Fornöld.
Uppruni Albana er ekki fullkunnur. Sögulegar heimildir, málfræði, fornleifa- og mannfræðilegar
athuganir benda til, að Albanar séu beinir afkomendur hinna fornu illýra,
sem voru líklega frumbyggjar sömu svæða og Albanar byggja nú.
Einnig má ætla, að tunga Albana sé kominn af illýrsku og
helztu breytingar hennar hafi orðið á 4. – 6. öld e.Kr.
Sumir fræðimenn eru þeirrar skoðunar, að illýrar hafi ekki
verið frumbyggjar og tungan sé afsprengi þrakísku.
Menning
illýra er talin hafa þróast frá steinöld og skotið rótum á því
svæði, sem heitir nú Albanía í upphafi bronzaldar, u.þ.b. 2000
f.Kr. Illýrar voru ekki
ein þjóð, heldur samsuða margra ættkvísla, sem bjuggu á
vesturhluta núverandi Balkansvæðis, allt frá núverandi Slóveníu
til og með Epírus, sem nær hálfa leið niður eftir núverandi
Grikklandi. Illýrar, sem
bjuggu á hálendissvæðum núverandi Albaníu voru einangraðri en láglendisillýrar
og menning þeirra þróaðist hægar, eins og gerðist á sögulegum tímum
í Albaníu.
Fræðirit
um fornöldina lýsa illýrum sem félagslyndu og gestrisnu fólki, sem
sýndi þor og hugdirfsku í bardögum.
Konur þeirra voru næstum jafnréttháar og karlmenn og urðu
jafnvel leiðtogar bandalaga ættkvíslanna.
Illýrar voru heiðnir og trúðu á líf eftir dauðann.
Þeir grófu látna á þann veg, að þeir voru undirbúnir
fyrir framhaldslífið með vopnum og ýmsum nauðsynjum, sem voru
grafnar með þeim.
Illýría
var auðug af járni, kopar, gulli og silfri og illýrar urðu
hagleiksmenn í vinnslu þessara málma.
Þeir voru snilldarskipasmiðir og sjómenn.
Hraðskreiðar galeiður þeirra, liburnae, urðu fyrirmynd rómversku
galeiðnanna, liburnina, sem notaðar voru sem herskip.
Á
8. – 6. öld f.Kr. stofnuðu Grikkir margar nýlendur á illýrsku
landi. Hinar helztu voru
Epidamnus (nú Durrës) og Apollóníu (í grennd við núverandi Vlorë).
Þannig komust illýrar í nánari snertingu við þróaðri
menningu, sem hafði áhrif á þeirra eigin, og efnahags- og stjórnmál
í nýlendunum. Á 3. öld
f.Kr. hnignaði nýlenduveldið, þar til það leið undir lok.
Nokkuð samtímis stofnun nýlendnanna fóru illýrskar ættkvíslir
að þróast á stjórnmálasviðinu og höfðu samvinnu í hermálum,
sem leiddi til stofnunar bandalaga og síðar konungsríkja.
Hin markverðustu þeirra á 5. – 2. öld f.Kr. voru Enkalayes,
Taulantes, Epirotes og Ardianes.
Eftir
stöðugar styrjaldir við Philip II af Makedóníu og Alexander mikla
mestalla 4. öld f.Kr., stóðu illýrar frammi fyrir miklu meiri ógn
af vaxandi veldi Rómverja. Rómverjar
eygðu möguleika til frekari landvinninga með því að leggja illýrskt
landsvæði undir sig, sem þeir réðust í árið 229 f.Kr.
Leiðtogi illýra í baráttunni gegn Rómverjum var Teuta
drottning og Rómverjum tókst ekki að ljúka verkinu fyrr en árið
168 f.Kr. Rómverjar réðu
Illýríu, Illyricum á latínu, í u.þ.b. 6 aldir og þjóðin tók
miklum breytingum, einkum útávið í veraldlegum málum.
Listir og menning blómstruðu, aðallega í Apollóníu, þar
sem var frægur heimspekiskóli í fornöld.
Illýrar reyndu samt af fremsta megni að samlagast rómverskri
menningu. Illýrísk
menning og tunga héldu velli, þótt nokkur latnesk orð slæddust inn
í málið.
Kristni
festi rætur í Illýríu á rómerskum tímum um miðja 1. öld e.Kr.
Hún varð að keppa við ýmis austurlenzk trúarbrögð, m.a.
mitra, persneskan guð ljóss, sem haslaði sér völl á tímum
Alexanders mikla og síðar, og heiðna, illýríska guði. Stöðugur vöxtur kristinna í Dyrrhachium (Epidanmus)
leiddi til stofnunar biskupsdæmis árið 58 e.Kr.
Síðar var settir biskupar í Apollóníu, Buthrotum (Butrint)
og Scodra (Shkodër). Þegar
fór að halla undan fæti fyrir Rómarveldi, höfðu hinir bardagavönu
illýrar komizt til áhrifa í rómverska hernum.
Sumir þeirra komust jafnvel svo langt að verða keisarar.
Frá miðri 3. öld til miðrar 4. aldar voru stjórntaumar Rómarveldis
næstum óslitið í höndum keisara af illýrískum uppruna. Gaius
Decius, Claudius, Gothicus, Aurelíus, Probus, Diocletians og Konstantíns
mikla.
Býzantíum.
Þegar Rómarveldi skiptist í austur- og vesturhluta árið 395,
varð Illýría hluti af býzanzka veldinu.
Þar komust margir illýrar til metorða líkt og þeir gerðu í
Rómarveldi. Þrír
keisaranna, sem mótuðu fyrri hluta sögu Býzantíums (491-565) voru
af illýrísku berg brotnir, Anastasíus I, Justin I og frægast keisari
þess, Justinian I. Fyrstu
áratugina (til 461) urðu illýrar fyrir verulegum áföllum vegna árása
vísigota, húna og austurgota. Skömmu
eftir þessi ósköp birtust slavar.
Þeir settust að á illýrísku landi á 7. og 8. öld og samlöguðust
illýrískum ættkvíslum á svæðunum, þar sem nú eru Slóvenía, Króatía,
Bosnía, Herzegónía og Serbía. Illýrar
í Suður-Illýríu (þ.m.t. núverandi Albaníu) börðust gegn þessari
þróun og tókst að varðveita tungu sína og menningu.
Í
aldanna rás undir yfirráðum Rómverja og
Byzantíum og blöndun við slava, urðu suðurillýrar að Albönum,
e.t.v. vegna þess, að erlendra áhrifa gætti þar minnst og þeir áttu
sameiginlega menningu og tungumál.
Nafnið Illýría hvarf smám saman á 9. – 11. öld og nafnið
Albanía kom fyrst fram hjá landfræðingnum Ptolemy í Alexandríu, þegar
hann talaði um Albanoi-ættkvíslina í Suður-Albaníu.
Fræðimenn hafa ekki fundið rót nafnsins Shqipëria, sem
Albanar byrjuðu að nota um land sitt á 16. og 17. öld.
Líklega er það dregið af shqipe, sem þýðir örn og því búa
þeir í landi arnarins.
Löngu
áður en þetta gerðist var kristnin orðin ráðandi í Albaníu og
rutt heiðinni fjölgyðistrú og heimspekihugmyndum rómverskra og býzantískra
tíma úr vegi. Albanar
voru rómversk- katólskir til ársins 732, þrátt fyrir að vera á áhrifasvæði
Byzantíum og þetta var þyrnir í augum keisara Austurveldisins.
Kornið fyllti mælinn á dögum Leo III keisara í Byzans, þegar
albönsku erkibiskuparnir studdu stefnu páfa í helgimyndadeilunni.
Hann innlimaði albönsku kirkjuna og setti patríarkann í
Konstantínópel yfir hana. Þegar
katólska kirkjan klofnaði endanlega í austur- og vesturkirkjurnar
1054, héldu Suður-Albanar tengslum sínum við Konstantínópel en Norður-Albanar
voru snéru sér til Rómar. Þessi
þróun olli fyrsta trúarbragðaklofningi landsmanna.
Þróun
þéttbýlis stóð í blóma á síðari hluta miðalda.
Viðskipti gengu vel og albanskir kaupmenn höfðu útibú í
Feneyjum, Ragusa (Dubrovnik í Króatíu) og Þessalóníku
(Grikklandi). Góðærið í borgunum efldi líka menntun og listir.
Albanska var ekki notuð í skólum, kirkjum og stjórnsýslu, þar
sem gríska og latína nutu opinberrar hylli sem menningar- og bókmenntamál.
Landinu
var skipt í hernaðarlegar einingar (theme).
Þessi skipting ýtti undir lénskerfi, því hermenn urðu
jafnframt smábændur herstjóranna, sem réðu stórum landareignum. Valdamestu fjölskyldur landsins voru Thopias, Balshas,
Shpatas, Muzakas, Aranitis, Dukagjinis og Kastriotis.
Hinar þrjár fyrstnefndu réðu yfir héruðum, sem urðu að
mestu óháð keisaradæminu.
Hnignun
Byzantíums. Þegar dró smám
saman úr mætti keisaradæmisins náðu önnur ríki, s.s. Búlgarar,
Normanar (í krossferðunum), Angevinar (frá S.-Ítalíu), serbar og
Feneyingar, undirtökunum í Albaníu.
Síðasta hernám landsins 1347, sem serbaleiðtoginn Stefan
Dusan stóð fyrir, leiddi til mikils flótta Albana úr landi, einkum
til Grikklands og Eyjahafsins. Um
miðja 14. öld lauk yfirráðum Byzans í Albaníu eftir nærri 1000 ára
innlimun.
Nokkrum
áratugum síðar stafaði ný ógn að landinu.
Tyrkir voru lagstir í hernað og færðu út yfirráð sín á
Balkanskaganum. Ottómanar
réðust inn í landið 1388 og lögðu það allt undir sig á rúmum
fjórum áratugum. Skömmu
síðar (1443-) tókst snjöllum herstjóra Albana, Giergi Kastrioti
(1405-68), þekktum undir nafninu Skanderbeg, að sameina albönsku
prinsana og hrekja setulið Tyrkja brott.
Skanderbeg tókst að halda Tyrkjum utan landamæranna næstu 25
árin en þeir lögðu mikla áherzlu á að ná landinu aftur til að
eiga greiðari aðgang að Ítalíu og Vestur-Evrópu.
Þessi ójafni leikur ávann Albönum hylli ráðamanna í Evrópu
og fjármagn og herstuðning frá Napólí, páfanum, Feneyjum og
Ragusa. Að Skanderbeg látnum
dró úr mætti Albana og Tyrkir náðu landinu aftur 1506. Þessi langa sjálfstæðisbarátta var albönsku þjóðinni
mikilvæg, því hún efldi einingu og þjóðarvitund og varð síðar
innblástur í baráttunni fyrir sameiningu, frelsi og sjálfstæði.
Yfirráð
Ottómana.
Tyrkir komu sér
fyrir í Albaníu um svipað leyti og endurreisnin breiddist út um Evrópu
og Albanía varð útundan í þeirri þróun.
Járnhæll Tyrkja lamaði efnahagslífið, viðskipti, listir og
menningu og u.þ.b. fjórðungur íbúanna flúði til Ítalíu,
Sikileyjar og Dalmatíustrandar. Tyrkir réðu landinu í rúmlega 4 aldir en gátu aldrei
tryggt sig fullkomlega í sessi alls staðar.
Fjallabúar neituðu að greiða persónulega skatta, þjóna í
hernum og afvopnast en þeir sendu samt árlegan skatt til Konstantínópel.
Uppreisnir
gegn Ottómönum voru algengar. Þær
byggðust m.a. á því að verja rétt landsmanna til að iðka trú sína,
kristnina. Á 16. öld tóku
Tyrkir þá stefnu að þvinga þjóðina til að gera islam að trú
sinni til að gera hana sér auðsveipari.
Á þessu gekk alla 17. öld og það tókst að snúa tveimur þriðjungum
landsmanna til islam. Aðalástæða
trúskiptanna var ótti Albana við ofbeldi Tyrkja og kúgun kristinna
manna, sem urðu m.a. að greiða óheyrilega skatta, ef þeir neituðu
að ganga af trúnni. Tyrkir
og nágrannar Albaníu nýttu sér sértrúarhópa, sem fór að gæta
á miðöldum, til að ýta undir óeiningu og slæva þjóðarvitund
Albana. Leiðtogar þjóðarhreyfingarinnar
á 19. öld notuðu slagorðin „Trú Albana er albanska” til að
fylkja mismunandi trúarhópum og efla þjóðarvitundina.
Yfirráð
Ottómana byggðust á hernaðarlegu lénskipulagi (timars).
Herstjórum var úthlutað land fyrir þjónustu og hollustu við
keisaradæmið. Þegar fór
að halla undan fæti þess á 18. öld, urðu þessir herstjórar sjálfstæðari.
Bushatifjölskyldan, sem réði mestum hluta Norður-Albaníu á
árunum 1757-1831 og Ali Pasa Tepelenë í Janina (nú Ioánnina í
Grikklandi), sem var skrautlegur harðstjóri í suðurhlutanum og Norður-Grikklandi
1788-1822, varð mest ágengt í sjálfstæðisbröltinu.
Soldáninn varð þreyttur á þessari þróun og steypti þeim
af stóli. Þegar því var
lokið 1831, afnámu Tyrkir lénskipulagið og einkalandeigendur urðu
burðarás efnahags- og félagslífs landsins.
Höfðingjar ættkvíslanna í norðurfjöllunum stjórnuðu með
harðri hendi og oft kom til blóðugra átaka milli þeirra. Bændur,
sem voru áður ánauðugir, unnu á búgörðum sem leiguliðar áfram.
Ottómanar
voru mjög íhaldssamir og héldu áfram að kúga landslýð til síðustu
stundar. Fjöldi Albana,
sem kom sér fyrir annars staðar í keisaradæminu komst til metorða
og valda í hernum og stjórnsýslunni.
Þjóðernishreyfing
Albana.
Um miðja 19. öld
var mikil þjóðernisvakning meðal Balkanþjóðanna, sem voru að
losa sig úr viðjum undirokunar og finna sjálfar sig á ný.
Í þessum tilgangi héldu Albanar ráðstefnu í prizren
(Kosovo) til að marka endurreisnarstefnuna og stofnuðu Albaníubandalagið.
Það hafði tvö meginmarkmið:
Að sameina þjóðina og landið, sem var skipt í héruðin
Kosovo, Shkodër, Monastir og Janina.
Þrátt fyrir góða viðleitni, tókst það ekki. Hitt markmiðið var að efla tunguna, bókmenntir, menntun
og menningu. Þar tókst
betur til og leiðtogar Albaníu hittust í Monastirborg (nú Bitola í
Makedóníu) og samþykktu að taka upp latneskt stafróf í stað hinna
arabísku og grísku, sem voru notuð fram að því.
Tyrkir
börðu Albaníubandalagið niður árið 1881, m.a. vegna þess, að þeir
óttuðust þessa kröftugu þjóðernisvitund.
Bandalagið var orðið að öflugri vakningu og hugmyndir þess
og markmið leiddu síðar til sjálfstæðis landsins.
Þegar
hreyfing ungra Tyrkja komst til valda í Istanbul 1908 hirti ekki um
skuldbindingar sínar um lýðræðislegar umbætur í Albaníu og veita
landinu heimastjórn, hófu Albanar vopnaða baráttu fyrir rétti sínum.
Eftir þriggja ára baráttu (1910-12) tókst þeim að þvinga
Tyrki til að ganga að kröfum sínum. Nágrannaþjóðir Albana, sem höfðu þegar gert áætlanir
um skiptingu Balkanskagans, fylltust eldmóði við árangur Albana og sögðu
Tyrkjum stríð á hendur í október 1912.
Hersveitir Grikkja, serba og Svartfellinga réðust inn í albönsk
yfirráðasvæði. Albönum
varð ekki um sel og til að koma í veg fyrir að landið hyrfi af
heimskortinu hittust leiðtogar þess í Vlorë.
Fremstur þeirra var Ismail Qemal, sem hafði gegnt mörgum áhrifastöðum
í stjórn Ottómana. Hinn
28. nóvember 1912 birti ráðstefnan Vlorëyfirlýsinguna, þar sem lýst
var yfir sjálfstæði Albaníu.
Skömmu
eftir að bandamenn á Balkanskaga höfðu brotið Tyrki á bak aftur
hittust sendiherrar stórveldanna (Bretlands, Þýzkalands, Rússa,
Austurríkis-Ungverjalands, Frakka og Ítala) í London í desember 1912
til að jafna ágreining, sem stríðið hafði valdið.
Þar var ákveðið að stofna sjálfstætt ríki í Albaníu
vegna stuðnings Austuríska keisaradæmisins og Ítalíu.
Nágrannaríki Albana beittu miklum þrýstingi, þegar kom að
ákvörðun um landamæri þess og
stórveldin fóru málamiðlunarleiðir, sem tóku ekki tillit
til þjóðernisskiptingar íbúanna. Serbía fékk stóran hluta af Kosovo og Grikkir fengu hluta
af Camëria, sem var fyrrum Epirus við Thíamisána.
Mörgum fanns ólíklegt, að Albanía yrði langlíf með u.þ.b.
helming þjóðarinnar og beztu landbúnaðarsvæðin utan landamæranna.
Lítið grískt þjóðarbrot, u.þ.b. 35.000 manns, lokaðist
inni í Albaníu við ákvörðun landamæranna.
Grikkland taldi alla rétttrúnaðaralbana með í sínum tölum,
sem voru mun hærri, því að þeir voru u.þ.b. 20% íbúa svæðisins.
Þetta svæði ásamt Kosovohlutanum olli síðan erfiðleikum í
samskiptum við Júgóslavíu og Grikkland.
Stórveldin
skipuðu þýzkan prins, Wilhelm zu Wied, þjóðhöfðingja í Albaníu.
Þangað kom hann í marz 1914 en stóð stutt við (6 mánuði),
einkum vegna vanþekkingar sinnar á albönskum málum og ýmsum flækjum,
sem upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar olli. Styrjöldin olli nýrri kreppu í Albaníu, þegar herir
Austurríska keisaradæmisins, Frakka, Ítala, Grikkja, Svartfellinga og
Serba réðust inn í landið og hernámu það.
Það var stjórnarkreppa í landinu og mikil óreiða og örlög
þess hengu á bláþræði. Á
friðarráðstefnunni í París hugðust Bretar, Frakkar og Ítalar
skipta landinu milli nágrannaríkjanna en Woodrow Wilson, Bandaríkjaforseti,
kom í veg fyrir það. Á
þjóðfundi í Lushnje í janúar 1920 var lagður grunnur að nýrri ríkisstjórn
og í desember sama ár gekk landið í Þjóðabandalagið með stuðningi
Breta. Þannig fékkst
fyrsta alþjóðlega viðurkenningin á sjálfstæði landsins.
Í
upphafi þriðja áratugarins virtist þjóðfélagið vera klofið í
tvær ósættanlegar fylkingar. Annars
vegar voru íhaldssamir landeigendur (beys) og bajraktar-ættkvíslir,
sem voru enn þá í viðjum byzantíks lénskipulags undir forystu
Ahmed Bey Zogu, höfðingja frá Mat-svæðinu í norðurhlutanum. Hins
vegar voru frjálslyndir menntamenn, lýðræðissinnaðir stjórnmálamenn
og framfarasinnaðir kaupmenn, sem horfðu til vesturs og vildu gera
Albaníu að nútímalandi, undir forystu Fan S. Noli, biskups rétttrúnaðarkirkjunnar,
sem var menntaður í BNA. Baráttan
milli austurs og vesturs um áhrif í landinu varð báðum leiðtogunum
um megn.
Á
árunum 1920-24 var ástandið í stjórn-, félags- og menningarmálum
óvenjulega frjálslegt og frjálslyndum öflum óx fiskur um hrygg og
á miðju ári 1924 neyddist Zogu til að flýja til Júgóslavíu.
Noli, sem var settur í stól forsætisráðherra í júní 1924,
stefndi strax að uppbyggingu vestræns þjóðfélags og tilkynnti stórfelldar
breytingar í skiptingu landsins milli íbúanna.
Noli var á báðum áttum og hikandi í framkvæmd þessara áætlana
og gekk illa að afla alþjóðlegs stuðnings við þær og vinstri stjórn
sína. Þetta olli dvínandi stuðningi innanlands og hálfu ári síðar
bylti herinn honum undir stjórn Zogus og stuðningi Júgóslava.
Zogu
hóf 14 ára valdaferil sinn sem forseti 1925-28 og síðan sem konungur
1928-1939 í landi gífurlegs stjórnmálalegs og félagslegs óstöðugleika.
Erlend aðstoð og stuðningur var nauðsynlegur til að koma á
jafnvægi í landinu og til að tryggja hann, gerði Zogu nokkra
samninga við Ítala. Þessar
ráðstafanir dugðu skammat og voru ekki varanlegar og ekki bætti
heimskreppan á fjórða áratugnum úr skák.
Ítalar litu á þeim tíma til Albaníu sem stiklu til
landvinninga á Balkanskaga. Hinn
7. apríl 1939 réðust þeir inn í landið og hernámu það.
Zogu konungur flúði til Grikklands.
Valdagrundvöllur
Zogu var samvinna við landeigendur í suðurhlutanum og höfðingjana
í norðri. Stuðningur þessara
afla og ítalskt fé gerði Zogu kleift að koma upp öflugu lögregluliði,
sem stuðlaði að stöðugleika. Armur
lögreglunnar náði um allt land og uppi í fjallahéruðunum, þar sem
margir hópar stigamanna höfðust við, dró mjög úr afbrotum.
Zogu tókst að einhverju leyti að byggja upp nútímamenntakerfi
og gera félagslega kerfið vestrænna.
Mistök hans voru mun fleiri og alvarlegri en árangurinn, þegar
á heildina er litið. Zogu
var í rauninni harðstjóri en ekki konungur þingbundins lýðræðisríkis
eins og til var stofnað. Honum
tókst ekki að leysa grundvallarvandamálin og bændur voru jafnilla
settir og áður. Ríkisstjórnin
flutti mikið inn af kornvöru á hverju ári til að koma í veg fyrir
hungursneyð, en það kom ekki í veg fyrir að fólk flytti úr landi
í leit að betra lífi. Zogu
stóð í vegi fyrir lýðræðisþróun og því voru gerðar nokkrar
uppreisnir gegn honum. Menntamenn
snérust gegn honum, ólga myndaðist á vinnumarkaðnum og fyrstu
merkin um kommúnisma fóru að koma í ljós.
Síðari
heimsstyrjöldin. Ítalar
komu sér fyrir í Albaníu og gerðu innrás þaðan í Grikkland en urðu
að hörfa þaðan skömmu síðar.
Nasistar hernámu Grikkland og Júgóslavíu 1941 og Kosovo og
Camëria voru sameinuð Albaníu, þannig að þá voru allir Albanar
innan sömu landamæra. Þetta
nýja ríki varð ekki langlíft, því að setulið Þjóðverja
yfirgaf landið 1944 í kjölfar falls Ítalíu 1943.
Þá varð Kosovo aftur hluti af Serbíu og Camëria aftur grískt
hérað.
Samtímis
þessum atburðum tóku kommúnistahóparnir, sem þróuðust í landinu
á veldistíma Zogs, höndum saman (1941) og stofnuðu Kommúnistaflokk
Albaníu og hófu vopnaða andspyrnu gegn setuliðinu.
Þeim varð ágegnt gegn fasistunum og tveimur öðrum
andspyrnuhreyfingum, sem hugðust deila völdum með kommúnistum, sem tóku
völdin í sínar hendur undir stjórn Enver Hoxha, menntaskólakennara
og aðalritara flokksins. Landið varð að Alþýðulýðveldinu Albaníu árið 1946
og bjó við alræði kommúnista til 1990.
Nýju
valdhafarnir tóku við öllu í rústum.
Fátæktin var allsráðandi, flestir voru ólæsir, blóðhefndir
tíðkuðust milli höfðingjaættanna, farsóttir geisuðu og konur
voru kúgaðar. Kommúnistar
lögðu á ráðin um róttækar breytingar í félags- og efnahagsmálum
í anda stefnunnar frá 1912. Þeir
byrjuðu á því að skipta landinu milli smábænda og leiguliða í
suðurhlutanum og þarmeð leið fyrrum öflug valdastétt landeigenda
undir lok. Fljótlega var
tekið til við þjóðnýtingu iðnaðar, banka og verzlunar og eigna
erlendis. Skömmu eftir umbæturnar
í landbúnaðnum var hafizt handa við stofnun samyrkjubúa, sem lauk
1967. Þannig misstu bændur aftur eignarhald á jörðum sínum.
Hoxha hóf afskipti af norðurhlutanum, stöðvaði blóðhefndir
og útrýmdi aldalöngum siðvenjum ættkvíslanna, þannig að höfðingjarnir
(bajraktar) misstu völd sín. Hlutverk
kvenna, sem voru bundnar heimilum sínum, breyttist gífurlega, þegar
þær fengu jafnræði að lögum og urðu þátttakendur á öllum sviðum
þjóðfélagsins.
Albanar
snéru sér til annarra kommúnistaríkja til að afla stuðnings og
styrkja við uppbyggingu efnahagslífsins.
Þeir fengu líka aðstoð stjórna þeirra í hermálum til að
tryggja öryggi landsins. Fyrst
snéru þeir sér til Júgóslavíu (1944-48), Sovétríkjanna 1948-61)
og Kína 1961-78). Landið fékk stórfé til uppbyggingar, bæði sem styrki og
lán, og fjöldi sérfræðinga og tæknimanna á ýmsum sviðum kom til
hjálpar. Þannig varð Albönum
kleift að byggja grundvöll að nútímaiðnaði og vélvæða landbúnaðinn. Þessi þróun dró Albana út úr myrkviði fortíðarinnar
í fyrsta skipti í sögunni og jók lífsgæði þeirra um tíma. Hoxha varð fyrir stöðugum vonbrigðum með pólitíska
bandamenn sína og hætti viðskiptum við þá hvern af öðrum.
Honum fannst þeir hafa svikið málstað Marx-Lenínismans og
alræði öreiganna og vera farnir að gefa kapítalistunum Vesturlanda
undir fótinn. Þegar Hoxha
var búinn að Brenna allar brýr að baki sér, ákvað stjórnin að
landið yrði sjálfu sér nógt og það varð að alræmdasta og
einangraðasta ríki stalínista í heiminum.
Hoxha
tókst að draga Albaníu út úr fortíðinni með iðnvæðingu, landbúnaðarumbótum,
aukinni menntun og uppgangi lista og menningar. Meðal helztu afreka hans var þurrkun fenja með ströndum
fram, þar sem malaría geisaði stöðugt, og tungumálið tók
breytingum og framfötum við samræmingu mállýsknanna tosk og geg.
Stjórnmálaleg kúgun dregur úr gildi veraldlegra- og
menningarlegra framfara. Öryggisráð-
og lögregla ríkisins með Hoxha í fararbroddi voru hinir
raunverulegur stjórnendur þvert á stjórnarskrá landsins.
Til að tryggja völd sín og bæla niður mótmæli voru andstæðingar
stjórnarinnar gagnrýndir hástöfum opinberlega, reknir úr störfum,
fangelsaðir og komið fyrir í þrælkunarbúðum eða líflátnir.
Almenningi var bannað að ferðast úr landi.
Árið 1967 bannaði stjórnin starfsemi alla trúariðkun, sem sögð
hindra framfarir og samhygð þjóðarinnar, og kirkjum og moskum var
lokað.
Hrun
kommúnismans. Ramiz Alia tók
við að Hoxha látnum árið 1985.
Hann reyndi að viðhalda kommúnistakerfinu samtímis hægfara
umbótum til að bæta efnahag landsins, sem hafði hnignað mjög eftir
að stuðningi annarra kommúnistaríkja lauk.
Hann lauk upp dyrunum fyrir erlendum fjárfestum og jók stjórnmálasamband
við Vesturlönd. Hrun kommúnismans í Austur-Evrópu árið 1989 færði ýmiss
konar stjórnmálastarfsemi upp á yfirborðið í Albaníu og áróður
gegn stjórnvöldum varð áberandi.
Hópar menntamanna, verkamenn og æska landsins, sem hafði lifað
við vonleysi einangrunar og hafta risu upp á afturfæturna.
Alia lét undan þrýstingnum og leysti um hömlur á ferðalögum
erlendis, dró úr áhrifum öryggislögreglunnar, aflétti banni við
trúariðkun og létti á hömlum í viðskiptum.
Í desember 1990 leyfði hann stofnun stjórnmálaflokka, sem
þýddi raunverulega ekki annað en endalok kommúnismans í landinu.
Alræði
ríkisstjórnarinnar minnkaði í hvert skipti, sem hún varð við kröfum
andstæðinganna. Margar ríkisstjórnir
féllu vegna óstöðugleika efnahags-, félags- og stjórnmála í
landinu og í marz 1992 vann Lýðræðisflokkurinn mikinn sigur í
kosningum. Alia sagði af sér
forsetaembættinu og Sali Berisha tók við.
Hann varð fyrsti lýðræðislega kjörinn forseti landsins
eftir Noli biskup.
Sóknin
í lýðræðisátt gerði Albönum kleift að taka þátt í ráðstefnu
um öryggi og samvinnu í Evrópu (RÖSI) og brjótast þannig úr viðjum
einangrunar. Tilraunir til
að innleiða frjálsan markaðsbúskap ollu mörgum vandamálum en opnuðu
jafnframt mikla möguleika til aðstoðar frá iðnríkjunum.
Albanía var þannig kominn áleiðis á þyrnum stráðri braut
til framfara og samhæfingar og samvinnu við vestræn ríki, sem
Albanar hafa ætíð álitið sögulega arfleifð sína. |