Sydney
er höfuðborg fylkisins New South Wales og stærsta borg landsins á suðausturströnd
Ástralíu. Höfnin er
mikilfengleg og lega hennar mikilvæg.
Hún er einhver mikilvægasta höfn við Suður-Kyrrahafið.
Í upphafi 19. aldar, þegar þarna var aðeins lítil fanganýlenda
og fyrstu landnemarnir höfðu lítt sinnt könnun innlandsins, voru þegar
kominn á viðskipti við eyjarnar í Kyrrahafi, Indland, Kína, Suður-Afríku
og Ameríku.
Það
er alltaf tilkomumikið að sjá Sidney úr lofti eða frá sjó við
komuna þangað. Borgin er
byggð á lágum hæðum í kringum gríðarstóra höfn með óteljandi
bryggjum og víkum og brúin yfir hana er mest áberandi mannvirkið.
Hún er meðal stærstu hengibrúa heims.
Óperuhúsið dregur einnig til sín athyglina vegna byggingarstílsins
og stærðar. Það lítur
út eins og skeljum hafi verið raðað saman og minnin einnig á segl.
Saga
borgarinnar, höfnin og helzti millilandaflugvöllur landsins gera
Sidney að alþjóðlegustu borg Ástralíu.
Engu að síður er hún mjög áströlsk með engilsaxnesku ívafi
í bland við loftslag og umhverfi Suðurhafanna.
Loftslag.
Sidney er á 34°S með 22°C meðalhita í janúar og 12°C í júlí.
Sólríkt, hlýtt en temprað loftslagið hefur gætt íbúana hæfileikum
til að njóta þess með hægðinni.
Þeir stunda gjarnan siglingar, sund og brettareiðar.
Meðalársúrkoman er 1140 mm og meirihluti hennar fellur á
sumrin. Ríkjandi vindátt
á sumrin er úr norðaustri. Þá
er rakt og heitt í borginni en inn á milli læðast köld skil frá
Tasmaníuhafi yfir svæðið og hvass sunnanvindur, sem borgarbúar
kalla „Southerly Buster”. Nokkra
daga sumar hvert verður hitinn næstum óbærilegur, þegar
vestanvindarnir flytja með sér þurrt og heitt loft frá sléttunum
inni í landi. Á veturna
eru vestanvindarnir svalir.
Borgarmyndin.
Sidney-svæðið nær yfir 12.407 km² frá Bláfjöllum í
vestri að Kyrrahafi og suðurströnd Macquarie-vatns í norðri að
Grasaflóa (Botany Bay) í suðri.
Þriðjungur þessa svæðis er borgarbyggð en rúmlega 90% íbúa
þess býr í borginni. Úthverfi
borgarinnar eru ekki þéttbyggð vegna þess, að Ástralar vilja eiga
sitt hús og sinn garð umhverfis.
Þetta skipulag hefur gert yfirvöldum erfitt fyrir með samgöngur
og skolplagnir. Viðskiptahverfið
í miðborginni er alger andstaða, þar sem það er á mjög þéttbýlu
nesi niðri við höfn.
Flest
húsin í úthverfunum eru einbýlishús á einni hæð, byggð úr
timbri eða múrsteinum. Hátt
lóðaverð í miðborginni hefur leitt til byggingar háhýsa.
Ör uppbygging þar eftir 1960 breytti miðborgarmyndinni, þannig
að hún líkist nú mest Manhattan í New York, þótt húsin séu ekki
eins háreist. Í norðurhluta
borgarinnar hefur risið annað viðskiptahverfi, sem tengist miðborginni
um Hafnarbrúna.
Byggingarlistin
er yfirleitt fremur dapurleg, þótt nokkrar byggingar frá 19. öld og
nokkrar samtímabyggingar skeri sig úr. Meðal þeirra er Óperuhúsið.
Macquarie-gata er eina merkilega aðalgata borgarinnar.
Hún liggur frá Hyde Park að Óperuhúsinu.
Þar eru allar helztu stjórnsýslubyggingarnar frá 19. og 20.
öld. Heildaryfirbragð
borgarinnar er aðlaðandi.
Tveir
frábærir þjóðgarðar eru 40 km norðan og sunnan Sidney, þar sem hægt
er að skoða villdýrafánu þessa landsvæðis. Ósar Hawkesbury-árinnar bjóða siglurum góða hafnaraðstöðu
og góðar baðstrendur eru beggja vegna borgarinnar. Aðrir þjóðgarðar eru innan 100 km frá Sidney, þannig að
borgin er að mestu umkringd þeim.
Íbúarnir.
Bretar stofnuðu Sidney og meginhluti íbúanna er af brezku
bergi brotinn, þ.m.t. Írar. Frá
lokum síðari heimstyrjaldarinnar hafa margir innflytjendum komið frá
öðrum Evrópulöndum og eftir 1960 fjöldi Asíumanna, s.s. flóttamenn
frá Líbanon og Víetnam. Margir
þessara innflytjenda hafa setzt að í Sidney.
Nokkur Innri úthverfanna hafa grískt og ítalskt yfirbragð og
öll hverfi borgarinnar státa af grískum, ítölskum, líbönskum og víetnömskum
veitingahúsum. Þarna er
einnig lítið kínahverfi og í hverfinu Redfern búa margir
frumbyggjar landsins við heldur bág kjör.
Stærstu kristnu trúarhóparnir hallast að ensku kirkjunni og
katólskunni. Þeir eiga
hvor sína dómkirkjuna. Múslimar
eiga sína mosku, gyðingar sín samkunduhús, búddistar sín hof og aðrir
kristnir söfnuðir sínar kirkjur.
Atvinnulífið.
Næstum 75% vinnuafls fylkisins New South Wales eru bundin á
Sidney-svæðinu og næstum helmingur vinnuafls Sidney er hluti af því.
Þriðjungur vinnuafls borgarinnar er bundinn í smáiðnaði og
þjónustugreinum. Meðal
mikilvægra iðnfyrirtækja borgarinnar er olíuhreinsun en enginn ákveðinn
iðnaður sker sig úr. Sydney
hefur alltaf verið stjórnsýslumiðstöð og borg viðskipta
innanlands sem utan. Hún
stendur engri borg landsins að baki í fjármálaviðskiptum nema
Melbourne. Höfnin, Port
Jackson, er ein ein hinna helztu í landinu.
Önnur höfn fyrir olíuflutninga er í Botany-flóa, 17 km
sunnar.
Ferðaþjónusta.
Sidney er orðin mikil ferðamannamiðstöð.
Þar er fjöldi hótela og gististaða og veitingastaða, einkum
norðan og austan miðborgarinnar.
Leitun er að fjölbreyttari flóru alþjóðlegra veitingastaða.
Á matseðli þeirra allra eru áströlsk vín og hinar rómuðu
ostrur borgarinnar. Fyrsta,
nútíma ráðstefnumiðstöð borgarinnar, sem hýsir líka tónlistahöll,
íþróttamiðstöð og fundarsali, var opnuð 1983.
Samgöngur.
Allt frá 1855 hafa verið járnbrautarsamgöngur innan
borgarinnar. Á milli
heimsstyrjaldanna voru járnbrautirnar rafvæddar og fyrsti hluti neðanjarðarkerfisins
var opnaður fyrir umferð 1926. Árið 1933, að lokinni byggingu Hafnarbrúarinnar, var norðurhluti
borgarinnar tengdur þessu kerfi Bæði
ofan- og neðanjarðarkerfi til nálægustu eystri úthverfanna voru
tekin í notkun 1979.
Þrátt
fyrir endurbætur á strætisvagnasamgöngum innan borgar, hefur ekki
tekizt að halda í horfinu. Eftir
síðari heimsstyrjöldina hefur bílaumferð aukizt langt umfram áætlanir
líkt og í öðrum borgum landsins og umferðaröngþveitið hefur ágerzt
vegna landslags og legu borgarinnar.
Mikill fjöldi þeirra, sem starfa í miðborginni, býr í ytri
úthverfunum og á ekki margra kosta völ um leiðaval til og frá
vinnu. Allir, sem búa í
norðurborginni, verða að aka um Hafnarbrúna, sem önnur tveggja
tenginga borgarhlutanna. Hin
brúin, í Gladesville, nýtist fyrir hluta umferðarinnar.
Leiðin fyrir enda hafnarinna milli norður- og suðurhlutanna er
líka erfið vegna þess hve götur borgarinnar eru mjóar. Tilraunir til að létta á umferðinni með lagningu hraðbrauta
hafa ekki dugað til og gripið hefur verið til þess, að banna umferð
frá tilteknum hlutum miðborgarinnar.
Hluti af þessum aðgerðum leiddi til göngugatna við
Martin-torg í miðborginni 1971.
Þeir,
sem búa við höfnina, eiga þess kost að nýta sér ágætar
ferjusamgöngur en yfirvöldum til sárra vonbrigða hafa íbúarnir
ekki nýtt þær sem skyldi og þær hafa ekki staðið undir sér.
Engu að síður gera þær borgina meira aðlaðandi og
vinalegri.
Aðalflugvöllurinn,
sem annast innan- og utanlandsumferð, er í Mascot við Grasaflóa
(Botany Bay) sunnan borgarinnar. Gatnakerfinu
þangað er verulega áfátt. Ferjutengingin
þangað og þaðan liggur til Circular Quay (Hringbryggju), sem er í göngufæri
frá miðborginni.
Stjórnsýsla.
Sidney er höfuðborg New South Wales og setur fylkisþings og
stjórnar. Sidneysvæðið
skiptist í rúmlega 40 stjórnsýslueiningar, sem fylkisstjórnin hefur
falið umsjá fjölda málaflokka en sér sjálf um hina mikilvægustu,
s.s. löggæzlu og samgöngur. Meginviðfangsefni
sérstakra ráða og stofnana hinna minni eininga er umsjá málaflokka,
sem varða vatnsveitur, skolp, raforku, aðalvegi, ávaxta- og grænmetismarkaði
og ýmsa þætti heilsugæzlu og velferðarmála.
Þetta skipulag er allflókið og ruglingslegt.
Mörk borgarinnar hafa verið færð út nokkrum sinnum af stjórnmála-
og sögulegum ástæðum. Árið
1968 var yfirráðasvæði borgarráðsins minnkað í upprunalega stærð,
sem er u.þ.b. 13 km², þannig að nú nær það einungis yfir viðskiptahverfið
og hluta nærliggjandi hverfa. Hagstofa
Sidney var stofnuð 1976 til að skilgreina og skipuleggja framtíðarþróun
borgarinnar næstu 20 árin á allt að 8300 km² svæði.
Menningarlíf.
Sidney er aðallega borg líkamshreyfingar, sunds, brettabruns,
siglinga og annarra útiíþrótta.
Enn þá er hægt að njóta sundspretts utan baðstrandanna við
höfnina, þótt smám saman dragi úr því vegna aukinnar mengunar sjávar.
Brimbrettastrendurnar norðar og sunnar eru víðfrægar.
Bondi-ströndin er í 15 mínútna akstursfjarlægð frá miðborginni.
Strendurnar á Palm Beach-skaganum, norðan borgarinnar, eru mjög
fallegar, góðar og öruggar vegna stöðugrar gæzlu sjálfboðaliða
Slysavarnarfélagsins á sumrin. Siglingar
eru mikið stundaðar frá borginni og nágrenni hennar.
Um góðviðrishelgar á sumrin myndast skógur segla og mastra
undan ströndinni. Pittwater-flóinn,
40 km norðar, er einnig mjög vinsæll til siglinga.
Á borgarsvæðinu eru margir góðir golfvellir og íþróttavellir
til iðkunar knattspyrnu og ruðningsbolta, krittets og tennis og skeiðvellirnir
í Randvick eru fyrsta flokks.
Þótt
Ástralar, ekki sízt Sidneybúar, séu miklir áhugamenn um íþróttir
og þátttöku í þeim, eiga þeir sínar menningar- og
menntastofnanir. Í Sidney
eru þrír háskólar kenndir við borgina, fylkið og Macquarie.
Þar er gott borgarbókasafn, söfn og Listasafn fylkisins. Þar að auki er fjöldi einkarekinna listasala.
Alvarlegur skortur á leikhúsum og tónlistarsölum ríkti í
borginni þar til Óperuhúsið var opnað 1973.
Danski arkitektinn Jørn Utzon, sem sigraði í alþjóðlegri
samkeppni 1955, teiknaði þessa fögru og dýru byggingu.
Hún stendur á fallegum og áberandi stað við höfnina,
umkringd sjó á þrjá vegu og hýsir auk óperuaðstöðunnar tónlistarsal
synfóníuhljómsveitar borgarinnar, lítið leikhús, kvikmyndasal og
æfingar- og upptökustúdíó. Óperan
byggist aðallega á innlendum listamönnum, sem koma úr ýmsum áttum
og taka þátt í listalífi borgarinnar.
Listdansflokkur borgarinnar hefur unnið til alþjóðlegra verðlauna.
Í borginni starfa nokkrir hópar leikara og kvikmyndaiðnaðurinn
blómstrar. Árið 1984 var
opnuð stór afþreyingarmiðstöð, sem tekur 5000 manns í sæti. Þar eru haldnir popptónleikar og leikrit sett á svið.
Fyrsta
landnám.
James Cook fann Botany Bay (Grasaflóa) árið 1770.
Brezka ríkisstjórnin beindi Fyrsta flota sínum undir stjórn
Arthur Phillip, skipstjóra og landkönnuðar, árið 1788. Honum fannst flóinn vera of opinn sem skipalægi og landið
umhverfis óhæft til landnáms. Hann
hélt því lengra til norðurs og fann fljótlega innsiglinguna í
Jacksonhöfn, sem James Cook hafði fundið en ekki skoðað nánar.
Phillip sendi Thomas Townshend Sydney, lávarði og innanríkisráðherra,
lýsingu á henni 15. maí 1788. Phillip
ákvað að beina flotanum öllum inn á þetta góða skipalægi og
stofna þar til landnáms. Skipin
lögðust við stjóra í stórri vík, sem hann nefndi Sidneyvík.
Hún er enn þá hjarta borgarinnar og tekur á móti farþegaskipum
en er nú þekktari undir nafninu Circular Quay.
Aðalviðskiptahöfnin var flutt til Darling Harbour litlu vestar.
Fyrsti
hluti sögu
Sidney byggist á brezku fanganýlendunni.
Þar var dæmdum mönnum komið fyrir í óblíðu umhverfi.
Jarðvegurinn var ófrjósamur og landið var erfitt yfirferðar
og var brotið með handafli. Þessi
litla byggð bjó oft við matarskort þar til landnemarnir brutust yfir
Bláfjöll, þar sem þeir fundu mun frjósamara land
vestan Great Dividing Range.
Stöðugar erjur ríktu milli hinna frjálsu landnema, landstjórans
og fanganna.
Sidney
stækkaði hratt, þegar New South Wales var kannað og numið.
Brezka stjórnin útdeildi fríu landi og lét fangana vinna frítt
fyrir landnemana. Hún
tryggði líka markaði fyrir framleiðslu nýju nýlendunnar.
Á stjórnarárum Lachlan Macquarie (1810-21) þróaðist Sydney
úr ömurlegri fanganýlendu til blómstrandi og virðulegrar borgar.
Hann hóf líka undirbúning að opinberri þjónustu, byggingu
kirkna, sjúkrahúsa, fangelsi, skóla og dómshúsa auk lagningu
nokkurra garða í borginni og umhverfis hana.
Francis Greenway, arkitekt og fangi, sem hafði verið sendur frá
Englandi vegna falsana, aðstoðaði hann.
Hann er höfundur að mörgum fallegum byggingum í regency-stíl,
s.s. Hyde Park-fangelsið við Macquarie-götu og kirkju heilags James,
sem standa enn uppgerð í upprunalegri mynd.
Vöxtur
nútímaborgarinnar.
Á árunum 1860-90 fjölgaði íbúum borgarinnar úr 60.000 í
400.000, þegar þétt byggð húsa reis í hæðunum umhverfis borgina.
Svalir þessara húsa voru skreyttar smíðajárni og þau eru nú
fegursti arfur borgarinnar. Fyrsta
járnbrautin frá Sidney til Parramatta hóf ferðir 1855.
Kreppan eftir 1890 dró svolítið úr vexti og þróun
borgarinnar en Íbúafjöldinn varð 800.000 árið 1914 og skömmu síðar
ein miljón. Samtímis óx
Melbourne, höfuðborg Viktoríufylkis, mun hraðar vegna gullsins, sem
fannst í nýlendunni. Hún
varð stærri en Sidney um tíma og miðstöð fjármála og viðskipta.
Hún varð höfuðborg Ástralíu þar til Canberra var byggð
1927 miðja vegu milli þessara tveggja borga.
Árið 1911 var Sidney aftur orðin stærsta borg landsins og að
lokinni síðari heimsstyrjöldinni naut hún nýrra markaða í Norður-Ameríku
og Asíu. Sidney hefur
haldið stærðarforskoti sínu og er jafnmikilvæg miðstöð fjármála,
viðskipta og iðnaðar og Melbourne.
Vöxtur hennar er ekki sársaukalaus.
Þar berjast íbúarnir við mengun, umferðarteppur og glæpi.
Þessi miljónaborg er hin alþjóðlegasta og fágaðasta í
Ástralíu. |