Brugge er höfuðborg héraðsins Vestur-Flanders í
grennd við hafnarborgina Oostende í norðvesturhluta Belgíu. Nokkrar járnbrautaleiðir liggja að borginni og skipaskurðir
til Oostende, Gent og Zeebrugge. Borgin
er kunn fyrir kniplingasaum. Iðnaðurinn
byggist á vefnaði, efnaiðnaði, bruggi og skipasmíðum. Meðal áhugaverðra staða eru rúmlega 50 brýr yfir skurðina
og opnast, þegar bátar og skip fara um þá.
Þarna eru líka margar miðaldabyggingar, s.s. Halles (13. aldar
markaðshöll með 108 m háum klukkuturni), Dómkirkja hl. Salvator
(13.-14. öld), Dýrðarblóðskapellan (12. öld), Sjúkrahús hl. Jóhannesar
(12. öld), Vorfrúarkirkja (13. öld; 122 m hár turn) og ráðhúsið
(hið elzta í Belgíu; 14. öld).
Meðal fjársjóða borgarinnar eru marmarastytta af guðsmóður
og jésúbarninu, sem talin er eftir Michelangelo og málverk eftir Hans
Memling og Jan van Eyck.
Greifarnir af Flandern víggirtu
Brugge á 9. öld. Þá var
borgin tengd sjó um ána Zwyn og næstu fjórar aldirnar jókst mikilvægi
hennar sem hafnarborgar og hún varð Hansaborg árið 1340.
Borgin dafnaði allt til loka 15. aldar á meðan hún var ein aðalmiðstöðvar
heims í viðskiptum og framleiðslu ullarvöru.
Þá vór að halla undan fæti, aðallega vegna þess, að áin
smáfylltis af framburði. Vefnaðariðnaðurinn
hrundi og iðnfélögin leystust upp.
Brugge náði sér aldrei aftur á sviðum viðskipta og framleiðslu
og fyrir lok 16. aldar var farið að kalla hana Dauðu-Brugge
(Bruges-la-Morte). Á árunum
1795 til 1814 (franska byltingin og Napóleonsstríðin) var hún undir
stjórn Frakka. Niðurlönd
náðu yfirráðunum á árunum 1814-31, þegar Belgía fékk loks sjálfstæði.
Gröftur skurðarins milli Brugge og Zeebrugge snemma á 20. öld
jók verulega á viðskipti í borginni.
Þjóðverjar hernámu borgina frá 1914-1918 í fyrri heimsstyrjöldinni
og aftur í síðari heimsstyrjöldinni.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1991 var tæplega 117 þúsund. |