Mayerling Austurríki,


MAYERLING
AUSTURRÍKI

.

.

Utanríkisrnt.

Hinn 30. janúar 1889 var tilkynnt um lát Rudolfs af Habsburg, ríkiserfingja og einkasonar Franz Josefs keisara Austurríkis og Ungverjalands.  Sagt var að hann hefði fengið hjartaáfall við veiðar í Vínarskógi suðaustan Vínar.  Síðan kom sú skýring, að hann hefði framið sjálfsmorð í geðveikiskasti í veiðihöllinni Mayerling.  Þessi atburður vakti mikla athygli og undrun.

Rudolf af Habsburg hafði vakið vonir almennings um aldahvörf, því hann var maður frjálslyndur í skoðunum.  Fólk var farið að hlakka til meira frjálsræðis og félagslegra umbóta, þegar gamli keisarinn hyrfi af sjónarsviðinu.  Í Ungverjalandi dreymdi fólk um sjálfstæði með Rudolf sem þjóðhöfðingja.  Hirðinni var ljóst, hve mjög ríkiserfinginn leið fyrir hina stjórnmálalegu óvirkni, sem hann neyddist til að tileinka sér.  Það ríkti mikil spenna milli hans og föðurins og ekki bætti úr skák, að Rudolf var mildur í eðli sínu og þjáðist oft af miklu þunglyndi fyrir bragðið.

Nokkrum dögum eftir þetta áfall spurðust út fréttir, sem hirðin reyndi af öllum mætti að draga úr.  Hin unga barónessa, Mary Vetsera, sem bjó samtímis í veiðihöllinni, hafði látizt með Rudolf.

Austurrísku blöðunum var bannað að skrifa um hana en þeim mun meira var um þetta talað í erlendum blöðum.  Sagt var að Rudolf hefði fyrst skotið Mary og síðan sjálfan sig.  Þau elskuðu hvort annað heitt en Rudolf var í óhamingjusömu hjónabandi með belgísku prinsessunni Stephanie, sem hann átti dóttur með.  Ást ríkiserfingjans og ungu stúlkunnar var vonlaus.  Þau höfðu ekki fundið aðra leið en að sameinast í dauðanum.  Áður en það gerðist hafði Rudolf skrifað mörg kveðjubréf.

Kjaftasögurnar döfnuðu í Vín eftir að reynt var að breiða yfir atburðina.  Sagt var að Mary hefði skotið Rudolf í afbrýðiskasti.  Sumir sögðu, að hún hefði framið sjálfsmorð eftir að hann hefði hafnað henni og síðan hefðu nokkrir aðdáendur hennar skotið ríkiserfingjann.

Sagan um hið rómantíska og ástfangna, unga par, sem vildi frekar sameinast í dauðanum, fremur en að eiga þess ekki kost að ná saman í lífinu, hefur orðið lífseigust.  Rudolf kaus þetta frekar en lífið, þegar stjórnmálalegar ástæður knúðu hann til að rjúfa samband þeirra.  Margar skáldsögur hafa verið skrifaðar um líf þeirra og dauða og fjórar kvikmyndir hafa verið gerðar.  Heimsfrægir kvikmyndaleiknarar, Charles Boyer og Omar Shariff, hafa leikið ríkiserfingjann og Danielle Darrieux og Catherine Deneuve hafa leikið Mary.

Þrátt fyrir allar staðreyndir, sem hafa komið fram í málinu, er það enn þá gáta.  Hvað gerðist eiginlega í Mayerling?  Hver er sannleikurinn um ríkiserfingjann og ungu stúlkuna, sem voru svo ástfangin?  Tveir austurrískir grúskarar hafa sett fram kenningar sínar eftir ítarlegar rannsóknir.  Hvor um sig segir sína kenningu vera hina sönnu og þær eru ólíkar hvorri annarri.

Prófessor Zerzawy frá Baden, aðeins 16 km frá Mayerling, var orðinn háaldraður, þegar hann sagði sína sögu árið 1967.  Hann fullyrti, að ástarharmleikurinn væri uppspuni að mestu leyti.

Átta mánuðum fyrir skyndilegan dauða sinn var hin 17 ára gamla Mary Vetsera kynnt fyrir Rudolf á veðreiðum nærri Vín.  Hún var hrífandi fögur og var nýkomin til hirðarinnar.  Hún átti sér þegar marga aðdáendur.  Einn þeirra var Mikael af Braganza, ættingi portúgölsku konungsfjölskyldunnar.  Uppi var orðrómur um trúlofun þeirra.

Mary féll kylliflöt fyrir Rudolf og ljóst var, að hann var lengi mjög hrifinn af henni.  Það kom samt ekki í veg fyrir samband hans við aðrar konur, m.a. þekkta leikkonu.  Marie Larisch, greifynja, sem var trúnaðarmaður Rudolfs, kom mikið við sögu í sambandi þeirra.  Móðir Mary var mjög upp með sér, þegar hin áhrifamikla greifynja tók stúlkuna upp á sína arma, fór með hana í bæjarferðir í Vín og hafði eftirlit með henni í félagslífinu. Henni var ekki ljóst lengi, að hin umhyggjusama greifynja skipulagði ástarfundi hennar og Rudolfs.

Þessir stuttu og forboðnu fundir áttu sér stað á ýmsum stöðum í bænum.  Einu sinni áttu elskendurnir fund í hótelíbúð greifynjunnar.  Stundum gat Mary laumast í burtu að heiman að kvöldi til.  Henni var ekið í vagni til keisarahallarinnar og smyglað inn í íbúð Rudolfs.  Hún hafði aldrei eytt heilli nótt með Rudolf áður en henni var ekið til Mayerling á vit örlaganna.

Mary Vetsera hvarf um morguninn 28. janúar 1889.  Samkvæmt ályktunum Zerzawy prófessors varð eftirleikurinn þessi:  Larisch greifynja sótti stúlkuna í vagni.  Þær sögðust ætla að fara að verzla saman.  Klukkutíma síðar kom greifynjan heim aftur.  Hún sagði að Mary væri horfin og spurði hvað væri hægt að gera.  Hún sagðist hafa verið stutta stund inni í verzlun og Mary hefði átt að bíða í vagninum á meðan.  Þegar hún kom aftur í vagninn, var Mary horfin.  Á sætinu lá miði með nokkrum línum, sem gátu gefið til kynna, að stúlkan unga ætlaði að fyrirfara sér.  Ekillinn sagði, að Mary hefði skotizt inn í annan vagn, sem hefði verið ekið á brott í flýti.

Zerzawy prófessor fullyrðir, að móður Mary hafi ekki verið ljóst fram að þessu, að dóttir hennar ætti leynifundi með Rudolf.  Larisch greifynja tilkynnti lögreglunni hvarf Mary.  Lögreglustjórinn tók tilkynningunni ekki mjög alvarlega.  Hann áleit, að stúlkan kæmi fljótlega fram á ný.  Hann hafði heldur ekki leyfi til að hefja aðgerðir, sem gætu verið keisarafjölskyldunni óþægilegar.

Mary hitti Rudolf og þau óku til veiðihallarinnar Mayerling 30 km suðaustan Vínar.  Þar eyddu þau nóttinni.  Daginn eftir komu tveir gestir, sem Rudolf hafði boðið til veiða.  Það voru svili (mágur) hans Filip af Coburg og ungverski greifinn Hoyos.  Filip fór aftur til Vínar síðdegis til að sitja kvöldverðarboð í keisarahöllinni, þar sem Rudolf átti líka að vera.  Hoyos var um kyrrt og um kvöldið komu fleiri gestir, næstum allir Ungverjar.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM