Suður-Ástralía er fylki
í miðri sunnanverðri álfunni. Austan
þess er Viktoría og Nýja Suður-Wales, Vestur-Ástralía að vestan
og Stóri-Ástralíuflói og Indlandshaf að sunnan.
Fylkið er hið þriðja stærsta í landinu (Norðurhérað ekki
talið með sem fylki), 984.377 km² (13% heildarflatarmáls Ástralíu). Kengúrueyjar og fleiri Eyjar í Suðurhafi eru innifaldar í
þessari tölu. Höfuðborg
fylkisins er Adelaide.
Fylkið er að mestu
láglent, u.þ.b. helmingur þess er neðan 150 m.y.s. og rúmlega 80%
eru neðan 300 m.y.s. Þetta
þurrasta fylki þurrustu heimsálfunnar skiptist í nokkur greinilega
afmörkuð svæði. Inni í
landi eru aðallega þurrar auðnir, sendnar og grýttar eyðimerkur,
með nokkrum lágum fjallgörðum og söltum stöðuvötnum.
Woomera-bannsvæðið, þar sem voru gerðar tilraunir með
kjarnavopn, teygist frá miðju fylkinu til Vestur-Ástralíu.
Þar sem mörk Suður-Ástralíu, Nýja Suður-Wales og Viktoríu
mætast í Simpson-eyðimörkinni, heitir svæðið Poeppel’s Corner.
Í suðvesturhlutanum nær eyðimörkin niður að ströndinni á
skógarlausri Nullarbor-sléttunni, sem teygist meðfram
Stóra-Ástralíuflóa inn í Vestur-Ástralíu.
Lofty- og Flinders-fjallgarðarnir eru í suðausturhlutanum og skagarnir
Eyre, York og Fleurieu og hið fræga vínræktarsvæði í Barossa-dalnum við
Stóraflóa. Lofty-fjallgarðurinn
trónir austan Adelaide. Þar
eru hinar fögru Adelaide-hæðir.
Forn og litríkur Flinders-fjallgarðurinn teygist norður frá
Pirie-höfn. Austan þessara
fjallgarða, í suðausturhorni fylkisins, eru frjósamar sléttur við neðri
hluta Murray-árinnar, sem er eina skipgenga áin í Ástralíu.
Ósasvæði hennar er kallað Alexandrinavatn.
Strandlengja Suður-Ástralíu er 3700 km löng. Suðausturhluti hennar, Coorong, er löng og ákaflega áhugaverð
strönd og þegar nær dregur landamærum Viktoríu liggja fallegu
fiskibæirnir Robe og Beachport og héraðshöfuðborgin Mount Gambier.
Margir hinna fyrstu landnema, sem stunduðu landbúnað, létu glepjast af
nokkrum góðviðrasömum árstíðum og lögðu land undir fót alla leið til
Quom og Hawker í Flinders-fjallgarðinum, þar sem þurrkar hröktu þá á
brott, þegar veðurfarið varð eðlilegt á ný.
George Goyder kannaði og mældi síðar út svæði Ástralíu, sem voru
fallin til landbúnaðar. Árið 1865 dró hann línu, sem síðar var kennd við hann, milli
þurrkasvæðanna í norðri og syðri svæðanna, þar sem úrkoma er regluleg.
Þurrkasvæðin, norðan Goyder-línunnar, þar sem úrkoman er minni en 250 mm
á ári, ná yfir 80% heildarflatarmáls fylkisins.
Gullæði greip ekki um sig í neinum svipuðum mæli í Suður-Ástralíu og í
Viktoríu og Nýja Suður-Wales upp úr miðri 19. öld, og þrátt fyrir
koparfundi 1845, urðu litlar breytingar.
Aðstreymi fólks jókst engu að síður og vaxandi eftirspurn eftir
hveiti kom sér vel fyrir íbúana.
Skilyrði til ræktunar hveitis voru og eru á mörkum hins mögulega,
þannig að víða er uppskeran óstöðug.
Á jaðarsvæðum hefur ræktunin leitt til uppblásturs.
Fylkisstjórnin greip til aðgerða til að draga úr tjóninu með
sáningu harðgerðra grastegunda, sem komu í veg fyrir sandskrið.
Þá var gripið til línuplægingar og gróðursetningar vínviðar og
ávaxtatrjáa. Víða á þessum
jaðarsvæðum eru nú komnar áveitur til þessarar ræktunar auk grænmetis.
Eftir síðari heimsstyrjöldina styrktist efnahagur fylkisins verulega við
uppgötvun járngrýtis, náttúrugass, úraníums, opals, olíu og meiri
koparbirgða. Túnfiskveiði
hefur verið mikilvægur atvinnuvegur og markaðir fyrir ferskan hágæðafisk
í Japan lofa góðu (sashimi).
Íbúarnir. Áætlaður
íbúafjöldi 1993 var 1.461.700.
Samkvæmt manntali 1991 var fjöldi frumbyggja 16.249 (1,2% af íbúafjölda
fylkisins). Flestir þeirra
búa í Adelaide (6688 árið 1991), Port Augusta (1345), Port Lincoln (467)
og Emabella (471).
Helztu borgir. Adelaide
er fimmta stærsta borg Ástralíu (tæplega 1,1 miljón 1993).
Iðnaður er þar fjölbreyttur og síðan á sjöunda áratugnum hefur
borgin orðið miðstöð menningar, íþrótta og afþreyingar.
Margir þekkja hana af listahátíðum, sem eru haldnar annað hvert
ár. Þar var haldin Grand
Prix-kappaksturskeppnin þar til Viktoría náði henni til sín.
Stræti og torg borgarinnar eru víð og stór með mörgum fallegum
nýlenduhúsum, margir veitingastaðir eru frábærir og umhverfis borgina
eru stórir og fallegir skemmtigarðar.
William Light, ofursti og landmælingamaður, skipulagði borgina
árið 1836 á ársléttu Torrens-árinnar við St Vincent-flóa og byggði á
ferhyrningsaðferðinni.
Ný borgarhverfi og hús hafa bætzt við en heildarskipulag hans
hefur að mestu leyti fengið að njóta sín áfram.
Eftir síðari heimsstyrjöldina fluttust margir til borgarinnara og
ný iðnfyrirtæki risu en borgin varð illa úti í kreppunni á níunda
áratugnum. Borgarbúar verða enn þá að búa við að taka neyzluvatn úr
mengaðri Murray-ánni og framtíðarþróun borgarinnar byggist að mörgu
leyti á því, hvort tekst að finna aðra lausn á vatnsveitumálunum.
Aðrar helztu borgir fylkisins
eru:
Whyalla, Mount Gambier, Port Augusta, Port Pirie og Gawler.
Efnahagslífið. Allt frá
upphafi hefur verið á brattann að sækja fyrir íbúa Suður-Ástralíu.
Takmarkaðir landkostir hafa alltaf verið Þrándur í Götu.
Skortur á vatni og síðbúnar uppgötvanir náttúruauðæfa hafa tafið
fyrir hagstæðri efnahagsþróun.
Í þurrum norðurhlutanum er hægt að rækta takmarkaðan fjölda
sauðfjár. Hveiti og bygg,
sem er ræktað sunnan Goyder-línunnar, er mikilvæg undirstaða efnahagsins
sem og ávaxtaræktun á svæðinu við Murray-ána, þar sem áveitum er beitt.
Þar er mikið ræktað af sítrusávöxtum og u.þ.b. 60% af öllum vínberjum
Ástralíu. Ræktun vínviðar
og framleiðsla víns er orðinn veigamikill og mikilvægur atvinnuvegur,
enda koma góð vín frá Ástralíu.
Vínræktin hefur aukizt mjög í dölunum Barossa, McLaren,
Coonawarra og Clare og útlit er fyrir góðan árangur á nýjum svæðum í
Adelaid-hæðunum.
Margar borgir Ástralíu fá gas
frá Gidgealpa-Moomba-lindunum og miðlungsgóð kol frá Leigh Creek eru
notuð til að framleiða raforku.
Rúmlega 190 miljónir tonna járngrýtis hafa verið grafin upp úr
Middleback-fjallgarðinum á efri Eyre-skaganum (2,3 miljónir tonna 1992).
Hvítir ópalar frá Andamooka og Coober Pedy eru eftirsóttir
erlendis. Mikil verðmæti
liggja í úraníumbirgðunum í jörðu við Olympic-stífluna við Roxby Downs,
þar sem hefur einnig fundizt gull, silfur og kopar í miklu magni.
Andóf gegn notkun kjarnorku til rafmagnsframleiðslu hefur dregið
verulega úr nýtingu úraníumnámanna.
Whyalla og Port Pirie eru mikil iðnaðarsvæði (m.a. járn og stál), einnig
Port Augusta og Adelaide-Elizabeth, sem er miðstöð bílaframleiðslu og
þar er Port Stanvac-olíuhreinsunarstöðin.
Framleiðsla vefnaðarvöru, fatnaðar, olíuvöru, elektrónískra- og
nákvæmnistækja og skógerð eru líka mikilvægar atvinnugreinar.
Skömmu fyrir aldamótin var hafin smíði kafbáta og stefnt var að gera
Adelaide að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.
Stjórnsýsla. Þing
fylkisins starfar í tveimur deildum.
Í efri deildinni starfa 22 þingmenn og í hinni neðri 47.
Fylkið fékk sjálfstjórn 1856 og var í farabroddi félagslegra og
stjórnmálalegra framfara fram að aldamótunum 1900.
Þar fengu konur kosningarétt fyrr en í öðrum fylkjum, fríu
menntakerfi og skólaskyldu og samningsrétti verkafólks var snemma komið
á. Í kjölfar
heimskreppunnar á fjórða áratugi 20. aldar tók við íhaldssöm stjórn
Frjálslynda þjóðarflokksins (LCL), sem hélt velli í 32 ár.
Í stjórnartíð flokksins eftir síðari heimsstyrjöldina upplifðu
íbúar fylkisins mikla efnahagslega uppsveiflu.
Stjórn Verkamannaflokksins undir stjórn Don Dunstan (1970-79)
mótaði stefnuna í nútímavæðingu fylkisins, sem fól í sér miklar
breytingar. Á níunda
áratugnum tók við krepputími og framfaraskrefin urðu styttri.
Fjármálastofnanir urðu gjaldþrota og ýmis hneykslismál og spilling kom
upp á yfirborðið.
Atvinnuleysi jókst gífurlega.
Sagan. Samkvæmt skráðum
heimildum rannsakaði áhöfn hollenzks skips, Gulden Zeepaard,
strandlengju Suður-Ástralíu vestan Leeuwin-skaga árið 1627.
Tveimur öldum síðar birti Charles Sturt niðurstöður tveggja
rannsóknarleiðangra sinna inni í landi í núverandi fylki.
Hann mærði svæðin, sem hann kannaði svo mjög, að fylgjendur
Wakefield-áætlunarinnar um landnám í Ástralíu ákváðu að Suður-Ástralía
væri upplagður staður fyrir tilraunanýlendu.
Þessi áætlun var hugarfóstur og kom úr penna Edward Gibbon
Wakefield í „Bréfi frá Sydney”, sem hann skrifaði í rauninni í fangelsi
í Englandi 1829. Þessi
áætlun var byggð á grundvelli frjálshyggju og frjálsum landnemum, sem
yrðu að greiða fyrir landið, sem þeir næmu, eða vinna sem verkamenn
ólíkt því, sem gerðist í Nýja Suður-Wales, þar sem landi var úthlutað
frítt. Þótt þetta kerfi næði ekki fram að ganga vegna
efnahagsþróunarinnar, sem Wakefield spáði, festu hugmyndir hans um
frjálst efnahagskerfi, trúfrelsi og innflutning fjölskyldna varanlegar
rætur í hugum fólksins, sem settist að á þessum slóðum.
Hugmyndirnar um sölu lands komust líka til framkvæmda í Nýja Suður-Wales.
Meirihluti landnema í Nýja Suður-Wales
kom frá fátækrahverfum nýju iðnaðarborganna í Englandi eða Írlandi en
tæplega 70% landnema í Suður-Ástralíu komu úr sveitahéruðum
Suður-Englands.
Margir þýzkir mótmælendur (lúterstrúar) fluttust til
Suður-Ástralíu vegna trúfrelsisins, sem boðað var í áætluninni.
Árið 1842 var orðið ljóst að tilraunin hafði mistekizt. Brezka
krúnan tók völdin og skipaði landstjóra, Sir George Grey, sem hóf hina
löngu baráttu fyrir tilveru nýlendunnar. Smám saman batnaði
ástandið og árið 1901 varð Suður-Ástralía að fylki í Sambandsríkinu. |