virkisins, er höllin Ugyen Pelri, sem var byggð með 'koparlitaða fjallið', þar sem trúarleiðtoginn Rimpo-che (guru) dvaldist á himnum sem fyrirmynd.  Á bröttum fjallshrygg ofan virkisins gnæfir gamli, kringlótti varðturninn Ta Dzong.  Síðan 1967 hefur hann hýst Þjóðminjasafnið (aðgangseyrir; bannað að taka myndir).  Í safninu eru m.a. thangkhas, gull- og silfurmunir og aðrir listmunir.  Þar er líka safn bútanskra frímerkja og uppstoppuð dýr (þ.á.m. snæhlébarði).  Á leiðinni niður frá safninu er Duntse-hofið, sem Tíbetinn Thangton Gyalpo reisti upphaflega á 15. öld.  Sá hinn sami er frægur fyrir gerð hinnar svonefndu Ísbrúar.
  Handan Parobrúarinnar liggur vegurinn um 100 m langt bazarsvæði og meðfram ánni til norðvesturs.  Átta km lengra er *Kyichu Lhakhang, eitthvert virtasta hof landsins.  Líkt og Jampehofið í Bhumthang var það fyrst byggt á 7. öld.  Miðhofið var reist árið 1830 og síðar viðbyggingin, sem núverandi konungsmóðir lét reisa.  Fínleiki þessara bygginga er mikil andstaða við drungalega kastalana.

Hátt uppi í þverhnípinu ofan vegarins rís *Taktsang-klaustrið ('Tígrisbælið'; 3070m).  Þjóðsagan segir, að Rimpo-che (guru) hafi séð þar fljúgandi kventígur, sem lenti nákvæmlega þar sem klaustrið var reist.  Það varð að pílagrímastað, sem allir Bútanar keppast við að heimsækja a.m.k. einu sinni á ævinni.  Núverandi byggingar eru frá árinu 1692.  Þangað kemst fólk gangandi frá veginum eða leigir sér reiðdýr (asna eða hest) til að komast þangað.  Á leiðinni upp er hægt að fá sér í svanginn í Taktsang Jakhang.  Reiðdýrin flytja fólk að klausturhliðinu, en þaðan þarf að ganga áfram (u.þ.b. 200 m hæðarmunur), en það er erfiðisins virði.  Enn ofar (u.þ.b. 15 mín.) er einsetukofinn Sangtog Pelri ('Himinsklaustrið') frá 17. öld.

Átján km handan Parobrúarinnar endar vegurinn við rústir klausturkastalans Drukgyel Dzong.  Hann var eitt sinn mikilvægur varnarstaður í baráttunni við tíbetsku herina, sem reyndu oft að brjótast inn í Chumbidalinn úr norðvestri, en engin þessara innrása á 17. öld heppnaðist.  Kastalinn skemmdist árið 1954 í eldi og ákveðið var að endurbyggja hann ekki.  Í grennd við kastalann æfa bogaskyttur list sína.  Þegar vel viðrar og skyggni er gott, sést vel til Chomolharifjalls (7316m).  Frá Drukgyel Dzongkastalanum er hægt að komast yfir fjöllin til Ha Dzongkastalans í suðvestri, en útlendingum er ekki leyfður aðgangur að Hadalnum.  Ha var fyrrum mikilvæg miðstöð blómlegra viðskipta við Tíbet og þaðan var fljótlegt og auðvelt að komast til Chumbidalsins.

FRÁ  THIMPHU  TIL  AUSTURHLUTANS Ökuferð frá Thimphu um fagurt skóglendið í fjöllunum um Dochuskarðið (3114m; tehús) til vetrarbústaðar allra Wangchuk-konunganna, Punakha, (1200m) tekur u.þ.b. 3 klst.  Þar er *Puhakhakastalinn (1637), sem er einstætt dæmi um bútanska byggingarlist.  Hann stendur tignarlega við ármót Mo Chu og Pha Chu og á hverju ári er hann í hættu vegna flóða.  Frá hinum sjö hæða turni hans er gott útsýni.  Loftslagið í dalnum er þægilegt og temprað, svo að Lamaprestarnir búa þar líka á veturna, þ.e.a.s. frá fyrsta degi tíunda mánaðar bútanska dagatalsins til fyrsta dags fjórða mánaðar.  Jarðneskar leifar hins fyrsta Shabdrung eru varðveittar í Punakha.  Sjöunda, áttunda og níunda dag fyrsta tunglmánaðar er haldin hátíð til heiðurs og til að milda Mahakala, verndarguðs Bútans.  Síðasta dag Domchey er minnst kænlegra varna landsins gegn Tíbet með dýrum sýningum.  Hámarki nær hátíðin með skrúðgöngu (Serdrang) munkanna í skrautlegum og litríkum silkiklæðum eftir árbakkanum við undirleik bænalúðra, sem aðrir munkar þeyta uppi á þaki kastalans, og leikinn varnarsigur gegn Tíbetum.

Wangdibphodrang Dzong-kastalinn trónir á klettahrygg fyrir ofan ármót Mo Chu, Tang Chu og Sankosh yfir aðalleiðinni til Austur- og Mið-Bútan.  Fyrsti Shabdrung Bútan reisti hann árið 1638.  Höfðingjar í þessum landshlutum komu næstir ráðamönnum í Paro og Tongsa að völdum um aldir.  Kastalinn er drungalegur að sjá, enda leika oftast um hann kaldir vindar.  Falleg trébrú frá 17. öld liggur yfir ána.

Ferð frá Wangdiphodrang um Pele-skarðið (3350m) til Tongsa í Mið-Bútan tekur u.þ.b. 6 klst.  Eftir klukkustundar ferð niður úr skarðinu er komið að brú yfir Nikka Chu og Rukibji Chuzom.  Eftir 3½ tíma ferð frá Wangdip-hodrang kemur Augnahofið í Chendebji í ljós til hægri.  Það er prýtt fallegum höggmyndum á hellugrjóti.

Tongsa (2080m) er ættaróðal Wangchuk konungsfjölskyldunnar.  *Tongsakastalinn (eða Chhokor Rabtse Dzong) er að mörgu leyti hinn glæsilegasti í Bútan.  Einn forfeðra fyrsta Shabdrung byggði hann fyrst árið 1543, en síðar var hann stækkaður verulega.  Aðalleiðin milli austur- og vesturhluta landsins lá beint í gegnum hann, þannig að hann hafði mikið hernaðarlegt gildi.  Þaðan var hægt að hafa eftirlit með öllum austurhluta landsins.  Kastalinn hýsir verðmætt safn útskurðarmynda úr nashyrningshornum, sem eru sjaldan til sýnis.  Í varðturninum (Ta Dzong) ofan aðalbygginga kastalans eru áhugaverðar vegg-myndir og verk, sem sýna Hina himnesku höll Gesars.  Ofan af turninum er gott útsýni yfir Mangde Chu og austur-vestur leiðina.  Kunga Rabtenhöllin, 25 km sunnan Tongsa, var vetrarbústaður annars konungsins í Bútan.

Hin 66 km ferð frá Tongsa í austurátt til markaðsbæjarins Bumthang tekur venjulega 2 klst., en það má búast við töfum og lengri tíma, því að á leiðinni er stöðugt verið að sprengja fyrir vegarstæðum.  Leiðin liggur um Yatu-skarðið (3536m).  Í kringum Bumthang (2650m) eru dalverpin Chume, Chhokor, Gang og Ura.  Í bænum bjó þjóðsagnapersónan og kennarinn Padmalingpa.  Fjöldi athyglisverðra hofa og klaustra er í og umhverfis Bumthang.  Hinar miklu byggingar Jakar Dzong-kastalans eru frá 16. öld og umhverfis þær er rúmlega 1½ km langur múr.  Upprunalegi kastalinn eyðilagðist í eldi og jarðskjálfta árið 1897.  Hann var endurbyggður í byrjun 20. aldar.  Þar búa engir munkar lengur.  Í Jampe Lhakhang eru margar kapellur og fallegar freskur (myndatökubann).  Kurje Lhakhang, við enda vegarins uppi í dalnum, er eitt mikilvægasta musteri landsins.
  Handan árinnar er Tamshing Lhakhang, sem Padmalingpa lét reisa snemma á 16. öld.  Óreglulegar byggingar musterisins er skreytt óvenjulegum, gömlum freskum (vasaljós nauðsynleg).  Sé gengið lengra upp í dalinn, yfir sefbrúna, er komið að Thangbi Lhakhang, klaustri Karma-Kagyupatrúflokksins.  Það nokkurra klukkustunda gangur í viðbót og yfir eina brú enn þá að fara að hinu fagra Ngang Lhakhang (Svanahofinu).  Þaðan er bezt að fara á hestum yfir brattan fjallshrygg niður í Tangdalinn, alla leið til Membertsho.

Mongar Dzong er önnur stærsta byggðin in Austur-Bútan.  Kastalinn var ekki byggður fyrr en árið 1930.  Þaðan liggur vegurinn norður til Lhuntshi Dzong, þar sem karlmenn bera Tchuba að tíbetskri fyrirmynd og lifa tiltölulega góðu lífi af jakuxahjörðum sínum.  Sagt er, að þarna sé fegurstu konur landsins að finna.

Tashigang (1120m) er við vegamót leiðarinnar frá Samdrup Jonghar og austur-vestur leiðarinnar.  Þetta þéttbýlissvæði er þekkt fyrir litríkan og munstraðan vefnað.  Fólk af indverskum uppruna, Kokons, sem þar býr, spinnur og vinnur hið kunna Endi-silki.  Tasingang-Dzong (1667) trónir á bröttum klettahrygg yfir ánni Manas.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM