Sri Lanka Mið-Norðurland,
Flag of Sri Lanka


SRI LANKA
MIÐ-NORÐURLAND

Map of Sri Lanka
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Anuradhapura er inni í landi, 210 km norðaustan Colombo.  Borgin var fyrsta höfuðborg Ceylon.  Þar bjuggu singalesku konungarinir frá 380 f.Kr. til 993 e.Kr., þegar þeir létu síga undan þrýstingi tamíla, sem komu í bylgjum frá Indlandi, og fluttu sig til Polonnaurwa.

*Forngripasafn borgarinnar gefur góða mynd af höggmyndalist Norður-Ceylon og á frábæra bronzgripi frá Polonnaruwa.

Aðalhelgidómur Anuradhapura er Maha Vihare, þar sem 'Bo-tréð' er.  Það er talið hafa sprottið af grein hins heilaga 'Bodhi-trés', þar sem Buddha fékk vitrun sína.

Undir rústum konungaborgarinnar eru fjórar athyglisverðar Dagobur, geysistórir salir, þar sem helgidómar Buddha voru varðveittir.  Hinn stærsti, *Ruwanveliseya Dagoba (2. öld f.Kr.), er 110 m hár og 315 m að ummáli.  Í u.þ.b. 400 m fjarlægð eru rústir Brazenhallarinnar (heiðurshallarinnar), sem var níu hæðir.  Þar standa nú eftir 1600 steinsúlur í 40 röðum.  Hver súla er gerð úr 40 steinum.

U.þ.b. 30 km vestan Anuradhapura er Wilpattu-þjóðgarðurinn með hlébörðum, hjartardýrum, fílum, krókódílum og vatnabufflum.

Fjörutíu og fimm km sunnan Anuradhapura er bærinn Galgamuwa.  Tólf km austan hans er *Nillakgama, fornleifasvæðið, þar sem Buddhaklaustur frá 8. - 10. öld var grafið upp (fínlegar lágmyndir).

Aðeins sunnar, við Maho, rís hinn ókleifi klettur Yapahuwa.  Uppi á honum er *konungshöll með þremur múrum, sem reist var á honum á 12. öld.  Þarna er líka *hellamusteri með málverkum af lífi Buddha (18. öld).  Aðallistaverk musterisins eru stórkostlegar tröppur, skreyttar höggmyndum.

Við Sigiriya, tæplega 100 km suðaustan Anuradhapura (170 km na Colombo), í grennd við veginn til Trincomalee, gnæfir 183 m hár klettur, sem Kassapa konungur lét breyta í virki nálægt 500 f.Kr. eftir að faðir hans hafði verið myrtur.  Þar er frægur listasalur með gömlum singaleskum málverkum.  **Veggmyndirnar eru undir kletti, sem slútir fram yfir sig.  Skjólið hefur stuðlað að varðveizlu þeirra um aldir.

Skammt suðvestar, við Dambulla, eru fimm *hellamusteri prýdd höggmyndum og málverkum í 180 m háum kletti.  Farið er eftir einstigi og tröppur, sem hoggnar eru í steininn.

Í tæplega 30 km loftlínu fjarlægð frá Sigiriya til vesturs, handan Kala-uppistöðulónsins, við Aukana í miðjum frumskóginum, stendur 14 m hátt *Buddhalíkneski, sem er líklega frá 5. öld f.Kr.

Polonnaruwa (110 km suðaustan Anuradhapura; 225 km norðvestan Colombo) var dvalarstaður singalesku konunganna frá 8. öld.  Þeirra á meðal var Pakramabahu (1153-1186), sem stjórnaði á mesta blómaskeiði Ceylon.  *Lankatilaka stór múrsteinsbygging, sem hýsir stærsta höggmyndasafn Ceylon (12. öld; m.a. 13 m hátt Buddhalíkneski úr múrsteini).  Húsið er 51 m langt, 21 m breitt og 16 m hátt.

**Hallarsvæðið í miðborginni (líka nefnd Citadelle; 10 ha) er skoðunarvert, einkum ráðshöllin og hið konunglega bað.  Sé farið inn um norður-hliðið, er fyrst komið í Ferhyrninginn (Quadrangle), lokaðan hofgarð.  Þar er *Thuparama (11. öld), voldug múrsteinsbygging með fjölbreytilegri forhlið og lágmyndum allan hringinn á sökkli.  *Watadage er hringlaga hof með stúpu (helgidómahúsi).  Það er svipmesta bygging af þessu tagi á Sri Lanka.  *Atadage (hús helgu dómanna átta (11. öld) og *Nissankamalla Mandapa (bænahús hinna tíu helgu dóma) eru líka athyglisverðar byggingar í Ferhyrningnum.

**Gal Vihara-helgidómurinn (líka nefndur 'Kalugal' = Svartiklettur) hýsir fjögur stórkostleg líkneski, sem eru höggvin úr klettinum.  Hið stærsta þeirra er 14,10 m langur liggjandi Buddha.

*Tivanka Pilimaga er nyrzt bygginga gömlu Polonnaruwa.  Það er högg-myndahús Jetavana-klaustursins.  Þessi múrsteinsbygging er aðeins stærri en Lankatilaka og meira prýdd lágmyndum.  Ekki hefur tekizt að varðveita nema hluta hinna frægu veggmynda.

*Forngripasafnið hýsir minjar úr borginni og nágrenni hennar.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM