Landið
hét áður Ceylon en hið 2000 ára gamla nafn Sri Lanka var tekið upp
árið 1972. Það er hluti af singaleska nafninu: Sri Lanka Prajatantrika Samajawadi Janarajaya, sem þýðir
Hið konunglega skínandi land. Þetta
eyríki í Indlandshafi hefur oft skipt um nafn, en alltaf hafa nöfnin
lýst fegurð landsins.
Sri Lanka er milli 05°55' og 09°50'N og 79°43' og 81°53'A.
Það er svipað að stærð og Bæjaraland í Þýzkalandi
(65.610 km²) og er líkt dropa í lögun. Palk-sundið milli Indlands
og Sri Lanka er 54 km breitt. Mannarflói
er líka á milli landanna. Milli
nyrzta odda Sri Lanka, Point Pedro, og Mannarflóa er
landgrunn (mesta dýpi 15 m) milli meginlandsins og eyjarinnar, sem
styður kenningar um landbrú á fyrri jarðsögulegum
tímum. Á
forsögulegum tíma hækkaði sjávarborð og færði hana í kaf.
Adamsbrúin er kóralrif á landgrunninu, sem skilur að Palksund
og Manna-flóa. Á þessu
rifi eru eyjarnar Pamban og Mannar, sem tilheyra Sri Lanka.
Skemmsta vegalengd frá Mannareyju til Indlands er 29 km.
Hinn 26. desember 2004 skall gífurleg hamfaraalda
(tsunami) af völdum jarskjálfta á sjávarbotni fyrir norðvesturströnd
Súmötru á suðurhluta Sri Lanka. Hún olli dauða þúsunda á sjó og á
landi og hreif með sér heilu þorpin. Alþjóðlegt hjálparstarf hófst
tafarlaust. |