Perth
er höfuðborg Vestur-Ástralíu við rætur Elizafjalls í suðvesturhluta
landsins. Borgin er á bökkum
Swan-árinnar, 16 km frá ósunum.
Perth er afskekktasta höfuðborg Ástralíu og hin fjórða stærsta.
Hún fékk nafn sitt til heiðurs Sir George Murray, nýlenduráðherra
og þingmanns Perth í Skotlandi, þegar hún var stofnuð 1829.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1993 var rúmlega 1,2 miljónir.
Loftslag
og lega.
Loftslagið er þægilegt, svalir vetur og hlý, stundum heit,
sumur. Meðalhitinn í janúar
og febrúar er 31°C og í júní og júlí 9°C. Vöxtur borgarinnar hefur verið stöðugur frá aldamótunum
1900, einkum eftir síðari heimsstyrjöldina.
Hún hefur vaxið í allar áttir, einkum til norðurs.
Suðaustan miðborgarinnar hefur talsvert verið byggt af ódýru
húsnæði í grennd við stór iðnfyrirtæki og verksmiðjur.
Fyrrum
var litið á Perth sem deyfðarlega borg vegna þess, hve afskekkt hún
er. Eftir að sambandsstjórnin
aflétti takmörkun járngrýtisútflutnings á sjöunda áratugnum
varpaði borgin deyfðinni af sér og jók útflutninginn fram á tíunda
áratuginn. Samband
borgarinnar við járnbrautina milli Indlands- og Kyrrahafs og bættar
flugsamgöngur auk járngrýtisins gerðu borgina að vænlegri kosti
fyrir fjárfesta annars staðar í álfunni.
Þessi aukni straumur fjármagns breytti yfirbragði Perth á öllum
sviðum og hún komst í tölu athafnasömustu og líflegustu borga
landsins.
Fremantle
við ósa Swan-árinnar í 16 km fjarlægð frá Perth er hafnarborg
hennar og reyndar alls fylkisins. Vegna afskekktrar legu sinnar var nauðsynlegt fyrir íbúa
Perth að sem flestar nauðsynjar væru framleiddar á nærliggjandi svæðum
með borgina sem stjórnsýslu- og þjónustumiðstöð fremur en iðnaðarborg.
Iðnaður hefur þróazt í Kwinana við Cockburn-sund 19 km
sunnan Perth. Kwinana var
sumarleyfisbær fram á sjötta áratuginn en nú er þar m.a. olíuhreinsunarstöð,
ál- og nikkelver, efnaframleiðsla, raforkuver og járn-báxít- og olíuvinnsla
og góð nútímahöfn. Aðrar
framleiðsluvörur á Perth-svæðinu eru málmvörur, matvæli, gúmmívörur,
byggingarvörur og áprentuð vefnaðarvara.
Menntun
og menning.
Leikhús hans hátingnar er miðstöð leiklistar, óperu og
danssýninga. Þetta er söguleg
bygging, sem var gerð upp af mikilli alúð. Listasafn Vestur-Ástralíu í Menningarhúsinu sérhæfir
sig í ástralskri list, frumbyggjalist og minjum.
Listasafnið hefur staðið fyrir verkefninu „List á opinberum
stöðum” og mörgum listaverkum hefur verið komið fyrir við aðkeyrsluleiðir
að Northbridge-torgi. Menningarhúsið
hýsir einnig Vestur-ástralska safnið, sem er í mörgum byggingum og
sýnir á lifandi hátt náttúru fylkisins og sögu íbúanna.
Frumbyggjadeildin fjallar um sögu og menningu og sædýradeildin
státar af 24 m langri beinagrind steypireyðar.
Á tíunda áratugnum var tónlistarhöll og skemmtanamiðstöð
bætt við menningarflóruna. Stærsta
flugvéla- og flugsögusafn landsins er í Bull Creek-hverfinu.
Perthhátíðin er árlegur viðburður og byggist á leiklist, bókmenntum,
tónlist og öðrum listgreinum.
Meðal
annarra mennta og menningarstofnana eru Gamli drengjaskólinn (nú fjármálastofnun),
kirkja hl. Georgs og prestbústaður frá 1859, Ríkisstjórnarhúsið
(byggt eftir 1850), Cloisters (1858; fyrsti framhaldsskólinn), Gamla dómshúsið
(1837; elzta bygging Perth), Háskóli V.-Ástralíu (1911), Murdoch-háskólinn
(1973), Curtin-tækniháskólinn (1987) og Edith Cowan-háskólinn
(1991; með leiklistardeild). Í borginni er grasagarður og dýragarður.
Kóngsgarðurinn er stórt og mjög athyglisvert útivistarsvæði.
Hann er í grennd á Mt. Eliza nærri miðborginni og þar blómstra
þúsundir tegunda blómstra í september til nóvember ár hvert á svæði,
sem er eins og áströlsku óbyggðirnar.
Margir
rithöfundar borgarinnar eru velþekktir heimafyrir og erlendis:
Elízabeth Jolley, Mudrooroo, Nicholas Hasluck, Philip Salom,
Dorothy Hewett og Tim Winton. Fáar
borgir heims eiga slíkar náttúrugersemar innan sinna marka.
Þetta svæði hefur verið látið óhreyft frá 1829 og helgað
nátttúruskoðun og útiveru. Víða
um garðinn eru minnismerki utan náttúrusvæðisins.
Sagan. Hollenzkir og franskir landkönnuðir voru fyrstu Evrópumennirnir
til að heimsækja Perth-svæðið eftir að Dirk Hartog’s kom auga á
vesturströnd Ástralíu 1616. Árið
1696 fann willem de Vlarning og nefndi Swan-ána, vegna hins mikla fjölda
svartra svana, sem hann sá. Hann
var lítt hrifinn af landinu, sem hann sá, og lýsti því sem þurrlendu,
gróðurlausu og villtu. Frakkar
sendu Francois Heirisson til að kanna og kortleggja Swan-ána og
umhverfi hennar 1801 en síðar (1807) lýsti leiðangursstjóri því
yfir, að þetta svæði væri óbyggilegt.
Brezkir leiðangursmenn undir stjórn sir James Stirling, skipstjóra,
og Charles Frazer, grasafræðings, hrifust svo af þessu svæði, að
þeir komu af stað hálfgerðu landnámsæði við Swan-ána.
Landnemar
fóru að streyma að árið 1829 og John Septimus Roe mældi fyrir
borgarstæði. Strax kom til hroðalegra átaka milli frumbyggjanna og hvítu
landnemanna, þótt sumir þeirra nytu hjálpar og stuðnings innfæddra.
Þróun landbúnaðar var mun hægari en búizt var við vegna þess,
að Stirling tók mið af óvenjulega svölu og úrkomusömu sumri og hélt
að slétturnar væru frjósamar og velfallnar til ræktunar.
Landið gekk hratt út og byggðist, þannig að leiðangrar voru
sendir út af örkinni til að leita að stærri svæðum til landnáms.
Vinnuaflsskortur varð alvarlegur, þannig að fangar voru
fluttir til svæðisins (1850). Þegar
straumur landnema til svæðisins minnkaði 1868, var Perth orðin allstór
borg. Á tíunda áratugi
19. aldar ollu gullfundir í héruðunum Kimberley og Pilbara og
Kalgoorlie auknu aðstreymi innflytjenda. Eftir síðari heimsstyrjöldina ollu fundir járns og
annarra málma í jörðu í fylkinu enn auknu aðstreymi og Perth
breyttist ört í útliti, efnahagslega og félagslega. |