Antverpen Belgía,
Flag of Belgium


ANTVERPEN
BELGÍA
.

.

Utanríkisrnt.

 

Auk þess að vera stærsta hafnarborg Evrópu er Antverpen stærsta flæmskumælandi borg Belgíu.  Hún er við Scheltána, 89 km frá Norðursjó.  Borgin skiptist í ýmsa sögulega hluta:  Gamla kjarnann, sem er innan 16. aldar borgarmúranna; 19. aldar bæinn, sem teygist út frá gamla hlutanum og hlutann, sem varð til eftir síðari heimsstyrjöldina.  Margar sögulegar byggingar sluppu heilar frá sprengjuregni beggja heimsstyrjaldanna.  Miðaldakastalinn Steen gnæfir yfir höfnina.  Hlutar hans eru frá 10. öld.  Heimili og vinnustofa listamannsins Peter Paul Rubens, þar sem hann bjó frá 1616 til dauðadags árið 1640, hafa verið endurbyggð.  Grafhýsi hans er í St. James kirkjunni, sem státar af mörgum listaverkum.  Flæmsku málararnir Van Dyck, Matsys, Brueghels, Teniers og Jordaens bjuggu líka í Antverpen.  Prentsmiðja Kristofers Planins frá 16. öld er nú prentlistarsafn.

Sprengjuárásir Þjóðverja ollu mikilli eyðileggingu í síðari heimsstyrjöldinni.  Höfnin var endurbyggð með nýjum lokum, bryggum og járnbrautastöð.  Snúningssvæði skipa var stækkað og ný olíuhöfn var byggð.  Borgin tengist láglendissvæðunum umhverfis með járnbrautum, ám og skurðum.  Uppistaða viðskiptalífsins við höfnina eru inn- og útflutningsfyrirtæki, bankar, tryggingafyrirtæki og flutningafyrirtæki.  Iðnaður í borginni byggist á sykurhreinsun, bjórbruggi, áfengisframleiðslu, blúndugerð o.fl.  Einnig er þar bílaframleiðsla, framleiðsla ýmissar vöru úr olíu og elektrónísk tæki.  Antverpen er ein mikilvægasta miðstöð demantaslípunar.

Antverpen var stofnuð á 7. öld og var í byrjun virkisþorp og verzlunarstaður við lygna á.  Á 12. öld varð hún að hafnarborg.  Verzlun og viðskipti efldust og brátt varð borgin að auðugri Hansaborg.  Antverpen lifði sitt blómaskeið upp úr 1560 en trúabragðadeilur við Spánverja leiddu til styrjaldar.  Herir Filips II stráfelldu 7000 borgarbúa og brenndu 800 hús.

Napóleon Frakklandskeisari gerði sér ljóst hernaðarlegt mikilvægi borgarinnar í lok 18. aldar.  Frá síðari hluta 19. aldar hefur borgin vaxið stöðugt, nema á stríðstímum.  Þjóðverjar hernámu hana í fyrri og síðari heimsstyrjöldunum.  Borgarbúar höfðu hraðar hendur við endurreisn borgarinnar í bæði skiptin.  Íbúafjöldinn var tæplega 500.000 árið 1987.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM