Andorra meira,

.
ANDORRA
MEIRA
.

.

Utanríkisrnt.


Saga Andorra er fremur slitrótt og fátækleg vegna skorts á heimildum.  Litlum sögum fer af þessu dvergríki og glugga þarf í margar heimildir til að ná einhvers konar söguþræði.

Dalir Andorra hafa verið byggðir í þúsundir ára samkvæmt forngripum, leirmunum, skartgripum o.fl., sem fornleifafræðingar hafa fundið í jörðu.  Sumir þessara muna eru milli 5 og 8 þúsund ára (steinöld).  Margt hefur líka uppgötvast frá bronzöld (4000 ára) í grennd við þorpin Cedre og La Serra d’Enclar.  Sagnfræðingar velta því fyrir sér, hvort frumbyggjar dalanna hafi verið forfeður baskanna á Norður-Spáni og nafnið Andorra sé runnið frá tungu þeirra.  Meðal íbúa dalanna áður en Rómverjar komu til sögunnar voru keltar, íberar úr suðri og andosinar, sem Polybíus getur um í frásögnum sínum af púnverjastríðunum.  Hver veit nema einhver núverandi íbúa landsins gæti með einhverjum rétti komið fyrir skilti á húsi sínu með textanum:  „Hannibal svaf hér”.

Andorra var líklega hluti Rómarveldis, þegar það lifði sitt mesta blómaskeið, þótt þess sé hvergi getið í heimildum.  Þegar Rómarveldi hrundi, varð Andorra að hliði til suðurs fyrir villimennina í norðri, sem óðu yfir Rómversku-Gallíu til Íberíu.  Margir þessara þjóðflokka skildu eftir merki um ferðir sínar um landið, s.s. alanar, vísigotar og vandalar.

Um það leyti sem márar birtust í Andorra alla leið frá Norður-Afríku voru íbúar Andorra að mestu kristnir, þótt nokkrir hópar heiðingja héldi sig á fáförnum slóðum í landinu.  Skiptingar landsins í sex hreppa er fyrst getið í vígsluskjölum dómkirkjunnar Seu d’Urgell árið 839.  Íbúarnir sýndi márum fullan fjandskap og fögnuðu Karli mikla, keisara, þegar hann leysti þá frá yfirráðum þeirra.  Sagt er, að Karl mikli hafi dvalizt í þorpinu El Puy d’Olivesa meðan á herförinni stóð.

Mikilvægasta, ritaða heimildin í Andorra er „Carta de Fundacio d’Andorra”, sem Karl ritaði og gaf syni sínum, Louis hinum fróma, til að tryggja sjálfstæði landsins.  Ríkisstjórn landsins gætir þessa plaggs eins og sjáaldur auga síns og sýna það sjaldan.  Margir álíta, að Andorrabúar hafi falsað það sjálfir til að skjóta stoðum undir sjálfstæði sitt gegn sífelldri ásókn Frakka og Spánverja.

Eftir lát Karls mikla, skiptis karólínska ríkið og Andorra varð yfirráðasvæði Urgellgreifanna, sem voru af einhverri valdamestu ætt Spánar.  Árið 1133 lét greifinn landið af hendi til biskupsins í Urgell, sem lenti síðan í deilum við Foixgreifann um yfirráðin árið 1159.  Biskupinn og greifinn féllust loks á málamiðlun, þar sem fallizt var á yfirráð biskups og ákveðin réttindi greifans.  Þessi niðurstaða kom ekki í veg fyrir blóðug átök milli þessara aðila til ársins 1278, þegar konungurinn af Aragon þvingaði fram sættir milli d’Urtx biskups og Roger Bernards greifa af Foix.

Þessi samningur og annar, sem var undirritaður mörgum arum síðar, tryggðu að Andorra yrði sjálfstætt ríki en yrði að greiða árlegan skatt (guestia).  Annað hvert ár fengu Foixgreifar skattinn og biskuparnir hitt árið.  Þessi samningur var kallaður Pareage og er enn þá hluti stjórnarskrár landsins og sjálfstæðis þess.  Þjóðhöfðingjar Andorra eru tveir og eru kallaðir prinsar.  Þess vegna heitir landið á erlendum tungum:  „The Principality of Andorra”

Þjóðþingið:  Árið 1419 sendu íbúar landsins bænaskjal til biskupsins og greifans, þar sem þeir fóru þess á leit að fá að stofna sitt eigið þing, sem annaðis innanlandsmál.  Þetta leyfi fékkst og þingið var stofnað.  Húsbændur heimilanna í landinu kusu þingmennina samkvæmt lögum en það þýddi að allir karlmenn eldri en 25 ára höfðu kosningarétt.  Þingmenn voru tveir frá hverjum hinna sex hreppa, þannig að heildarfjöldi þeirra var 24.

Stjórnarbyltingin í Frakklandi:  Völd frönsku Foixgreifanna skiptu um hendur og Henry VI, konungur Frakklands varð annar prinsa Andorra.  Hann fól syni sínum, Louis XIII, þessi völd og hann staðfesti rétt Andorra.  Eftir Frönsku stjórnarbyltinguna 1789 skiptu Frakkar sér ekki af Andorra  í tæpa tvo áratugi.  Andorrabúum fell það ekki illa í sjálfu sér, en þeir óttuðust að spænski prinsinn (biskupinn) sæi sér leik á borði og rifti sjálfstæðissamningnum einhliða til að ná fullum yfirráðum.

Þegar Napóleon varð keisari Frakka, gaf hann út tilskipun, sem endurnýjaði stöðu franska prinsins í Andorra og staðfesti sjálfstæðisrétt landsins.  Árið 1870, þegar Frakkland varð lýðveldi, féllu skyldur prinsins forseta landsins í skaut.

Boris I, Andorrakonungur.  Árið 1933 hvöttu margir háttsettir Andorrabúar Rússann Boris de Skossyreff til þess að taka sér konungsvöld í ríkinu undir nafninu Boris I.  Nokkrum dögum síðar komu nokkrir lífverðir spænska biskupsins og tóku Boris höndum.  Ólgan í kjölfarið varð til þess, að hæstiréttur landsins (Tribunal de Corts) rak alla þingmenn landsins.  Frakkar sendu nokkra flokka lögreglumanna til að halda uppi lögum og reglu á meðan þessi tími upplausnar gekk yfir.  Öllum karlmönnum eldri en 24 ára var leyft að kjósa nýja stjórn og allir eldri en 30 ára máttu gefa kost á sér til þingmennsku.  Árið 1970 fengu konur kosningarétt og rétt til þingsetu og árið 1971 var kosningaaldur lækkaður í 21 ár.

Árið 1978 var hreppum landsins fjölgað í sjö.  Nýi hreppurinn hlaut nafnið Escaldes-Engordany.  Árið 1981 var tekin upp nýskipan í ríkisstjórn landsins með því að bæta við handhöfum framkvæmdavalds.  Þar er í forsvari forsætisráðherra, sem stjórn landsins kýs, og fjórir til sex þingmenn, sem gegna hlutverki ráðherra mismunandi málaflokka (mennta, varnarmála, fjármála, utanríkismála o.þ.h.).  Andorra fékk eigin stjórnarskrá árið 1993 og hefur verið algerlega sjálfstætt ríki síðan.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM