Eleuthera Bahamaeyjar,


ELEUTHERA
BAHAMAEYJAR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Aðrar eyjar, sem tilheyra svæðinu eru: Cupid's Cay, Windemere Island, St. George's Cay, Harbour Island.  Heildarflatarmál er 518 km² og íbúafjöldi u.þ.b. 10.000.  Áætlunarflug frá Nassau og Miami til N.-Eleuthera, Governor's Harbour og Rock Sound.  Bátsferðir oft í viku frá Nassau og öðrum Bahamaeyjum til Spanish Wells, Harbour Island, The Bluff, Hatched Bay, Governor's Harbour, Rock Sound, Davis Harbour, Wemyss Bight og Bannerman Town.

Hin sigðlaga Eleuthera liggur u.þ.b. 65 km austan New Providence.  Hún er þróuðust hinna svonefndu ytri eyja.  Hún er nefnd forðabúr Bahamaeyja, því að mikið er ræktað af  grænmeti, ávöxtum, nautgripum og alifuglum og þegar yfir hana er litið líkist hún mest brezku landbúnaðarhéraði.  Ferðaþjónusta er líka gróin atvinnugrein.  Sjórinn umhverfis er vel til köfunar fallinn.

Árið 1647 strönduðu nokkrir tugir landnema frá Englandi og öðrum Bermúda við eyjuna.  Eleutherísku (þýðir: friður) ævintýramennirnir stofnuðu fyrsta lýðveldi nýja heimsins  á eyjunni.  Þessi tími lifir enn þá í fallegum bæjum og litríkum húsum.


Suður-Eleuthera
Rock Sound
er stærsta þorp eyjarinnar og höfnin er mjög góð frá náttúrunnar hendi.  Ferðaþjónustan hefur vaxið mjög.  Í grennd við bæinn eru nokkrir stórir nautgripabúgarðar.

*Cotton Bay er nýtt orlofssvæði sunnan Rock Sound og annað við *Cape Eleuthera, þar sem Bruce Devlin og Bob Van Hagge hafa útbúið einhvern bezta og fallegasta golfvöll í heimi.

Davis Harbour er á syðsta odda eyjarinnar.  Höfnin er vinsæl meðal snekkjueigenda og fiskibærinn Wemyss Bight.

Millers.  Þar hefur nokkrum rústum fyrrum plantekrubústaða verið haldið við.
Bannerman Town
er vingjarnlegur lítill bær við suðuroddann.  Falleg baðströnd.
Tarpum Bay er fallegt fiskiþorp norðan Rock Sound.  Það er vinsæll samkomustaður listamanna og velútbúinn ferðamannastaður.

Ocean Hole er >150 m djúp hola, full af sjó, á miðri eyjunni.  Hún er tengd Atlantshafinu í gegnum neðansjávarhella og þar má oft sjá ýmiss konar sjávardýr.

Mið-Eleuthera
Governor's Harbour
stendur við fallegan vog við miðbik eyjarinnar.  Á síðustu árum hafa ferðamenn komið þangað sér til heilsubótar.  Þar er strámarkaður og listasafn.  Stíflugarður liggur til Cupid Cay, þar sem landnemarnir frá Bermúda tóku land 1647. Nokkrum húsum í Bahama-stíl hefur verið haldið við.

North- and South Palmetto Points.  Þessi tvö þorp eru nokkrum km sunnan við Governor's Harbour.  Þar hafa nokkur hótel verið byggð á síðustu árum.

Savannah Sound er lítið og vinalegt fiskiþorp u.þ.b. 15 km suðaustan Governor's Harbour.

James Cistern er fiskiþorp með rólegu yfirbragði rétt fyrir norðan Governor's Harbour.  Sé ekið þaðan um Alice Town er komið til Hatched Bay, miðstöð alifugla og mjólkurframleiðslu á Bahamaeyjum.  Í grenndinni  eru The Caves, hellar með fögrum dropasteinsmyndunum.

Gregory Town er norðan Hatched Bay.  þar er miðstöð matvælaiðnaðar.  Höfnin, The Cove, var fyrrum bækistöð sjóræningja.  Mikið er ræktað af ananas í kringum bæinn.  Ströndin, sem snýr að Atlantshafinu, er hin bezta til iðkunar segl-og brimbrettaíþrótta í Karíbahafinu.

* Glass Window eru leifar náttúrulegrar brúar yfir mjósta stað eyjarinnar, þar sem dökkblátt Atlantshafið er annars vegar og grænleitur sjórinn í Middle Ground hins vegar.

Preacher's Cave er hellirinn, sem skipbrotsmenn fundu skjól í árið 1647.  Fyrir norðurströndinni liggja mörg flök á sjávarbotni, þ.á.m. er rússneskt flutningaskip, sem fórst þar fyrir nokkrum árum. Það flutti farm af járnbrautarvögnum til Kúbu.

Current Island er fyrir norðurströndinni með samnefndu þorpi.  Norðan Current Island er aragrúi kóralskerja, þar sem fjöldi skipa, sem ætlað var að brjóta hafnbann Norðurríkjamanna í bandaríska frelsisstríðinu, fórst.  Þar geta kafarar leitað skipsflaka af hjartans lyst.

*Boiling Hole er hellir í sandöldu á Current Island, þar sem sjórinn kraumar mjög við fallaskipti.

Spanish Wells er líka fyrir norðurströndinni (800 íbúar).  Falleg draumaeyja, þar sem Spánverjar lögðu að til að sækja vatn á skip sín.  Samnefnt þorp er við skjólsæla og náttúrulega höfn.  Hersveitir Norðurríkjamanna brenndu það til grunna árið1812.  Litrík húsin gera þorpið mjög aðlaðandi.  Góðar. baðstrendur og köfunaraðstaða.

*Harbour Island er fyrir norðausturströndinni. Hún er 4 km² og íbúafjöldi er 1.500.  Fjölsóttur ferðamannastaður vegna góðra baðstranda og litríkst blómaskrúðs.  Englendingar settust þar að árið 1694 og enn þá tala afkomendurnir, sem kallaðir eru Brilanders, gamla mállýzku frá tímum Elísabetar Englandsdrottningar.

Dunmore Town er aðalbærinn á Harbour Island.  Þar höfðu strandhöggvarar og sjóræningjar bækistöðvar sínar.  Þetta er nýlendubær, sem nefndur var eftir jarlinum af Dunmore, sem var landsstjóri Bahamaeyja 1786-1797 og eyddi sumarleyfum þar.  Meþódistakirkjan, sem byggð var árið 1835, er eitt stærstu guðshúsanna á Bahamaeyjum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM