Darwin
er höfuðborg Norðurfylkis á skaga út í Tímorhaf við
Clarence-sund andspænis Melvis-eyju.
Hún er nyrzt fylkishöfuðborga landsins og höfnin er tvisvar
sinnum stærri en Sydneyhöfn. Hún
stækkar örast allra fylkishöfuðborganna, þótt hún sé þeirra
minnst með tæplega 80.000 íbúa árið 1993.
Árið 1869 fékk hún nafn brezka forsætisráðherranum og
varakonungi Palmerston, sem hún bar til 1911.
Árið 1839 var svæðið skirt í höfuð Charles Darwin, sem
kom þangað með HMS Beagle. Darwin-nafnið var tekið upp á ný 1911, þegar
fylkjabandalagið tók við af Suður-Ástralíu.
Borgin er setur fylkisstjórnar Norðurhéraðsins.
Þar starfar fylkisþing í einni Deild (25) líkt og í öðrum
fylkjum landsins. Á miðju
ári 1996 varð þing fylkisins fyrst vestrænna ríkja til að samþykkja
lög um líknardráp.
Loftslag. Við lá, að Darwin eyddist fimm sinnum, 1878, 1882, 1897,
1937 og 1974, vegna þess, að borgin er á leið hitabeltisfellibylja
og verður reglulega fyrir tjóni af þeirra völdum á úrkomutímanum
(nóv.-marz). Fellibylurinn
Tracy 1974 lagði 2/3 hluta borgarinnar í rust, olli skemmdum í þriðjungnum,
sem eftir var, og drap 66 manns. Ítrekaðar
loftárásir Japana í síðari heimsstyrjöldinni skildu borgina eftir
í rústum. Darwin er í
hitabeltinu með 20°C-30°C hita og 1500 mm meðalársúrkomu og
stundum rignir eins og hellt sé úr fötu.
Þessi loftslagsskilyrði setja borgarbúum skorður í lífsháttum
sínum og ráða að nokkru útliti borgarinnar.
Áhugaverðir
staðir.
Afdrifaríkar loftárásir Japana og fellibylurinn Tracy breyttu
byggingarstíl borgarinnar og framtíðarskipulagi hennar.
Fyrir stríð var Darwin lítil og óskipuleg borg, aðsetur
perlu-, vísunda- og krókódílaveiðimanna, málmleitarmanna og kúreka.
Löngu áður en alþjóðlegra menningaráhrifa fór að gæta
annars staðar í Ástralíu var Darwin orðin deigla kínverja,
frumbyggjar, malæja, hvítra, indónesa og annarra þjóðerna.
Þetta ástand varð samt ekki til þess að frumbyggjar landsins
væru meðhöndlaðir betur og með meiri virðingu en annars staðar í
landinu.
Eyðileggingin
í stríðinu opnaði möguleika til framtíðarskipulagningar byggðarinnar
en á jóladag 1974 reið fellibylurinn Tracy yfir með 300 km vindhraða
á klst og olli nærri algerri eyðileggingu á fjórum klukkustundum.
Í kjölfarið höfðu skipuleggjendur borgarinnar næstum hreint
borð til að byrja á. Með
aðstoð byggingarmeistara lögðu þeir fram áætlanir, sem miðuðu að
meiri reglu og ekki sízt húsum, sem stæðust fellibylji.
Borgin sjálf byggist á ferhyrninglöguðu skipulagi, sem er vænt
gangandi vegfarendum. Þrátt
fyrir það, að borgin er afskekkt eru umferðarhnútar vandamál vegna
þess að hún stendur úti á enda skagans með sjóinn á þrjá vegu
(Frances-flói, höfnin og Fannie-flói). Útborg hennar og úthverfi eru að stækka og umferðarvandamálið
vex.
Hús,
sem standast fellibylji, eru ekki augnayndi en inni á milli þeirra eru
sums staðar falleg hús frá nýlendutímanum, sem hafa staðizt ósköpin
eða verið endurbyggðar. Meðal
þeirra eru Fylkisstjórnarhúsið (1883), Fanny Bay-fangelsið (1883;
safn), Gamla flotahúsið á staurum, sem hefur staðið nokkuð
traustum fótum síðan 1920, Viktoríuhótelið, Kínverska hofið og félagsmiðstöðin
með banyan-trénu, sem er kallað „Tré þekkingarinnar”.
Grasagarðurinn við Fanny-flóa skemmdist talsvert 1974 en var
endurgerður til að sýna hina miklu fjölbreytni hitabeltisflórunnar.
Kakadu-þjóðgarðurinn er í 200 km fjarlægð frá borginni
til austurs og margir gestir hans koma frá Darwin.
Lista- og vísindasafn Norðurhéraðsins er í nútímabyggingu
við Fanny-flóa. Þar er
frumbyggjalist í hávegum höfð auk minja frá Asíu og
Kyrrahafseyjum. Lítið sædýrasafn
er tengt byggingum safnsins.
Norðurhéraðsháskólinn
er ein mesta menntastofnun borgarinnar (1988).
Menningaráhrifin er margvísleg í borginni, því þar býr fólk
af a.m.k. 50 þjóðernum eða uppruna.
Efnahagsmál. Á yzta hluta skagans er herstöðin Larrakeyah, sem er meðal
stærstu vinnuveitenda borgarinnar auk þjónustuiðnaðar og opinberrar
starfsemi. Ferðaþjónustan
er í mestum vexti og fylkisstjórnin leikur stórt hlutverk í henni.
Darwin er jafnfjarri Sidney og Singapúr og nær Jakarta í Indónesíu
en flestum öðrum fylkishöfuðborgum Ástralíu.
Úraníum og kopar eru grafin úr jörðu í grennd borgarinnar
og um höfnina fer mikið af nautakjöti og hrámálmum (sink og blý).
Meðal annarra náttúruauðæfa annars staðar í fylkinu er báxít,
magnesíum, gull og náttúrugas. Rækjuveiðar
og perluköfun eru mikilvægir atvinnuvegir í Norðurhéraðinu og hafa
löngum verið undirstöður atvinnulífs í Darwin.
Darwin
er önnur endastöðvar norður-suðurjárnbrautarinnar og upphafspunktur 1486 km langs þjóðvegar suður
til Alice Springs og áfram til Adelaide.
Bygging millilandaflugvallarins við Darwin skapaði nýjar
tekjulindir, því að mörg alþjóðleg flugfélög nota hann.
Sagan. Hollenzkir sæfarar á Arnhem voru fyrstir til að koma auga
á norðurströnd Ástralíu á þriðja áratugi sautjándu aldar og
Matthew Flinders skírði hana Arnhem Land þeim til heiðurs 1803.
Sundurlausar tilraunir voru gerðar til að nema land á ströndinni
og Port Essington var yfirgefin 1849.
Suður-ástralskir bændur og spekúlantar stóðu að baki
innlimun Norðurhéraðsins 1863 og gerðar voru fjórar tilraunir til
landnáms þar að því loknu. Þrjár þeirra mistókust á árunum 1863-68 og mælingamaðurinn
George Goyder benti á Port Darwin sem framtíðarlandnám. Hann kom þangað í febrúar 1869 og mældi fyrir borginni
Palmerston. Frumbyggjar svæðisins
litu á landnám hvíta mannsins sem upptöku lands þeirra og Goyder
vonaðist til að geta komizt að samkomulagi við þá með því að
nota staðarnöfn úr þeirra Tungu.
Í marz 1870 var búið að skíra öll mæld svæði nöfnum stjórnmálamanna
í Adelaide. Áætlunin um landnámið í Darwin byggðust eins og fyrri
áætlanir á gerð hafnar, sem þjónaði viðskiptum við Asíu og laðaði
til sín bændur. Lítið
varð úr viðskiptunum og bændur sýndu þessu nýja stað lítinn áhuga,
því að ókleift var að stunda hefðbundinn landbúnað í þessu
loftslagi.
Darwin
varð stöðnun að bráð og svo virtist sem bærinn yrði aldrei annað
en símskeytastöð, þegar lagningu símalínunnar lauk 1872.
Þá fannst gull, sem breytti öllum aðstæðum líkt og í
fylkjunum sunnar í álfunni 20 árum áður. Perluiðnaðurinn óx og dafnaði eftir 1884 og gerði
borgina að efnahagslegri miðstöð í norðurhlutanum.
Árið 1911 var þetta svæði innlimað í fylkjabandalagið en
Darwin hélt áfram að vera útkjálkastaður fram á sjötta áratuginn. Aukin námuvinnsla í héraðinu umhverfis borgina, hernaðarlega
mikilvæg lega hennar og ferðaþjónustan ollu vexti borgarinnar eftir
síðari heimsstyrjöldina. Óútkljáðar
deilur við frumbyggjana í fylkinu ráða miklu um framtíðarþróun
þess. |