Adelaide
er höfuðborg fylkisins Suður-Ástralíu og hin fjórða stærsta í
landinu. Hún er á suðausturhluta
meginlandsins, nærri miðjum austurhluta St. Vincentflóa, vestan
fjallsins Lofty Ranges á strandláglendinu.
Allt umhverfis borgina eru friðlýst svæði.
Fyrsta lögfesta skipulag hennar kom úr höndum fyrsta húsameistara
fylkisins, William Light ofursta, skömmu eftir að nýlendan var stofnuð
1836. Borgin var nefnd í höfuð
Adelaide drottningar, konu Williams 4. Englandskonungs.
Skipulagið byggðist á tveimur ferhyrningum, sem Torrensáin
rennur á milli. Áin var
stífluð, þannig að þar myndaðist stöðuvatn, sem gerði og gerir
borgina meira aðlaðandi. Suðurhlutinn
varð að miðstöð viðskipta en í norðurhlutanum er að mestu íbúðabyggð.
Aðalgatan, William konungsgata, liggur frá suðri til norðurs
og Viktoríutorg rýfur hana á leiðinni.
Margar fagrar byggingar prýða borgina, s.s. enska
biskupakirkjan St. Peters, rómversk-katólska kirkjan St. Francis
Xavier og stríðsminnismerki fylkisins helgað Suður-Áströlum, sem létu
lífið í fyrri heimsstyrjöldinni.
Þinghús fylkisins eru byggð úr graníti og marmara.
Hvort tveggja var sótt í námur innan fylkisins.
Háskólinn í Adelaide, sem var stofnaður 1874, og Ástralska
safnið eru áhugaverð skoðunar.
Listmenntaskóli Adelaide var stofnaður 1979.
Alþjóðleg listahátíð borgarinnar var haldin í fyrsta
skipti árið 1960. Hún
var hin fyrst sinnar tegundar í Ástralíu. Hátíðamiðstöðin, byggð 1980, er fjölnota vettvangur
fyrir leiklist. Frjósamar
sléttur umhverfis borgina og jarðefni í hæðunum í kring ollu hraðri
uppbyggingu. Verksmiðjur
borgarinn framleiða bifreiðahluta, vélar, vefnaðarvörur og efnavörur. Borgin er miðstöð samgangna, járnbrauta, skipa,
loftflutninga og vega. Höfnin
er í Port Adelaide 11 km norðvestan borgarinnar.
Loftslagið er þægilegt, vetur stuttir, rakir og svalir en
sumrin löng, þurr og heit. Hitinn
fer sjaldan niður fyrir frostmark.
Meðalúrkoma er 53 sm. Árið
1987 var íbúafjöldinn rúmlega ein milljón. |