Klagenfurt Austurríki,


KLAGENFURT
AUSTURRÍKI

.

.

Utanríkisrnt.

Klagenfurt, höfuðborg Kärnten er í 445 m hæð.  Hún stendur í jaðri Klagenfurt-lægðarinnar (hin víðáttumesta í Austurríki), sem takmarkast í suðri af skógarási Sattnitz (Karawankenfjöll í baksýn).

Klagenfurt er mikilvæg miðstöð samgangna.  Þar er talsverður iðnaður og verzlun og fallegar götur í gamla hlutanum með sögulegum byggingum og háskóli.  Fyrst var stofnað til markaðar í Klagenfurt árið 1161 og bærinn fékk borgarréttindi 1262.  Gamli bærinn skemmdist í bruna árið 1514.  Hrepparnir í Kärnten leituðu um þær mundir að höfuðborg og sendu Maximilian I keisara beiðni um að ánafna þeim Klagenfurt eftir eldsvoðann, sem hann gerði árið 1518.  Áður var St. Veit við ána Glan höfuðborgin.  Klagenfurt fór að vaxa og dafna upp úr því.  Á árunum 1527-58 var Land Kanal grafinn, sv að skurðirnir umhverfis borgina fylltust af vatni og tengdi hana við Wörthervatnið.  Þar sem stóðu áður varnarmúrar borgarinnar er nú hringvegur.

Lindwurm-brunnurinn (drekabrunnur) er tákn Klagenfurt.  Hann stendur á Nýjatorgi - Neue Platz.  Stytturnar í brunninum voru gerðar 1590 (Ulrich Vogelsang) úr grænum klóríthellusteinum.  Samkvæmt þjóðsögunni bjó dreki mikill á mýrlendinu, þar sem Klagenfurt stendur nú.  Hann var lagður að velli.  Fyrirmyndin að drekahausnum var hauskúpa loðins nashyrnings (útdauð tegund), sem fannst í nágrenninu og er nú varðveitt í byggðasafninu (Landesmuseum).  Herkúlesarstyttunni og járngirðingunni var komið fyrir árið 1636.  Á torginu er einnig stytta af Maríu Theresíu frá 1873.  Það er þess virði að kíkja inn í Landesmuseum.

Fjórum km vestan borgarinnar er Europapark, þar sem er m.a. Minimundus með eftirmyndum þekktra bygginga í mælikvarðanum 1:25.  Þar er einnig geimferðasvið.

**Wörthervatnið er 16 km langt, 1-1½ km breitt og 84 m djúpt.  Það er stærsta Alpavatnið í Kärnten og vinsæll bað- og vatnaíþróttastaður.  Karawankenfjöllin gnæfa yfir það.  Vatnshitinn í júlí og ágúst kemst yfir 28°C.
Mynd:  Lindwurmbrunnen.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM