Salzkammergut Austurríki,


SALZKAMMERGUT
AUSTURRÍKI

.

.

Utanríkisrnt.

Salzkammergut er eitthvert fegursta svæði Alpanna í Efra-Austurríki, Salzburg Land og Steiermark.  Foralpa- og Alpalandslag í sinni fegurstu mynd með fjallavötnum.  Svæðið takmarkast af Dachstein í suðri og Almtal í austri en Salzburg í vestri.  Stærstur hluti þess er í Efra-Austurríki.  Fuschl- og Wolfgang-vötnin teygjast inn í Salzburg Land og Ausseer Land inn í Steiermark.  Upprunalega náði nafnið Salzkammergut yfir svæðið umhverfis Bad Ischl, þar sem salt var unnið úr jörðu.

*Mondsee er í 481 m hæð.  Það er 11 km langt og rúmlega 2 km breitt og eitt hlýjasta vatnið í Salz-kammergut.  Schafsberg (Sauðafell) og Drachenwand (Drekaveggur) í baksýn vatnsins ljá því undur fagra mynd og yfirbragð.  Skógi vaxnar hæðir með bændabýlum og þorpum eru umhverfis það.  Í þorpinu 'Markt Mondsee' eru íbúar u.þ.b. 4000.  Drekaveggur rís lóðréttur (600 m) upp úr suðvestanverðu vatninu og í suðri rís hið 1800 m háa Sauðafell.

*Traunsee er í 422 m hæð.  Það er 12 km langt, 3 km breitt og allt að 191 m djúpt. Það er meðal stærstu vatna í Salzkammergut.  Tindar Erlakogels gnæfa yfir Traunsee að austanverðu (1570 m), auk Hochkogels og Traunstein.  Aðalþjóðvegur Salzkammergut bugðast meðfram vestanverðu vatninu, að hluta til sprengdur inn í bergið.  Landslagið á leiðinni er stórkostlegt.

*Wolfgangsee er í 535 m hæð.  Það er 10 km langt, 2 km breitt og 114 m djúpt.  Það er þekktasta vatnið í Salzkammergut, umkringt skógi vöxnum hæðum og fjöllum, berum að ofan (topplausum).  Í norðri rís Sauðafell (Schafsberg) yfir hinn bratta Fálkasteinsvegg og við St. Gilgen rís Tylftarhorn (Zwölferhorn), sem innfæddir kalla líka 'Abersee'.  Meðfram suðurströndinni liggur vegurinn milli St. Gilgen og Bad Ischl en frá Strobl er hægt að komast til St. Wolfgang.  Norðurströnd vatnsins er veglaus vegna brattra fjalla.  Í St. Gilgen búa u.þ.b. 3000 manns.  Þar er húsið, sem móðir Mozarts fæddist í.  Hún hét anna María Pertl (1720-78).  Í þorpinu er líka fallegur Mozartbrunnur.  St. Wolfgang er í 549 m hæð og íbúafjöldinn er u.þ.b. 2500.  Það er við rætur Sauðafells og er vinsæll ferðamannastaður sumar og vetur.  Þorpið varð þekkt fyrir óperettu Ralph Benatzkys,"Hvíta hrossið" (Weisses Rössl) frá 1712, er samnefnt hótel var í eigu fjölskyldu hans.  Kirkja þorpsins er skoðunarverð, m.a. háaltarið (Michael Pacher) frá 1481.  Kirkjan var byggð á árunum 1470-77.  Tvöfalt altari í kirkjunni er helgað heilögum Wolfgang og Jóhannesi skírara og er aðalverk Thomas Schwantaler (1675-76).

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM