Ástralía var að mestu óræktað land í kringum aldamótin
1800. Náttúruleg flóra landsins hafði þróazt á löngum tíma áður en
Evrópumenn komu til sögunnar. Sum ævaforn tröllatré bera enn þá merki
um fallbyggukúlur, sem hafa hæft þau eða barkarskurð steinaldarmanna (frumbyggjanna).
Hirðingjar og safnarar, sem stunduðu hvorki kvikfjárrækt né ræktun (frumbyggjarnir),
höfðu sín áhrif á náttúru landsins. Þeir söfnuðu og brenndu eldiviði og
oft fór eldurinn úr böndunum og stór gróðursvæði urðu honum að bráð.
Tíðir skógar- og gróðureldar af þessu tagi ollu miklum
gróðurfarsbreytingum, sem hefur dregið mikið úr, því þeir eru mun
fátíðari nú en áður. Stór gróðursvæði, sem hefur ekki verið farið um
með eldi lengi, eru að breytast náttúrulega og smærri svæði, sem eru
sviðin reglulegar og oftar, eru einnig að breytast. Ástralski
grasafræðingurinn, Helene Martin, hefur byggt rannsóknir sínar á gróum
og frjókornum og lagt fram gögn, sem gefa til kynna feril breytinga á
afmörkuðum þurrka- og strandsvæðum á nokkurra teinalda tímabili vegna
gróðurelda af völdum frumbyggjanna.
Eftir að Evrópumenn hófu innreið sína hafa orðið byltingakenndar
breytinga á lífríkinu. Allt ræktanlegt land og stór óræktarsvæði hafa
verið rúin upprunalegum gróðri og framandi jurtum verið sáð eða
plantað í staðinn. Þessar aðgerðir útrýmdu nokkrum tegundum og æ
fleiri bætast á válistann.
Geysivíðlent innlandið og norðursvæðin eru of þurr til ræktunar en
nýtt til beitar fyrir miljónir nautgripa og sauðfjár. Margar
dýrategundir voru fluttar til landsins að yfirlögðu ráði og aðrar
slæddust óvart með ýmsum flutningi án nokkurra gagnráðstafana.
Afleiðingarnar eru m.a. ofbeit og gjörbreyting vistkerfa.
Síðustu tvo áratugi 20. aldar voru uppi háværar raddir og mikill
áróður fyrir verndun náttúrulegra vistkerfa í Ástralíu.
Hagsmunaaðilar eða landnýtingarsinnar brugðust hart við og illvígar
deilur komu í kjölfarið. Núverandi verndarsvæði geyma nokkurn hluta
náttúrulegra vistkerfa og landslagseinkenna en þörf er fleiri slíkra
til að hindra áframhaldandi útrýmingu og viðhald fjölbreytni
gróðurkerfanna.
Sambandsstjórnin, héraðsstjórnir og nokkrir háskólar reka stofnanir
til vísindalegra rannsókna og söfnunar ástralskra jurta og plantna.
Niðurstöður rannsókna eru birtar almenningi og gefnar út í handbókum.
Allan níunda áratuginn jókst útgáfa bóka um skrautplöntur,
gróðurhúsaræktun, lækningajurtir, ætar jurtir og nytjaplöntur almennt.
Heildarútgáfa flóru Ástralíu hófst árið 1981 og stöðugt bætist við.
Tegundir sjálfsáinna plantna eru taldar í kringum 20.000 og taldar
eiga uppruna sinn að rekja til tveggja jarðsögulegra þátta, sem ná
yfir víðara svið en flóruna eina. Annar byggir á steingervingum og
geislakolsmælingum á meginlandinu. Hinn er jarðeðlisfræðilegur og
byggist á tímatali landreks og þar með hvert má rekja uppruna
flórunnar.
Á júratímanum (fyrir 208-144 miljón árum) er Ástralía talin hafa verið
hluti Suðurmeginlands, sem var kallað Gondwana. Það náði yfir
núverandi Suður-Ameríku, Afríku, Indland Madagaskar, Nýju-Kalsedóníu,
Nýja-Sjáland og Suðurskautslandið. Seint á þessu tímabili rifnaði
þessi landmassi sundur og fór að reka líkt og ísbreiður, sem brotna
upp. Því er álitið, að upprunalegan gróður Ástralíu sé að rekja til
þessa risastóra, forsögulega meginlands. Bæði núverandi
gróðursamfélög og steingervingar á framangreindum meginlöndum og eyjum
eru skyld og stundum næstum einsleit, þótt vissulega hafi þau þróast
hvert á sinn hátt miðað við umhverfi og aðstæður. Dæmi um þetta eru
beyki- (Nothofagus), barrtrjáa- (Podocarpaceae) og fræberandi tegundir
((Myrtaceae, Proteaceae, Stylidaceae, Epacridaceae, Restionaceae o.fl.).
Uppruna margra plöntutegunda má einnig rekja til eyjanna norðan
Ástralíu (Malæísku eyjanna). Þær hafa borizt til landsins mun síðar í
jarðsögunni (míósen), þegar landrekið hafði fært Ástralíu mun nær þeim.
Þannig er hægt að rekja ýmsar runnategundir (Leptospermum; Myrtaceae)
til norðurs og Baeckea til Kína, Melaleuca til Indlands og tröllatré
(eucalyptus) til Filipseyja. Leucopogon af Epacridaceae-fjölskyldunni
er rakið til Malasíu og Tælands og Trochocarpa til Borneó og Selebes (Sulawesi).
Tegundir berast stöðugt milli landa og fjölda þeirra úr norðri er
einkum að finna í Norður-Ástralíu.
Norðurhlutinn er á margan hátt sérstakur gróðurfarslega og ekki ýkja
sambærilegur við önnur lönd. Þar er að finna tegundir, sem hafa
greinilega þróast á meginlandinu teinöldum saman og er áberandi og
einkennandi fyrir áströlsk gróðursamfélög. Þessi áberandi einkenni
eru aðallega þróun harðblöðunga (sclerophylly), sem þrífast í lítt
frjósömum jarðvegi, enda flokkast Ástralía sem ófrjósamasta heimsálfan.
Margar tegundir eru einnig kunnar fyrir aðlögun að mjög mismunandi
aðstæðum, sem veldur því, að þær sjást í flestum eða öllum
gróðursamfélögum og vistkerfum um land allt.
Meðal áströlsku tegundanna eru afbrigði af upprunalegu
Gondwana-tegundunum. Sem dæmi má nefna fjölskyldutegundirnar
Epacridaceae, Myoporaceae, Goodeniaceae og Stackhousiaceae auk
sérþróaðra afbrigða aðfluttra tegunda af undirættum Leptospermoideae
af Myrtaceae, tegundirnar Banksia og Hakea af proteaceae,
Xanthorrhoeaceae (nema Liliaceae) og kengúruloppu (Haemodoraceae).
Tröllatrén eru mest áberandi í augum gesta. Þau flokkast í rúmlega
400 tegundir mismunandi stærða, allt frá því að vera lægri en mannhæð
upp í stærstu plöntur jarðar. Vistkerfi þeirra eru jafnmismunandi og
tegundafjöldinn, allt frá regnskógum upp í snjóasvæði og inn á jaðra
eyðimarka. Akasíutré hafa gengið í gegnum svipaðar breytingar og
aðlögun.
Það er illkleift að beita evrópskum eða amerískum hugtökum um
ástralskan gróður, gróðursamfélög og vistkerfi, því þau og aðstæðurnar
eru svo ólíkar því, sem gerist á þessum meginlöndum, á margan hátt.
Sem dæmi má nefna, að oft var og er ófullnægjandi að skýra
gróðurfarsbreytingar með loftslagi. Jarðvegsgerðir og jarðsagan eru
mun líklegri skýringar en það víða um álfuna. Viðurkenndar kenningar
og sannanir varðandi barr- og laufskóga á norðurhveli eiga ekki við,
þegar leitað er skýringa á fjölbreytileika sígræns gróðurs í Ástralíu.
Gróðurkort Ástrálíu byggjast aðallega á raunverulegum skýringum og
rannsóknum á þessu einstæða meginlandi.
Ástralíu er skipt í þrjú aðalgróðurbelti: Hitabeltið, tempraða beltið
og eremia-beltið, sem nær yfir margs konar loftslag. Hitabeltið
teygist frá austri til vesturs yfir norðurhluta álfunnar og nær
hálfleiðis suður eftir austurströndinni. Í því ríkir að mestu þurrt
monsúnloftslag með mjög úrkomusömum svæðum. Tempraða beltið, sem er
svalt til heittemprað og jaðartrópískt, nýtur vetrarúrkomu eða úrkomu
óháðri árstíðum, teygist meðfram suðurjaðri álfunnar, yfir Tasmaníu og
upp með austurströndinni inn á hitabeltissvæðið norðar. Eremia-beltið
nær yfir næstum allt innlandið og miðvesturströndina. Það einkennist
af þurrki.
Þessi meginbelti einkennast af regnskógum, harðblaðaskógum (aðallega
tröllatré; sclerophyll) og öðru skóglendi, runnum, steppum og
grassléttum auk mjög annarra mjög mismunandi samsettra undirvistkerfa.
Blanda lauftrjáa, lágvaxinna harðblaðatrjáa-steppna (sclerophyll),
grasskúfasléttna, fenjatrjáa- eða leirutrjáasvæða og regnskóga, víða
með framandi tegundum gróðurs (aðallega á norðausturhluta York-skaga
og í Queensland), einkennir mestan hluta hitabeltisins. Alls staðar í
hitabeltinu finnast tegundir frá norðlægari eyjum og löndum. Einkenni
regnskóganna eru sambærileg við það, sem er almennt kallað frumskógur.
Þar ægir saman stórum trjám með skástoðum og fjölda samtengdra
gróðurlaga með samfléttuðu vafningsviðarþaki milli trjákrónanna (liana
og epiphyte).
Tempraða beltið einkennist af þurrum og votum harðblaðaskógum (sclerophyll),
blönduðum skóglendum, steppuskógum, runnasvæðum (sums staðar
alpagróður), tempruðum regnskógum og heiðarlöndum með lágvöxnum
harðblaðatrjám og runnum. Mun hærra hlutfall gróðursins þar er af
áströlskum uppruna. Suðvesturhorn Vestur-Ástralíu er sérstætt innan
tempraða beltisins, bæði vegna hærra hlutfalls ástralskra plantna og
mikils fjölda tegunda. Gróður Tasmaníu einkennist af beykiskógum og
gróðurskyldleika við Nýja- Sjáland og Suður-Ameríku. Andstætt
regnskógum hitabeltisins ber mest á tröllatrjám og akasíutrjám í
tempraða beltinu. Stór hluti skóga og gróðurs tempraða beltisins
hefur verið ruddur til ræktunar, þannig að upprunaleg gróðursamfélög
eru á ófrjósömustu og afskekktustu svæðunum og því allfátækleg og
illaðgengileg.
Gróður eremia-beltisins nær frá næstum gróðursnauðum eyðimörkum og
hæðum yfir hálfþurrkasvæði með steppurunnum og grasskúfasléttum og
strjál- og lágvaxin tröllatrjáasvæði. Margar runnategundir hafa
aðlagast þurrkaskilyrðunum, þannig að þær eru svo líkar, að fólki
hættir til að halda að þær séu allar af sömu ætt. Víða í þessu belti
víkja tröllatrén fyrir akasíutrjám, eremófílu og kasúaríum. Mestur
hluti þessa gróðurs er illa farinn. |