Bútan afþreying matur innkaup,
Flag of Bhutan


BÚTAN
AFÞREYING, MATUR, DRYKKUR, INNKAUP

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Næturlífið:  Skemmst frá að segja er það heldur rýrt.  Verzlanir og veitingahús loka flest kl. 19:00.  Það eru barir á öllum hótelum, þar sem er boðið innlent og erlent vín og áfengi.  Stundum eru sýndar kynningar- og menningarkvikmyndir um Bhútan í hótelunum í Thimphu.

Þjóðdansar og -söngvar:  Beztu skemmtanir, sem erlendum gestum eru boðnar, eru gömul þjóðlög og dansar, sem hafa verið iðkaðir um aldir í landinu.  Þess konar sýningar eru mismunandi milli staða í landinu en allar skrautlegar.  Stundum stendur 'Hinn konunglegi dansflokkur' fyrir afbragðssýningum undir beru lofti eða í sölum einhvers hótelanna.  Gestir í Bútan fá bezta mynd af lífsvenjum Bhútana, gleði þeirra, jafnaðargeði og dálæti á litadýrð með því að ferðast um landið.

Þjóðbúningar:
  Hinn síði fatnaður karlmanna heitir kho.  Honum er vafið um mittið og ofan beltisstaðar er hann tekinn saman í poka, sem hægt er að geyma í furðu-mikið dót.  Allir fullorðnir embættismenn bera sverð við opinber tækifæri.  Ökklasíður fatnaður kvenna heitir 'kira'.  Honum er haldið uppi með mittislinda (kera) og tveimur silfurspennum á öxlunum.  Efnið, sem er notað í kho og kira er ofið í 9 m lengd og 22 sm breidd og það þarf að nota tvo slíka dúka í hvorn klæðnað.  Hvert landsvæði hefur sín hefðbundnu munstur, en mörg þeirra sjást víða.

Íþróttir:  Bogfimi er þjóðaríþrótt og gaman að fylgjast með æfingum á sunnudögum.  Þar að auki stundar fólk knattspyrnu, blak, golf, tennis, körfubolta, badminton og borðtennis.  Konungurinn er ákafur íþróttamaður og styrkir flestar íþróttagreinar.  Stangaveiði er hægt að stunda í mörgum ám landsins.

MATUR  og  DRYKKUR Ferðamenn borða oftast í hótelum eða gistihúsum.  Mat- og framreiðsla hefur batnað áþreifanlega á síðustu árum síðan matreiðslumenn og þjónustufólk fór að sækja reynslu til útlanda (Hongkong).  Víða eru matseðlar með bútönskum, indverskum, kínverskum og alþjóðlegum réttum.  Mikið skortir á gæði matar á veitingastöðum utan hótelanna.

Matur:  Innlent fæði byggist mikið á grænmeti.  Bútanska hrísgrjóna- og hafra-súpan Thukpa er næringarrík.  Hogaysalat er einkum borið fram með sterkum jakosti.  Rauðu, bútönsku piparbelgirnir (ferskir eða sólþurrkaðir) eru mjög bragðsterkir.  Helztu matvælin eru rauð hrísgrjón, safranhrísgrjón (desi), ostur (dartsi), kartöflur (kewa), svínasteik með blaðsalati (faksha bejum), svínakjöt (paa), steiktur svínshaus (phabay goto), nautakjötsbitar (momo) og karrýhæna (jasha maru).

Það fást góð brauð og kökur í 'Svissneska bakaríinu' í Thimphu.  Þurrkaðir jakoststeningar (churpi), sem eru þræddir upp á band, eru tuggðir alls staðar.

Bjóði Bútanar gestum heim, bíður þeirra margréttuð máltíð, t.d. spínat og jakostur, steikt bygg (tsampa), souza (drykkur), kál í karrý með osti, svínasteik (oftast feit), niðursneitt og þurrkað jakuxakjöt (bragðið líkist lambakjöti) og rauð hrísgrjón.  Að auki er borinn fram einn áfengur drykkur.

Drykkir:  Souza er bútanskt te með smásóda, smjöri og salti, sem öllu er hrært vel saman.  Þessi blanda bragðast framandi en er hressandi.  Chang er bruggað úr gerjuðu hveiti og bragðast eins og þunnur þrúgusafi.  Tomba, drykkur úr gerjuðu hirsi, er drukkið úr tré- eða bambuskönnum (tomba dunchu), sem eru fylltar upp að brúnum með hirsinu og heitu vatni hellt yfir.  Síðan er lögurinn drukkinn í gegnum bambusrör (phib sing), sem kemur út úr botni könnunnar.  Innlendar áfengisverksmiðjur (í Samchi og Gaylephug) framleiða ýmiss konar snapsa og viskí ('Buthan Mist' og 'Special Courier').  Eplabrennivín ('Penjola's Magpie Brand') er framleitt í Bumthang.  Þegar eplasafinn er unninn í oktober ár hver, er lítill hluti hans látinn gerjast í nokkra mánuði, þar til hann fær réttu anganina.  Indverski bjórinn 'Golden Eagle' fæst víðast hvar.

INNKAUP Hyggist fólk kaupa forngripi eða aðra verðmæta muni, er betra að kynna sér ítarlega reglur, sem gilda um útflutning slíkra hluta.

Alls konar minjagripir fást á mörkuðum í borgum landsins og flestir kaupmennirnir skilja og tala hrafl í ensku.  Þar er m.a. hægt að finna gamla silfurmuni eða tíbetska og bútanska mynt úr eðalmálmum.  Nokkrir gullsmiðir í Thimphu smíða gripi eftir pöntunum:  Chukar (ílát úr blöðum og hnetum betelpálmans) og trimi (steinskrín) eru góð dæmi um listmuni.  Listmunaverzlunin í miðbæ Thimphu er aðeins opin á virkum dögum.  Þar fást úrvals list-munir á aðeins hærra verði en á mörkuðunum.  Þar fást pappagrímur, skrautprentun á handunninn pappír, handofnir ullar- og silkidúkar, bænamillur, thankhas, helgimunir úr silfri og kopar, hringar og aðrir skartgripir.  Náttúrulituð efni úr ull og endisilki (burra), sem eru m.a. notuð í bútanska þjóðbúninginn, eru í gæðaflokki.  Á okkar dögum er notað sífellt meira af gervilitum.

Konungsríkið Bhútan gefur út falleg frímerki, sem margir kaupa sem minjagripi.  Þau fást sjaldnast í úrvali á hótelunum, þannig að betra er að snúa sér beint til aðalpósthússins í Thimphu eða til frímerkjadeildar pósthússins í Phuntsholing.

Lítið er um bækur um Bhútan á erlendum tungum í landinu.  Helzt er að fá þær á ensku í 'Oxford-bókabúðunum' í indversku borgunum Dheli (Connaught Circus), Calcutta (17th Street) og Darjeeling (Mall).

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM