Loftslagsbeltin, landslag og jarðvegur, sem stuðla að
fjölbreytni flóru Ástralíu, endurspeglast í dreifingu dýrategunda um
landið og hafsvæðin umhverfis það. Fjöldi dýrategunda er einhvers
staðar á milli 200.000 og 300.00 og u.þ.b. 100.000 þeirra hafa verið
skráð og greind. Nýlegar niðurstöður taka til 244 tegunda spendýra, 656
fuglategunda, 380 tegunda skriðdýra, 122 tegunda froska og 180 tegunda
ferskvatnsfiska. Ótaldar tegundir eru að mestu hryggleysingjar, þ.m.t.
skordýr.
Vistsvæði hitabeltisins eru fjölbreytileg. Nokkrar tegundir halda sig í
fjallendum norðausturhlutanum innan þess: Trékengúra (Dendrolagus) og
fuglavængjafiðrildi (Ornithoptera). Aðrar tegundir kjósa opnari svæði á
steppunum og grassléttunum: Wallaby-kengúran (Macropus agilis) og
segultermítinn (Amitermes meridionalis), sem byggir hauga sína í
norður-suðurstefnu.
Dýrin í eremia-beltinu eru öll búin hæfileikum til að lifa á miklum
þurrkasvæðum, þar sem úrkoma er mjög óregluleg. Þeirra á meðal eru
pokamoldvarpan (Notoryctes typhlops), sem grefur í sandinn, og
vatnsfroskurinn (Cyclorana). Eftir regntímann grefur hann sig djúpt í
jörðu, þar sem hann liggur í nokkurs konar púpu úr yzta lagi
húðarinnar, sem er fyllt vatni. Budgerigar-páfagaukur (Melopsittacus)
leysir vandann með því að vera á stöðugu flakki milli svæða.
Dýralífið í tröllatrjáaskógunum og öðrum vistsvæðum tempraða beltisins
byggist á reglubundinni vetrarúrkomu. Margar tegundanna eru
sérstaklega aðlagaðar tröllatrjánum. Koala-björninn (Phascolarctos)
étur blöð sérstakra tegunda þeirra. Lýrufuglar (Menura) og gráu
kengúrurnar (Macropus giganteus) og Macropus Fuliginosus eru skógardýr.
Gráu kengúrurnar hafast líka við á hálfþurrum og runnavöxnum svæðum og
heiðum. Einu Alpadýr Ástralíu, s.s. dvergpungrottur (A. phalanger),
fjallapungrotta (Burramys parvus) og alpaengisprettan (Kosciuscola),
lifa hátt uppi í fjöllum tempraða beltisins.
Nokkrar dýrategundir finnast í öllum loftslagsbeltunum, s.s. rauðhöfða
kakadú (Cacatua roseicapilla) og ástralski flautufuglinn (Gymnorhina
tibicen).
Hættan á því, að dýrategundir verði útdauðar, veldur miklum áhyggjum í
Ástralíu. Talið er, að 13 tegundir spendýra og ein fuglategund hafi
dáið út eftir að Evrópumenn hófu landnám en miklu fleiri eru á válista.
Vistsvæði flestra dýrategunda í tempraða beltinu og hálfþurrkasvæðum
hafa líka minnkað verulega vegna sístækkandi beitarsvæða og fjölgunar
vatnsbóla fyrir búsmalann. Þó eru tegundir, sem hafa styrkzt við
þessa þróun, þ.m.t. stóru kengúrurnar (Macropus) og ástralski
flautufuglinn (Gymmorhina tibicen).
Margar dýrategundir lifa á fremur fáum tegundum
gróðurs, þannig að dýr ákveðinna svæða hafa orðið meira fyrir umsvifum
manna en aðrar. Smá og meðalstór, jarðbundin dýr og fuglar á
tempruðum og hálfþurrkagras- og runnalendi, hafa orðið verst úti vegna
beitar og ræktar. Á þessum slóðum hafa innfluttir keppinautar um
fæðuna, kanínur, sauðfé, geitur og nautgripir, aukið á vanda innlendra
tegunda, sem eru líka bráð refa og villikatta. Fáir landshlutar eru
lausir við innfluttar dýrategundir. Í hitabeltinu norðanlands er
talið, að bambuskartan (Bufo marinus) lifi á smærri hryggdýrum.
Innfluttar hunangsflugur, sem lifa villtar, eru grunaðar um samkeppni
við innlendar tegundir skordýra, spendýra og fugla.
Þáttur frumbyggjanna í hvarfi dýrategunda fyrir daga Evrópumanna hefur
verið í hámæli. Ljóst er, að þeir stunduðu veiðar og kveiktu skógar-
og gróðureldum á landnámstímanum eins og áður, þannig að þeir hafa
haft sín áhrif á fjölda dýra en samt ríkti einhvers konar jafnvægi í
náttúrunni vegna samkomulags þeirra um verndun mikilsverðra tegunda
fyrir afkomuna. Ekki er ljóst, hvaða áhrif koma frumbyggjanna til
álfunnar hafði fyrir 60.000 árum, þegar fleiri stórar dýrategundir
voru til en við komu Evrópumanna. Meðal dýrategunda, sem talið er að
hafið dáið út á tímabilinu fyrir 27.000 til 12.000 árum, voru
Diprotodon (á stærð við uxa), risapokadýrið (wombat; Phascolonus),
stóra stutthöfðakengúran (Sthenurus og Procoptodon), pokaljónið (Thylacoleo)
og ófleygi risafuglinn mihirungs (Genyornis).
Því hefur verið haldið fram, að ofveiðar og umhverfisbreytingar af
völdum elds, sem frumbyggjar kveiktu, hafi valdið útdauða þessara
tegunda. Sumir vísindamenn telja, að loftslagsbreytingar í lok
ísaldar (fyrir u.þ.b. 10.000 árum) séu líklegri ástæða. Þegar síðasta
skeið ísaldar var í hámarki fyrir 22.000-18.000 árum voru engir stórir
ísskildir á ástralska meginlandinu en þá var tími þurrka, kulda og
vinda. Eyðimerkur álfunnar hafa aldrei verið stærri en þá og
vafalaust hefur ástandið sett sitt mark á dýralífið. Enn þá hafa
rannsóknir ekki leitt til samræmdra niðurstaðna, þannig að kenningar
um hvarf dýrategunda verða að byggjast á nokkrum aðalástæðum án þess
að hægt sé að fullyrða um áhrif hverrar fyrir sig.
Nú á dögum eru fáar tegundir dýra á veiðilistum.
Veiðileyfi eru takmörkuð við nokkrar tegundir kengúra, sótskrofu (Puffinus
tenuirostris) og nokkrar algengustu tegundir kakadúa og páfagauka,
þótt lögum samkvæmt sé óheimilt að flytja út lifandi fugla. Leyfi eru
veitt til útrýmingar meindýra (þ.m.t. kengúrur). Meðal fuglategunda,
sem skotveiðimenn fá leyfi til að veiða eru andategundir,
hænsnfuglategundir og hrossagaukur. Á nokkrum stöðum eru leyfðar
takmarkaðar veiðar örfárra spendýrategunda. Áður en lög voru sett um
veiðar almennt var mikil ásókn í margar dýrategundir, s.s. páfagauka,
kakadúa, krókódíla, kóalabirni, nokkrar tegundir pokarottna, margar
kengúrutegundir og seli, þannig að hætta var á útrýmingu í nokkrum
tilfellum. Flestar þessar tegundir hafa náð sér á strik aftur. Nú
gilda kvótar fyrir kengúruveiðar og stöðugt fylgzt með fjölda þeirra.
Samkvæmt veiðitölum eru u.þ.b. 300.000 sótskrofur veiddar ár hvert og
þykja herramannsmatur.
Yfirvöld og vísindamenn, sem bera ábyrgð á verndaraðgerðum, styðja m.a.
vísindaveiðar kengúrutegunda. Margir eru þeirrar skoðunar, að ræktun
kengúrunnar sem húsdýrs, yrði verndun og bændum til framdráttar. Svo
eru aðrir, sem hafa jafnvel persónugert kengúruna, líkt og hvalina í
hafinu, og eru algerlega mótfallnir veiðum, hvaða nafni, sem þær
nefnast.
Ástralía hýsir bæði skaðleg dýr og nytjadýr.
Stóri saltvatnskrókódíllinn (Crocodilus porosus) er mannæta. Fjöldi
snáka er eitraður og hættulegur mönnum. Hinir hættulegustu eru tæpan
(Oxyuranus), mjúksnákur (Parademansia), tígursnákur (Nodtchis,
brúnsnákur (Pseudonaja) og dauðaadder (Acanthophis), sem er minni en
hinir snákarnir en er baneitraður með stórar vígtennur og gerir
leiftursnöggar árásir. Eitraðar köngulóartegundir eru margar. Hinar
algengustu eru veftrektarköngulóin (Atrax) og hin svart-rauða
Latrodectus. Báðar þessar tegundir hafa valdið mönnum dauða. Komist
fólk, sem hefur orðið fyrir biti þessara kvikinda strax eða mjög
fljótlega undir læknishendur er hægt að beita andeitri.
Títlur og iðraormar eru hættuleg búsmala og heimilisdýrum. Nokkur
skordýr, sem sjúga blóð, bera með sér sjúkdóma. Lirfur
lúsilíuflugunnar (Lucilia) leggjast á lifandi húðvef sauðfjár og valda
gífurlegu tjóni í ullariðnaðinum. Engisprettur, ranabjalla (kornmaðkur)
og skordýralirfur ýmissa tegunda valda miklum skaða í landbúnaði,
einkum í kornskemmum.
Dýralífið í Ástralíu (og Nýju-Gíneu, sem er á sama
landgrunni) er mjög ólíkt öðrum nærliggjandi löndum og álfum, s.s.
Indónesíu og malæska eyjaklasanum. Nú er vitað, að þessi munur stafar
af einangrun Ástralíu í 40 miljónir ára og reki meginlandsins til
norðurs á þær slóðir á hnettinum, þar sem það er núna. Fánuna má því
að mestu rekja til hins ævaforna meginlands Gondwana, sem Ástralía og
fleiri álfur urðu til úr. Asíski hluti fánunnar (staðbundin spendýr:
rottur, mýs, leðurblökur og dingo-hundurinn, sem frumbyggjar fluttu
líklega með sér), barst einhvern veginn frá eyju til eyjar og loks til
Ástralíu. Eins og við er að búast voru það flugdýrin (leðurblökur,
fuglar og skordýr), sem komu first og hafa átt auðveldast með það áður
en Ástralíu rak of langt frá Gondwana. Fuglar af hrafnaætt (Corvi),
s.s. lýrufuglinn og hunangsætur auk krákna, virðast hafa byrjað að
dreifast um Ástralíu fyrir 55-60 miljónum ára. Skeifuleðurblökur (Hipposideridae),
sem eru skylda leðurblökum gamla heimsins, hafa fundizt sem 20 miljón
ára steingervingar.
Fánuarfurinn frá Gondwana gerir Ástralíu sérstaka.
Suður-Ameríka hýsir fjölda pokadýra lík hinum áströlsku en í Ástralíu
hafa þau dreifzt meira og víðar um álfuna en þar. Því er hægt að
finna svipaðar pokamoldvörpur, mauraætur, úlfa, flugrottur og
antilópur í báðum álfum. Einu spendýrin, sem verpa eggjum,
flatnefurinn (Ornithorhynchus) og echidna (Tachyglossus) (auk
langnefsins (Zaglossus) í Nýju-Gíneu) eru líka upprunnin í Gondwana,
en elztu skyldu steingervingar eru frá snemmkrítartíma í Mið-Ástralíu,
þ.e.a.s. áður en Indland rak frá Ástralíu. Þar til fyrir skömmu var
álitið, að legspendýr hefðu ekki fundizt í Ástralíu fyrr en þau fóru
að færa sig suður frá Asíu. Engin merki steingervinga svipaða
ástrlösku spendýrunum fundust í Suður-Ameríku. Árið 1991 skýrðu
áströlsku steingervingafræðingarnir Michael Archer, Henk Godthelp og
Suzanne Hand frá fundi nærri 55 miljón ára (eosen) leðurblakna og
legspendýra í Murgon í Suður-Queensland. Þessi fundarstaður er ríkur
af steingervingum pokadýra, sem tengjast suðuramerísku fornfánunni.
Samtímis fundust steingervingar legspendýra í Suður-Ameríku. Það er í
raun ekki undrunarefni, því Ástralía var gengd Suður-Ameríku um
Suðurskautslandið, þegar Ástralía var enn þá hluti af Gondwana.
Argentínski steingervingafræðingurinn Rosendo Pascual fann 63 miljón
ára steingervinga (monotreme) sama ár í Patagóníu og sagði þá vera
mjög svipaða 15 miljón ára fatnefssteingervingum (Obdurodon).
Emus og cassowaries (Casuariidae), haugasmiðir (margfætlur)
og páfagaukar eru næstum örugglega upprunnir í Gondwana auk
skjaldbakna (Chelidae). Önnur dæmi um Gondwana uppruna má finna meðal
skriðdýra, vatnadýra og hryggleysingja. Sumar tegundir jarðorma (Megascolescini)
finnast í Ástralíu og Indlandi en hvergi á öðrum meginlöndum af
Gondwana uppruna, sem gæti gefið til kynna að þær hafi verið
staðbundnar þar og rekið með flekunum, sem skiptust í Ástralíu og
Indland.
Langelzti hluti áströlsku fánunnar er rakinn til tíma
fyrir myndun Gondwana. Dæmi um dýr í þessum flokki eru Queensland
lungnafiskurinn (Neoceratodus), sem á nánustu ættingja í
steingervingum Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu (fyrir u.þ.b. 570-360
ára), þegar Ástralía var hluti Pangaea, forns meginlands, sem Gondwana
rak frá. Þessi fisktegund er fjarskyldari svipuðum tegundum í Afríku
og Suður-Ameríku (Lepidosirenidae) en útdauðum tegundum í Asíu, Evrópu
og Norður-Ameríku. Nokkrar tegundir skordýra, köngullóa, onycophora (Malacopoda),
landlindýra og jarðorma eru hugsanlega Pangaea-tegundir.
Steingervinga frá þessu tímaskeiði er víða að finna í Ástralíu, þ.m.t.
elztu þekktu hryggdýr, Arandaspida (kjaftlaus fiskur, sem var til
fyrir 450 miljónum ára; Ordovicia-tími) og sérstaklega vel varðveitt
sýnishorn brynjaðra fiska og lungnafiska frá devontímanum (fyrir
408-360 miljónum ára). |