Viktoría er fylki í Suðaustur-Ástralíu.
Norðan þess er Nýja Suður-Wales, að austan og sunnan er
Tasmanhaf og Bass-sund og að vestan er Suður-Ástralía.
Fyrrum var fylkið þekkt undir nafninu „Kálgarðurinn” og síðar
fóru íbúarnir að kenna sig við „Garðfylkið”.
Viktoría er minnsta fylki landsins, 227.620 km².
Melbourne við Filipshafnarflóa er höfuðborgin.
Fjallgarðurinn „The Great Dividing Range” teygist þvert
yfir fylkið frá austri til vesturs og aðskilur slétturnar í Murray-lægðinni
í norðurhlutanum frá strandsléttunum og öldóttu hæðalandlaginu
í suðurhlutanum. Fjallgarðurinn
er lægri í vesturhlutanum. Austar ríst hann hæst í Áströlsku Ölpunum.
Þar er Bogongfjall hæst (1984m).
Buffalófjall (1721m) er meðal vinsælustu skíðasvæða
landsins. Í suðurhlutanum
er loftslagið milt og úrkoma regluleg.
Norðurhlutinn er víðast þurr og heitur á sumrin og oft geisa
þar skógareldar. Strandlengjan
er u.þ.b. 1200 km löng og víða er hún hæðótt með granítskögum
milli sléttra stranda. Aðalflóarnir
er Westernport og Filipshöfn. Víða
sjást merki um forn blágrýtishraun á sléttlendinu.
Svæðin til norðurs og austurs frá Westernport-flóa, að
landamærum Nýja Suður-Wales, ganga undir nafninu Gippsland (fyrrum
Caledonia Australis). Þau
eru líklega sérstæðustu og afskekktustu hlutar fylkisins.
Önnur mikilvæg svæði eru Vestursvæðið í norðurhlutanum
og Murraydalur, Mallee og Wimmera.
Víða í fjöllunum og áfokssvæðum eru ýmis auðæfi í jörðu.
Þar fannst gull 1851, sem metið var til þriðjungs gullforða
álfunnar. Á síðari árum hefur gullvinnslan í fylkinu orðið lítilvægari.
Brúnkol og steinkol eru unnin í Gippslandi.
Einnig er unnið gips, báxít og leir.
Íbúarnir. Þótt
fylkið sé hið minnsta í álfunni, er það þéttbýlast (4½ miljón
1993; 20 manns á km²). Af
þessum sökum, og einnig af sögulegum ástæðum, er fylkið hið
mikilvægasta í landinu. Samkvæmt
manntalinu 1991 voru 73,7% íbúanna fæddir í Ástralíu, 1% á Nýja-Sjálandi,
15,6% í Evrópu, 4,6% í Asíu og 0,9% í Afríku.
Síðustu tvo áratugi 20. aldar voru breytingar á samsetningu
íbúa fylkisins dæmigerðar fyrir alla álfuna.
Þá fluttist fjöldi Víetnama og annarra Asíumanna til
fylkisins og settist að meðal kínverja, Grikkja og Ítala, sem voru
þar fyrir. Einungis 0,3%
íbúa Viktoríu eru frumbyggjar.
Helztu borgir.
Melbourne er meðal stærstu borga heims (3,2 miljónir 1993 á
6000 km² svæði). Hún er
einnig ein mikilvægasta borg margmenningarálfunnar Ástralíu.
Síðla á níunda áratugi 20. aldar bjuggu þar næstum 37%
allra Ítala álfunnar, 19,5% allra Líbana og þriðjungur Víetnama.
Frumbyggjar eru aðeins 0,2% íbúa borgarinnar. Aðrar helztu borgir eru Geelong, 60 km suðvestan Melbourne
(önnur stærst; 126 þúsund 1991), Ballarat (65 þúsund 1991; vestan
Melbourne), Mildura (40 þúsund 1991) við Murray-ána í
norðvesturhorni fylkisins og Shepparton, norðan Melbourne við
Goulburn-ána í miklu ávaxtaræktarhéraði.
Efnahagslífið.
Fyrstu öldina eftir að Viktoría fór að byggjast var fylkið
sannkallaður aldingarður álfunnar og er enn þá mikilvægt
landbúnaðarfylki. Temprað loftslagið, margbreytilegur jarðvegur og
tiltölulega hagstætt landslag er tilvalið til ræktunar korns,
grænmetis, kvikfjár og vínviðar.
Margir beztu búgarðarnir eru á eldbrunnum sléttum
Vesturhéraðsins. Mikið
er ræktað af korni í Wimmera- og Malle-héruðunum í
norðvesturhlutanum. Mjólkurframleiðsla
er mikil á áveitusvæðunum í austurhlutanum.
Í Murray-dalnum og umhverfis hann er mikið ræktað af
vínviði og sítrusávöxtum.
Iðnaðurinn
stendur undir u.þ.b. fimmtungi vergrar framleiðslu fylkisins. Þar er framleitt talsvert af vefnaðarvöru, vélbúnaði og
vélahlutum, farartækjum, plastvöru og gervikvoðu (resin), járni og
stáli. Olía er unnin í
Gippslandlægðinni og olía og gas í Bass-sundinu (u.þ.b. 60%
framleiðslunnar í álfunni snemma á tíunda áratugi 20. aldar, en
fór niður í 51% í lok aldarinnar).
Náttúrugasið í Gippslandlægðinni var u.þ.b. 41%
heildarframleiðslunnar í álfunni.
Brúnkol (surtarbrandur) finnast í miklu magni í fornum
eldgígum Latrobe-dalsins og duga næstum til allrar raforkuframleiðslu
Ástralíu.
Ferðaþjónustan er mikilvægur og vaxandi atvinnuvegur.
Þótt hún sé ekki eins mikil að vöxtum og í öðrum fylkjum
landsins, má segja að Viktoría bjóði sömu möguleika að
undanskildum aðganginum að afskekktum svæðum innlandsins.
Þjóðgarðarnir Wyperfield og Little Desert eru í þurrviðrasömum
eyðimörkum vesturhlutans. Þeir,
ásamt Grampians-þjóðgarðinum í miðvesturfylkinu, eru kunnir fyrir
fagurt fjallalandslag og skemmtilegar og stundum háskalegar gönguleiðir.
Alpasvæðið í norðausturhlutanum og Snowy River þjóðgarðurinn
við landamærin að Nýja Suður-Wales eru vinsæl meðal skíðafólks
og fjallaklifrara. Fjölbreytt
og fögur strandlengja fylkisins er þakin aðlaðandi hafnar- og baðstrandarbæjum,
sem laða að sér vaxandi fjölda ferðamanna.
Fjármál. Melbourne var sannarlega aðalfjármálaborg Ástralíu fram
á áttunda áratug 20. aldar, þegar Sydney tók við því hlutverki. Fjármálakreppa síðla á níunda áratugnum og fyrri hluta
hins tíunda skaðaði efnahagsímynd borgarinnar og fylkisins.
Þrátt fyrir þessi skakkaföll, er Melbourne enn þá aðalaðsetur
margra stórra, innlendra og erlendra fyrirtækja.
Átján hinna 50 vaxandi einkafyrirtækja í Ástralíu 1991 voru
í Viktoríu, flest í Melbourne.
Viktoría er enn þá þéttbýlasta
og iðnvæddasta fylki álfunnar. Snemma
á tíunda áratugi 20. aldar stóð fylkið undir 26% vergrar þjóðarframleiðslu,
33% af heildarframleiðslu iðnaðar, 25% af landbúnaðarframleiðslunni
og 24% af útfluntingi landbúnaðarafurða.
Stjórnsýsla. Ríkisstjórn
Viktoríu byggist á tveggja deilda þingi.
Í neðri deild löggjafarþingsins sitja 88 þingmenn.
Í efri deildinni sitja 44 þingmenn.
Allir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, hafa kosningarrétt en sérstakar
reglur gilda um búsetu í því samhengi.
Kosningarétturinn í fylkinu var ekki svona frjálslegur fyrrum
og Viktoría var síðasta fylkið til að veita konum kosningarétt árið
1908. Konur fengu ekki rétt
til þingframboðs fyrr en 1923. Þegar
John Cain, forsætisráðherra, sagði af sér 1990 og Joan Kirner tók
við, var hún önnur konan til að gegna þessu embætti í allri álfunni
(Carmen Lawrence var forsætisráðherra Vestur-Ástralíu 1989).
Sagan.
Talið er, að fjöldi frumbyggjar í fylkinu hafi verið í
kringum 12.000, þegar hvítir menn fóru að setjast þar að.
Þeim fækkaði í tæplega fjórðung þessa fjölda fram á miðja
19. öld. James Cook,
skipstjóri, kom auga á strönd Viktoríu frá skipi sínu, Endeavour,
í leiðangri árið 1770. David
Collins, liðsforingi, og menn hans reyndu að koma sér fyrir við
Filipshafnarflóa 1803 en stóðu stutt við áður en þeir voru sendir
til Tasmaníu. Sama var
uppi á teningnum víða með ströndum álfunnar, þar sem hvalveiðarar
og aðrir veiðimenn höfðu skamma viðdvöl og frumbyggjarnir voru
einu föstu íbúar margra svæða í áraraðir.
Friðurinn var úti við Filipshafnarflóa, þegar John Batman
kom frá Tasmaníu 1835. Hann
gerði ólöglegan samning við frumbyggjana um landnám og gerði kröfu
til 243.000 hektrara lands. John
Pascoe Fawkner var annar áberandi, ólöglegur landnemi á þessu svæði.
