Bútan sagan,
Flag of Bhutan

Aðalsíða Bútan Aðalsíða Ferðaheims    

BÚTAN
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heimildir um líf og störf fólks á þessu landsvæði áður en búddatrúin hélt innreið sína á 7. öld eru rýrar.  Konungur Tíbets, Srong Bitsan Sgan Po, sem var Buddhatrúar, er sagður hafa reist fyrstu musterin (Lhakhang) í Bútan (í Jampe í Bumthang og í Kyitchu í Paro).  Í lok áttundu aldar ferðaðist hinn heilagi Búddamaður, Padmasambhava (Guru Rimpo-che) frá Tíbet til Bumthang og stofnaði víða á leiðinni fjalla- og hellaklaustur, þ.á.m. hið þekkt-asta, Taktsang (= Tígrisbælið) í Paro-dalnum.

Frá 11. öld urðu Kagjud-kenningar Buddhatrúarinnar ofan á, en á 15.-16. öld kom Padmalingpa hinn lærði (1450-1521) fram með Drukpakenningarnar.  Shabdrung Ngawang Namgjal, sem kom til Bútan frá Tíbet árið 1616, gerði Drukpa að trúargrundvelli í Landi þrumudrekans (Druk-jul). Shabdrung er nú sameiningartákn landsins, löggjafi og stofnandi merkustu klaustra (Drongs) þess.  Hann kom einnig á fót ríkisstjórn, sem byggðist á yfirráðum hinna andlegu og veraldlegu stétta (Je Khempo og Desi) og átti oft í erfiðleikum þar til Sir Ugyen Wangchuk (landstjóri í tongsa frá 1883) var valinn fyrsti konungur Bútan.  Stjórnarformið í Bútan á að mestu rætur að rekja til þessara daga.  Þar er erfðaeinveldi, sem hefur takmarkaða stjórnar-skrá.  Sir Ugyen Wangchuk stjórnaði sem Druk Gjalpo ('Hinn prísaði stjórn-andi Druk-þjóðarinnar') til árisins 1926, þegar sonur hans, Jigme Wangchuk tók við völdum.  Þriðji einvaldurinn, Jigme Dorji Wangchuk tók við völdum árið 1952 en lézt snögglega árið 1972 (43 ára).
  Hann var kallaður Faðir Bútans nútímans og undir hans stjórn breytti landið um svip.  Sonur hans, núverandi konungur, Jigme Singye Wangchuk, tók við völdum 1972 en var krýndur árið 1974.

Í kjölfar brezku Younghusbandherfararinnar til Lhasa gerði Indland stjórnarsáttmála við Bútan árið 1910 til að hindra, að Kínverjar héldu áfram suðurgöngu sinni frá Tíbet.  Indland tók að sér utanríkismál Bútans og gætti þess að allrar hófsemi væri gætt í innanríkismálum.  Eftir að Indland varð sjálfstætt ríki var samningurinn endurnýjaður árið 1949.  Atburðirnir í Tíbet árið 1959 bundu Bútan og Indland sterkari böndum og Indverjar styrktu Bútana til þess að komast nær nútímanum til að hindra að landið hlyti sömu örlög og Tíbet.  Bútan varð meðlimur í S.þ. árið 1971 fyrir tilstilli Indverja.

Eftir 1978, þegar pólitísk spenna minnkaði í Kínverska alþýðulýðveldinu, fóru Bútanar að skjóta stoðum undir sjálfstæði og sjálfræði sitt en hafa þó gætt þess, að ógna ekki um of indverskum hagsmunum.  Indverjar hafa stutt Bútana á ýmsan hátt á leið þeirra til sjálfstæðis, s.s. með því að nema úr gildi landakort, þar sem Bútan er hluti Indlands.  Framfarir innanlands í Bútan auka öryggi fulltrúa landsins á alþjóðlegum vettvangi.  Á síðari árum hefur stjórnin í Bútan staðið í viðræðum við stjórnir Indlands og Kína um varanleg landa-mæri ríkjanna.  Þjálfunardeild indverska hersins (Imtra) hefur þjálfað þúsundir hermanna hins konunglega hers Bútans í Ha Dzong.  Indverjar eiga mikilla hagsmuna að gæta, hvað snertir varnir Bútans, vegna hættunnar á því, að Kínverjar í Tíbet sneiði norðvesturhéruð landsins af um hin svonefndu Siliguri-göng.  Bútanar minnast einnig ítrekaðra innrásartilrauna Tíbeta snemma á 17. öld.

Árið 1953 var bútanska þjóðþingið kallað saman.  Þar sitja 150 þingmenn (105 þeirra kosnir í beinum kosningum).  Tólf þingmenn eru fulltrúar klerka og 33 eru embættismenn.  Þingið kemur saman tvisvar á ári og er æðsta löggjafarsamkundan.  Níu manns skipa hið konunglega ráð, þar af eru fimm þingmenn.  Þetta ráð fundar óreglulega og er í raun hluti ríkisstjórnarinnar.  Konungurinn skipar ríkisstjórnina ráðherrum, þingmönnum og öðrum til þess föllnum embættismönnum.  Konungurinn hefur öll völdin í hendi sér, þótt hann geri sér far um að fara að ráðum stjórnar sinnar.

Höfuðborg landsins og setur konungsins er Thimphu.  Landinu er skipt í 18 stjórnsýslusvæði, sem lúta landstjóra hvert um sig.  Bútan er aðili að S.þ., Samtökum Asíu- og Kyrrahafsríkja um viðskipti og félagsleg málefni, Asíska þróunarbankanum og UNESCO.  Ríkið hefur sendiráð í Nýju-Dheli (Indlandi), Dhaka (Bengalalandi), fastafulltrúa hjá S.þ. og ræðisskrifstofu í Kúvæt.  Í Hongkong og Singapúr eru heiðursræðismenn.  Sendiráðum erlendis mun fjölga smám saman, þegar hæfum embættismönnum til slíkra starfa fjölgar í landinu.

Bútan er bundið Indlandi sterkum viðskiptaböndum.  Landbúnaður er aðalatvinnuvegur landsins og miðast við að sinna þörfum íbúanna.  Trúarbrögðin byggjast verulega á ræktun jarðarinnar (hrísgrjón, hveiti, maís, bók-hveiti, bygg, grænmeti og ávextir).  Nálægt 98% íbúanna eiga landskika ( 1,5 hektara að meðaltali á fjölskyldu).  Þessir skikar og ýmiss handiðnaður (timburvinnsla, útskurður, vefnaður, silfursmíði) tryggja fólkinu lágmarkslífs-kjör.  Iðnþróunin er hægfara og gengur helzt fram með stuðningi Indverja.  Þróun viðskipta strandar helzt á skorti á hæfu og menntuðu fólki og þjóðskipulaginu í heild.  Of hröð þróun yrði því um megn og ylli miklum skaða.

Bútanar höfðu mikil viðskipti við Tíbet í norðri og Assam og Bengal í suðri.  Einangrunarstefna hefur ríkt mestan hluta 20. aldarinnar.  Faðir núverandi konungs (1995) opnaði landið varfærnislega á síðari hluta valdatíðar sinnar með aðstoð Indverja, sem áttu og eiga varnarhagsmuna að gæta í Bútan.  Í lok sjötta áratugar  20. aldar hófst lagning þjóðvegar til austurs og vesturs milli aðaldala landsins og suður til Indlands.  Mikill fjöldi konungsborins fólks og fulltrúa erlendra ríkja var viðstaddur krýningu núverandi konungs landsins árið 1974, en fram að því höfðu erfiðar samgöngur haldið útlendingum frá landinu.  Síðan þá er fólki í skipulögðum hópferðum hleypt hindrunarlaust inn í landið.  Ferðamenn, sem heimsækja Bútan nú (1995), eru tiltölulega fáir, en stefnt er að því að laða mun fleiri þangað á komandi árum.  Margt ferðamálamenntað fólk frá Alpalöndunum hefur aðstoðað Bútana við undirbúninginn.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM