Vestur Ástralía,
Flag of Australia


VESTUR ÁSTRALÍA
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Vestur-Ástralía er fylki í vesturhluta álfunnar.  Norðan þess er Tímorhaf, Indlandshaf að vestan, Suðurhaf og Stóri-Ástralíuflói að sunnan og Suður-Ástralía og Norðurhérað að austan.  Vestur-Ástralía er stærsta fylkið, 2.525.500 km² (næstum þriðjungur álfunnar).  Höfuðborgin er Perth.  Hæsti tindur fylkisins er Meharryfjall (1244m) í Hamersleyfjallgarðinum.  Tveir aðrir fjallgarðar prýða fylkið (Carnavon og Stirling) en að öðru leyti er landið flatlend, að mestu lág háslétta (300-600m).  Neðan hennar, meðfram 12.500 km langri ströndinni, er breið strandslétta.  Mestur hluti fylkisins er sendinn og þurr og lítið um gróður nema á suðvesturströndinni, þar sem heitir Swanland. 

Loftslagið er breytilegt, trópískt nyrzt og temprað í suðvesturhlutanum.  Inni á hásléttunum verður mjög heitt og úrkoma er lítil.  Helztu framleiðsluvörur fylkisins eru járngrýti, gull, iðnaðardemantar, ull, hveiti og ál.


Íbúarnir.  Vestur-Ástralía er strjálbýlasta fylki Ástralíu og líklega eitt hinna strjálbýlustu svæða heimsins.  Áætlaður íbúafjöldi 1992 var 1.663.000 (0,7 íbúar á km²), sem jafngilti 9,5% heildaríbúafjölda Ástralíu.  Langflestir búa með ströndum fram og örfáir búa inni í landinu, einkum þar sem námugröftur er stundaður.  Við manntalið 1986 kom í ljós að fjöldi frumbyggjar og íbúa eyja í Torres-sundinu voru 37.789.  Árið 1991 voru þeir orðnir 41.779 (2,6% af íbúum fylkisins).  Næstum helmingur íbúa Vestur-Ástralíu er fylgjandi ensku biskupakirkjunni en söfnuðir katólskra, meþódista og öldungakirkjunnar eru líka áberandi.  Skólakerfið er veraldlegt og menntun er frí.  Skólaskylda gildir fyrir börn á aldrinum 6-15 ára.

Helztu borgir.
Perth
er stærsta borgin og höfuðborg Vestur-Ástralíu.  Hún er einangraðasta borg álfunnar og vegalengdir til nokkurra asískra borga eru styttri en til Sydney eða Canberra.  Á árunum 1981-86 fór Perth fram úr Adelaide í íbúafjölda og varð fjórða stærsta borg Ástralíu (áætlaður íbúafjöldi 1991 var 1.239.400).  Borgin er við ósa Swan- og Canning-ánna.  Loftslagið er frábært og umhverfis hana eru fagrir útivistargarðar.  Viðskiptalífið er mjög líflegt og útivist er í hávegum höfð meðal íbúanna.  Nútímasamgöngur hafa ýtt undir gestakomur til borgarinnar, þótt hún sé enn þá álitin afskekkt.

Fremantle er aðalhafnarborg fylkisins.  Aðrar mikilvægar borgir og bæir eru Bunbury, Geraldton, Albany og Esperance.  Kalgoorlie, sem er inni í landi, er miðstöð námuhéraðs.  Þangað er leitt neyzluvatn frá Mundaring Weir í grennd við Perth.

Efnahagslífið í fylkinu hefur vaxið og dafnað mest í álfunni síðan á sjöunda áratugi 20. aldar.  Mikið fannst af gasi og kolum í jörð og stutt er á stóra markaði í Asíu.  Fylkið er einhver mesti framleiðandi járngrýtis í heiminum (u.þ.b. 11%).  Árið 1979 fundust geysimiklar demantanámur í Kimberleys og síðan hefur Ástralía verið mesti demantaframleiðandi heimsins miðað við magn og í sjötta sæti miðað við verðmæti.  Landbúnaður, timburvinnsla og fiskveiðar eru mikilvægar atvinnugreinar (14% af vergri framleiðslu).

Stjórnsýsla.  Þing fylkisins starfar í tveimur deildum.  Efri deildin er kölluð Löggjafarráðið (34).  Í neðri deildinni starfa 57 þingmenn.  Yfirleitt hafa íbúarnir kosið íhaldssama forystu en Verkamannaflokkurinn hefur nokkrum sinnum náð meirihluta.  Árið 1989 varð Carmen Lawrence fyrsti kvenforsætisráðherra fylkis í Ástralíu.  Forsætisráðherrar Frjálslyndra juku fjárfestingar í fylkinu á árunum 1959-82 og forsætisráðherra verkamannaflokksins, Brian Burke bætti um betur en stjórn hans féll vegna mikils fjármálahneykslis og Frjálslyndir tóku við 1993 undir forystu Ruchard Court.

Sagan.  Charles Howe Fremantle, skipstjóri, sló eign sinni á „alla hluta Nýja-Hollands, sem náðu ekki yfir svæði Nýja Suður-Wales”, 2. maí 1829.  Fyrri landnám voru á frjósömu landi við ofanverða Swan-ána en þar olli vanþekking landnemanna á landinu og skortur á vinnuafli miklum erfiðleikum eftir 1830.  Þá var leitað stærri landsvæða, sem voru vel fallin til landnáms, og fangar voru fluttir inn sem vinnuafl, þannig að nýlendan náði sér aftur á strik eftir 1850.  Oft kom til alvarlegra átaka milli frumbyggjanna og landnemanna, þegar þeir færðu út kvíarnar og juku landnámið.  Árið 1890 tók ábyrg ríkisstjórn við völdum eftir mikla gullfundi.  Árið 1901 gerðist Vestur-Ástralía aðili að Sambandsríki Ástralíu, þrátt fyrir mikla andstöðu aðskilnaðarsinna.

Efnahagslegar framfarir í fylkinu voru stöðugar þar til sambandsstjórnin afnam takmarkanir á útflutningi járngrýtis 1960.  Þá hófst efnahagslegt blómaskeið í öllu fylkinu, einkum þó í Perth.  Námufélögin stóðu að baki tilraunum fylkisstjórnarinnar til að fella frumvarp sambandsstjórnarinnar um rétt frumbyggjar til lands árið 1993 á þeirri forsendu, að það bryti í bága við stjórnarskrána.  Þessi lög gefa frumbyggjum tækifæri til að krefjast lands, sem þeir geta sannað varanlega búsetu á.  Hæstiréttur hafnaði þessum rökum í marz 1993 og lýsti jafnframt eigin löggjöf Vestur-Ástralíu um rétt frumbyggja í andstöðu við stjórnarskrá sambandsríkisins.  Þessi lög stefndu að því afnema allan rétt frumbyggjanna til lands en gáfu kost á hefðbundinni landnýtingu þeirra.  Talið er, að næstum 40% fylkisins verði með tímanum að eignarlandi frumbyggja.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM