Hobart Ástralía,
Flag of Australia


HOBART
ÁSTRALÍA
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Hobart er höfuðborg Tasmaníu, eyfylkis Ástralíu, á suðausturhluta eyjarinnar við Derwent-ána.  Árið 1993 var Íbúafjöldinn 193.200, þannig að Hobart er minns fylkishöfuðborga landsins.  Hún er næstelzt höfuðborganna og u.þ.b. 60% íbúanna býr utan borgarmarkanna.  Borgin nær yfir neðri hlíðar Wellington-fjalls (1270m), sem gnæfir yfir henni.  Þegar hún var stofnuð, var hún nefnd eftir þáverandi nýlendumálaráðherra Breta (1801-04), Robert Hobart, fjórða jarlinum af Buckinghamskíris.  Skömmu síðar fékk hún nafnið Hobarton, þar til upphaflega nafnið var tekið upp á ný.  Hobart er hafnarborg.  Fiskveiðiflotinn athafnar sig við Viktoríu- og Constitution-bryggjurnar.  Hinar síðarnefndu eru endastöð Sydney-Hobart kappsiglinganna, sem hefjast í Sydneyhöfn á öðrum í jólum ár hvert.

Loftslagið
er almennt svalara en í hinum fylkishöfuðborgunum.  Meðalárshitinn er 20°C í janúar og febrúar og 2-3 daga á ári nær hitinn 30°C.  Veturnir geta verið kaldir vegna Wellington-fjalls og hafáttar.  Macquarie-eyja í 1300 km fjarlægð í suðaustri, liggur milli Hobart og Suðurskautsins, sem er í 2000 km fjarlægð.  Þrátt fyrir temprað loftslag, eru veðurskilyrðin stundum þannig, að skógareldar kvikna í útjaðri borgarinnar.  Hinir verstu slíku brunnu 1967 og ollu dauða 62 manns og miklu eignatjóni.  Þá létust 53 manns í úthverfunum og 1000 heimili eyðilögðust.

Efnahagur.  Innanfylkismarkaðurinn er lítill fyrir framleiðsluvörur Hobart, sem er m.a. korkur, timbur, pappír, vélbúnaður til iðnaðar, fiskur og krabbadýr, þannig að útflutningur er mikilvægur og efnahagurinn því viðkvæmur fyrir verðsveiflum á heimsmarkaði.  Stjórnsýslan í Stór-Hobart skiptist milli Hobartborgar, Glenorchy, Clarence og Brighton og fjölda hverfa (Kingborough, New Norfolk og Sorrell.  Þetta svæði er mesta iðnaðarsvæði Tasmaníu og aðal stjórnsýslumiðstöð.  Hobart er líka stærsta hafnarborgin, þannig að mestur hluti inn- og útflutnings fer um höfnina og fjöregg efnahagslífsins.  Síðustu tvö krepputímabilin á 20. öldinni (1980-2000) einkenndust af miklu atvinnuleysi og gjaldþrotum stórra fyrirtækja (Tristeel í Glenorchy).  Erlend stórfyrirtæki hafa komið sér fyrir og sýnt áhuga á að gera það til að komast í meiri nánd við Asíumarkaðinn (Cadbury, Schweppes, Coates Patons, Glaxo o.fl.).

Áhugaverðir staðir.  Hvergi annars staðar í Ástralíu er meiri fjöldi varðveittra húsa frá nýlendutímanum, þótt mikil mengun frá verksmiðjum hafi valdið skaða á steinhúsum meðfram Derwent-ánni.

Skansinn (Battery Point) fékk nafn sitt vegna fallstykkis, sem var komið þar fyrir árið 1818.  Þar standa nú 19. aldar verandahús, smáhýsi og endurgerðir garðar.  Sjóminjasafn Tasmaníu er í dæmigerðu Battery Point-íbúðarhúsi frá 1830-40.  Konunglega leikhúsið (1837) er í endurbyggðu nýlenduhúsi, sem skemmdist í eldi 1984.  Vöruhús frá svipuðum tíma við Salamanca-torg þjónuðu eitt sinn höfninni en þar er nú útimarkaður.  Við gatnamót Murray- og Macquarie-gatna eru öll húsin upprunaleg frá 19. öld, gömlu dómshúsin, verandahús og dómkirkja hl. Davíðs.  Sheratonhótelið (1987) stingur í stúf við umhverfi sitt og Wrest Point spilavítið var hið fyrsta í Ástralíu.

Menntun og menning.  Eini háskóli fylkisins, Tasmaníuháskóli (1890), er við Sandy Bay.  Útibú frá honum eru Newnham í Launceston og Burnie, Devonport og víðar.  Tasmaníusafnið og listasafnið eru afrakstur stofnunar margs konar vísindafélaga á árunum 1820-40 og eru enn þá að hluta í húsi frá 1808.  Konunglega félagið á Tasmaníu er upphaflegi stofnaðili safnsins (1852)  Henry Hunter, einn bezti arkitekt nýlendu- og viktoríutímans í fylkinu, hannaði fyrsta hluta hússins á horni Argyle- og Macguarie-gatna.  Á tíunda áratugi 20. aldar bættist við safn steingervinga Jarðfræðistofnunar fylkisins.  Mannfræðideildin sýnir sorglega útrýmingu frumbyggja eyjarinnar og myndasafn sýnir fortíð Hobart sem fanganýlendu.  Meðal listaverka safnsins eru verk eftir John Glover.

Listráðgjafanefnd Tasmaníu hefur hvatt til listskreytinga opinberra bygginga og uppskeru þessarar nýbreytni í Ástralíu má sjá á byggingu einnar náttúrufræðideilda háskólans (grasafræði), rannsóknastöðva ríkisins, Claremont-menntaskólanum o.fl.  Konunglegi grasagarður Tasmaníu er í bröttum hlíðum niður að Derwent-ánni og Tasmanbrúnni.

Hið kunna bókmenntarit, Island Magazine, er gefið út í Hobart.  Það er einn stuðningsaðila hátíðar Salamanca rithöfundafélagsins, sem er haldin í ýmsum upprunalegum húsum og öðrum nýlegri við Salamancatorg.  Einn fremstu ljóðskálda Ástralíu, Gwen Hanwood, bjó lengst af í Hobart (†1995).  Rithöfundurinn Christopher Koch, sem skrifaði „The year of Living Dangerously”, og ljóðskáldin Margaret Scott, Syd Harrex og Andrew Sant eru meðal listamanna borgarinnar.

Sagan.  Abel Janszoon Tasman, yfirmaður Heemskirk og Zeehan, kom auga á vesturströnd Tasmaníu árið 1642 og kallaði landið Van Diemen’s Land eftir landstjóra Batavíu, sem kostaði leiðangur Tasmans.  Síðar sáu margir eyjuna og lentu þar, þ.á.m. lenti Cook skipstjóri við Ævintýraflóa og Bruny-eyju árið 1777.  Árið 1788 sigldi fyrsti flotinn suður fyrir Tasmaníu á leið sinni til Botany-flóa og Sydney-víkur.  Sama ár kom William Bligh á Bounty við í Ævintýraflóa á leið sinni til Tahiti.

Frakkar gerðu sig heimakomna og sendu leiðangra Bruni d’Entrecasteaux og Nicholas Baudin til Tasmaníu og Bretar sáu sitt ráð vænst að lýsa eignarhaldi á eyjunni.  Fyrst var siglt í kringum Tasmaníu 1798 (George Bass og Matthew Flinders) en áður höfðu menn ekki gert sér grein fyrir því að landið var eyja.

Fyrstu tvö landnámin, sem áttu að tryggja yfirráð Breta, annaðist John Bowen, liðsforingi, árið 1803 við Risdon-vík.  Þarna notuðu landnemarnir í fyrsta skipti í sögu landnáms Ástralíu skotvopn gegn frumbyggjunum.  Varalandstjórinn Collins var óánægður með byggðirnar við Risdon-vík og lét færa þær tiil Sullivan-víkur 1804.  Hinn 26. febrúar sama ár bjuggu 226 karlar, 15 konur og 21 barn við víkina (Hobart).  Af þessum fjölda voru 178 karlar, 9 konur og 8 börn dæmdir glæpamenn.  Fyrsti skipsfarmur fanga, sem var sendur beint frá Englandi til Hobart kom þangað árið 1812 með skipinu Indefagigable og Hobarton, eins og byggðin var kölluð þá, varð höfuðborg Tasmaníu og önnur meginstjórnstöð fanganýlendna, líkt og Sydney.

Næstu tvo áratugina dafnaði Hobart, einkum sem stjórnsýslumiðstöð fanganýlendunnar.  Spilling og ójafnræði uxu og urðu að stórvandamáli.  Nefnd var sett í að rannsaka fangaflutinga (1837-38) og hún svipti hulunni af hryllilegu ástandi, sem yfirvöld reyndu að bæta en án áragnurs.

Rafvæðing, bygging brúa og afskipti náttúruverndarsinna hafa leitt til nútímavæðingar landsins en einnig til vandamála.  Mikið hefur verið deilt um byggingu vatnsorkuvera og varðveizlu regnskóga eyjarinnar á þingi fylkisins.

Á árunum 1980-2000 var íbúafjölgun minnst í Hobart miðað við aðrar fylkishöfuðborgir landsins og þar ríkti líka mesta atvinnuleysi meðal ungs fólks.  Engu að síður er Hobart aðaliðnaðarsvæði Tasmaníu og vinsælasti ferðamannastaður fylkisins.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM