Dili er höfuðborg
Austur-Timor. Yfirbragð
hennar er rólegt og þægilegt. Meðfram
ströndinni eru gömul nýlenduhús og öflugt, portúgalskt virki frá
1627. Mestur hluti
borgarinnar var eyðilagður 1999 og húsin, sem eftir standa, bera
merki um átökin í landinu. Á
strandlengjunni heldur lífið áfram sinn vanagang og fólkið slappar
þar af eða stundar viðskipti. Dili
er katólsk borg og þar er fjöldi kirkna og stór stytta af Kristi
uppi á hæð á skaganum Fatucama, sem minnir á Río de Janeiro.
Þaðan er mjög gott útsýni en þar hefur fólk orðið fyrir
líkamsárásum og ránum. Nokkrar
góðar baðstrendur eru á þessu svæði og aðstæður til köfunar
eru mjög góðar. Vinsælasta
strandsvæðið er við skjólgóða vík, Areia Branca (Pasir Putih =
Hvítusandar), u.þ.b. 3 km austan borgarinnar.
Atauroeyja sést frá ströndinni en þangað eru engar skipulagðar
ferðir. Sé haldið vestur frá Dili á strandveginum, eru nokkrar góðar
strendur á leiðinni og meðfram veginum eru söluborð með fiski og
ávöxtum. Eftir einnar
stundar akstur frá Dili birtist Liquica, þar sem fjöldamorð voru
framin 1999. Þar er svört
sandströnd, sem margir njóta í skugga nokkurra trjáa. |