Flækingar og ólöglegir landnemar frá Nýja Suður-Wales
beittu landstjóra sinn, Sir Richard Bourke, miklum þrýsingi til að
viðurkenna landnám þeirra og árið 1836 fékk þessi byggð, sem var
kölluð Filipshafnarhérað Nýja Suður-Wales, sína eigin stjórn.
Íbúar nýju nýlendunnar
gerðu allt, sem í þeirra valid stóð, til að koma í
veg fyrir að hún yrði gerð að fanganýlendu.
Fjöldi skipsfarma af föngum var sendur áfram til Sydney. Samtímis óx aðskilnaðarsinnum fiskur um hrygg á
efnahagslegu blómaskeiði skömmu fyrir miðja 19. öldina og árið
1851 fékk fylkið sjálfstæði frá Nýja Suður-Wales.
Gullfundir þessa tímabils voru grundvöllur velmegunar og frjálslegrar
stefnu í lýðræðismálum. Auðugar
héraðshöfuðborgir voru prýddar fögrum húsum (Ballarat, Bendigo)
og byggðust á námusvæðunum. Allt
fram á okkar daga bera þessar borgir af hvað varðar fagra
byggingarlist og þokka.
Fáum árum eftir aðskilnaðinn frá Nýja Suður-Wales hófst vopnuð
uppreisn, „The Eureka Stockade” við Ballarat-gullnámurnar.
Sagnir af þessum atburði hafa gert meira úr honum en efni
standa til en honum lauk með því, að 13 námumenn voru dregnir fyrir
rétt, ákærðir fyrir landráð.
Dómar féllu ekki í málum þeirra vegna þess, að almenningsálitið
var með þeim. Á áttunda
áratugi 19. aldar naut ribbaldahópur Ned Kellys svipaðrar
almenningshylli, þegar hann komst ítrekað undan getulausum og
spilltum lögreglumönnum í norðurhluta fylkisins.
Þessi sterki, hugmyndasnauði og lýðræðislegi undirtónn
leiddi að hluta til þjóðaríþróttarinnar ástralsks ruðningsbolta.
Þrjátíu ára blómaskeiði, byggðu á gulli, lauk með því, að gróðabrall,
þensla, hrun á ullarmarkaðnum, hatrömm samkeppni í iðnaði og
gjaldþrot margra fjármálastofnana olli mikilli kreppu snemma á tíunda
áratugnum. Bati var ekki
merkjanlegur fyrr en iðnvæðing tengd fyrri heimsstyrjöldinni komst
á legg. Þrátt fyrir þessi
skakkaföll, hélt Melbourne áfram hlutverki sínu sem frjármálahöfuðborg
Ástralíu. Efnahagskreppan,
stríðið og fleiri þættir ollu hægfara en stöðugri breytingu í
stjórnmálalífinu í fylkinu alla 20. öldina, þannig að hið frjálsa
lýðræði varð stöðugt íhaldssamara.
Landsflokkurinn, sem smábændur studdu, og Frjálslyndi
flokkurinn uxu og döfnuðu. Landsflokknum
fór að hraka á sjötta áratugnum og Frjálslyndir héldu völdum í
27 ár. Þeim tókst vel
til og velmegun jókst, einkum í tengslum við innflytjendalöggjöfina,
sem olli gjörbreytingu í félags- og efnahagsmálum.
Samtímis þessari velgengni Frjálslyndra hrjáðu innanmein
Verkamannaflokkinn. Sir
Henry Bolte, sem var við stjórnvölinn á árunum 1955-73, varð að
nokkurs konar þjóðsagnapersónu.
Hann var grófur og smásálarlegur og hafnaði menntamönnum,
fylgjendum menntunar, skapandi listamönnum og fleirum, m.a. með þröngsýnni
afstöðu sinni til flutnings fylkisréttar til sambandsstjórnarinnar
og ódrepandi stuðningi við dauðarefsingu.
Engu að síður studdi ríkisstjórn hans æðri menntun og réttindabaráttu
frumbyggjanna.
Verkamannaflokkurinn komst aftur til valda undir stjórn John Cain 1982
eftir samdrátt í efnahagslífinu síðla á áttunda áratugnum.
Hann sigraði í kosningunum í þriðja skipti 1989 en flæktist
síðan í fjármálahneyksli og gjaldþrot og innbyrðis upplausn. Jeffrey Gibb Kennett leiddi Frjálslynda flokkinn til sigurs
og tók til við að rétta fylkið við eftir talsverða efnahagskreppu
snemma á tíunda áratugnum. Hann
stefndi á frjálsa markaðshyggju líkt og Margrét Thatcher gerði á
níunda áratugnum í Bretlandi og hleypti nýju lífi í efnahaginn.
Háværar gagnrýnisraddir hafa hljómað vegna margs konar
breytinga í heilbrigðismálum, menntamálum, samgöngumálum og í embættismannakerfinu. |