Inaguaeyjar eru
tvær: Great- og Little
Inagua. Flatarmál þeirra
er 1.657 km². Íbúafjöldi
u.þ.b. 1.500.
Áætlunarflug
frá Nassau og South Caicos til Matthew Town á Great Inagua.
Ferðir á sjó oft í viku frá Nassau um Acklins og Long Island
til Matthew Town.
STÓRA INAGUAEYJA
liggur u.þ.b. 600 km suðaustan Nassau og Little Inagua 10 km
norðan hennar. Great
Inagua er syðsta eyja Bahamaeyja.
Mikið er af söltum mýrum og vötnum og varpstöðvum margra
sjaldgæfra fugla á eyjunni, sem er mjög strjálbýl.
Þar eiga tugir þúsunda flamingóa varpstöðvar.
Nafn
eyjanna er dregið af spænsku orðunum ileno (fullur) og agua (vatn),
enda voru þær undir yfirráðum Spánverja um tíma.
Um miðja 18. öld settust þar næstum eingöngu Frakkar vegna
hernaðarlega mikilvægrar legu eyjanna.
Þegar um aldamótin 1800 var íbúunum ljóst verðmæti
saltsins, sem vinna mátti úr mýrunum og lónunum.
Eftir að Matthew Town byggðist, risu heilmikil mannvirki til
saltvinnslu og megnið af saltinu var flutt til Bandaríkjanna.
Í
lok 19. aldar þróaðist vinnumarkaður fyrir útgerðir í
Atlantshafssiglingum. Skipafélög,
s.s. Hamborgar-Ameríkufélagið, réðu áhafnir á Inaguaeyjum. Vinnumarkaðurinn teygði sig alla leið til S.-Ameríku, en
fjöldi Inaguabúa fór þangað til að vinna um skemmri og lengri tíma.
Þeir unnu m.a. við gerð Panamaskurðarins, lagningu járnbrautar
í Mexíkó o.fl. Fyrri
heimsstyrjöldin hindraði þennan uppgang og margir fluttu frá Inagua.
Það var ekki fyrr en 1936, að bandarískir innflytjendur
endurvöktu saltvinnsluna og reistu efnahaginn við aftur.
Saltvinnslan nemur u.þ.b. 750.000 tonnum á ári og þau eru
flutt til Bandaríkjanna.
Höfuðbær Inaguaeyja,
Matthew Town
(íb. 1.400), er á
Great Inagua. Salthúsið
í bænum er frá 18. og 19.öldum.
Hlið þess er skreytt með múrsteinum, sem teknir voru úr rústum
bæjarins Port Royal á Jamaica. Í
grennd við bæinn er saltvinnsla Morton Salt Crystal Ltd., sem er meðal
stærstu slíkra í heimi (750.000 tonn á ári).
**National
Trust Park
er
einstætt náttúruverndarsvæði umhverfis Rosa-vatnið (Lake Windsor)
á eyjunni Great Inagua. Þar
eru varpstöðvar u.þ.b. 40.000 flamingóa, sem eru þær stærstu í
Vesturheimi. Þar er að finna, eins og víðar við vötn, skeiðskarfa,
fiskiskarfa og kólibrífugla og tugi þúsunda leðurblakna í
karsthellum. Hægt er að
skipuleggja skoðunarferðir um þjóðgarðinn í samvinnu við Bahamas
National Trust Bureau í Nassau P.O. Box 4105, sími (809) 323-1317.
North East Point er erfiður aðgöngu.
Þar eru rústir griðarstaðar (1900) Henri Christophe, sem síðar
varð einvaldur á Haiti.
LITLA
INAGUAEYJA
liggur
10 km norðan Great Inagua. Hún
er 70 km², umgirt kóralrifjum og að mestu ósnortin.
Þar lifa villtar geitur og asnar, sem frönsku landnemarnir
fluttu þangað auk nokkurra sjaldgæfra skarfategunda. |