Phnom
Penh er höfuðborg Kambódíu við ármót Mekong og Tonle Sap í suðurhluta
landsins. Borgin skemmdist mikið og gífulegur fjöldi borgarbúa féll
í valinn í borgarastyrjöldinni um miðjan áttunda áratug 20. aldar
en endurreisn hennar hófst á níunda áratugnum.
Hún hefur löngum verið viðskiptamiðstöð íbúa
Mekongdalsins og samgöngur hennar byggjast á járnbrautum, þjóðvegum,
flugi og flutningi á Mekong. Hún
er mikilvæg hafnarborg með aðgangi að Suður-Kínahafi um Mekongósana
í Víetnam. Helztu framleiðsluvörur
borgarinnar hafa löngum verið vefnaðarvara, matvæli og drykkjarvörur.
Phnom
Penh hefur yfirbragð fagurrar asískrar borgar með varanlegum, frönskum
nýlenduáhrifum. Hún státar
af mörgum menningar- og menntastofnunum, sem var flestum lokað 1975,
þegar rauðu khmerarnir hernámu hana. Safn Búddastofnunarinnar sýndi minjar um menningu khmera og
Þjóðminjasafnið hýsti safn fornminja frá 6. öld. Meðal æðri menntastofnana voru háskólinn (1960), Búddaháskólinn
(1954), Listaháskólinn (1965) og Landbúnaðarháskólinn (1965).
Helztu kennileiti borgainnar eru m.a. hallir fyrrum konunga og búddahof.
Khmerarnir
voru líklega fyrstu landnámsmenn á núverandi borgarstæði síðla
á 14. öld og áruð 1434 stóð þar Angkor Thom, höfuðborg þeirra.
Phnom Penh var yfirgefin og hernumin nokkrum sinnum áður en hún
varð höfuðborg landsins árið 1867.
Um miðjan áttunda áratug 20. aldar olli skálmöld í landinu
glundroða í borginni. Um
skeið voru næstum allir íbúar hennar (1 miljón) neyddir til að
yfirgefa hana og flytjast í sveitir landsins til að vinna við landbúnaðinn.
Á níunda áratugnum fór fólkið að snúa heim og sumar
menningar- og menntastofnanirnar voru opnaðar aftur.
Áætlaður íbúafjöldi 1994 var í kringum 920 þúsund. |