Albanía náttúran,


ALBANÍA
NÁTTÚRAN

.

.

Utanríkisrnt.

Landslag og lega.  Albanía er fjöllótt land, u.þ.b. þrír fjórðungar þess eru fjöll og hæðir, sem eru í meira en 200 m hæð yfir sjó.  Restin er strandláglendi og áreyrar.  Norður-Alpar landsins eru framhald Dinarikfjalla í norðurhlutanum.  Þau gnæfa upp í tæplega 2700 m hæð og eru torfærasti hluti landsins.  Þessi landshluti er þéttvaxinn skógi og strjálbýll.  Þar stunda íbúarnir aðallega skógarhögg og kvikfjárrækt.  Miðfjalllendið er á milli Drinárinnar, miðhluta Devollár og neðri hluta Osumár.  Það er mun þéttbýlla og landslagið er ekki eins hrjúft og norðar.  Austast er hæsta fjall landsins, Korabfjall (2753m), sem er úr gipsi.  Talsvert er af krómi, járnnikkel og kopar í jörðu.  Aðalatvinnuvegir fólksins á þessum slóðum eru skógarhögg, kvikfjárrækt, námugröftur og landbúnaður.

Sunnan Miðhálendisins eru nokkrir fjallgarðar með norðvestur-suðausturstefnu, sem teygjast upp í tæplega 2500 m hæð yfir sjó.  Þetta eru kalkfjöll, skorin breiðum dölum og svotil skóglaus eða vaxin runnum, eik og furu, sem er einkennandi fyrir mörg Miðjarðarhafslönd.  Þetta eru upplögð beitilönd fyrir kvikfénaðinn, sem mikið er ræktað af í þessum landshluta.

Fjrósamar láglendissléttur Vestur-Albaníu ná frá 200 km breiðu svæði við Adríahafið u.þ.b. 50 km inn í land.  Þetta er mikilvægasta landbúnaðar- og iðnaðarsvæði landsins og þ.a.l. þéttbýlast.  Strandlengjan er u.þ.b. 480 km löng og víða eru frábærar baðstrendur í draumalandslagi, sem laða til sín ferðamenn og innfædda.

Vatnsbúskapur.  Lengsta á landsins, Drin, er u.þ.b. 290 km löng og á upptök sín í Kosovohéraði í Serbíu.  Aðrar helztu ár eru Seman, Shkumbin og Vjosë, sem renna allar frá miðri vesturhásléttunni.  Fjöldi stöðuvatna prýðir landslagið.  Hin mikilvægustu eru Scutarivatn (Ligeni i Shkodrës) í norðvesturhlutanum, Ohridvatn og Prespavatn við austurlandamærin.

Loftslagið.  Miðjarðarhafsloftslaginu fylgja þurr og heit sumur og milder og vætusamir vetur.  Staðbundnar sveiflur eru talsverðar milli svæða.  Vesturhluti landsins er undir áhrifum frá Adríahafi og Jónahafi með mildara veðurlagi en aðrir landshlutar.  Þar er meðalhitinn í júlí 24°C og 9°C í janúar.  Í austurhlutanum gætir meginlandsloftslags með mildum sumrum (vegna meiri hæðar yfir sjó) og köldum vetrum.  Í Peshkopi er júlíhitinn 30°C og í janúar fer hann niður í –1°C.  Úrkoman er allmikil og óregluleg.  Meðalársúrkoman er á milli 2500 mm í Norðuralbönsku-Ölpunum og 750 mm meðfram austurlandamærunum.  Á veturna falla u.þ.b. 40% úrkomunnar.  Í suðvesturhlutanum eru þurrkatímabil til vandræða.

Gróður og dýralíf.  Aðeins lítill hluti landsins er gróðurlaus og skógar þekja rúmlega þriðjung þess.  Strandláglendin einkennast af runnagróðri, s.s. lárviði og myrtu.  Sítrusávextir vaxa á suðurströndinni og fíkjur og ólífur, þar sem raki er nægur.  Ofar eru eikarskógar ráðandi.  Ræktaðir ávextir eru m.a. epli, plómur og greipaldin, valhnetur og kastaníuhnetur.  Ofan eikarbeltisins, í tæplega 1000 m hæð, vaxa beyki og fura og þar fyrir ofan eru aðallega beitilönd.

Almennur vopnaburður og ótakmörkuð skotveiði hjuggu stór skörð í villifánu landsins, en síðan hafa verið sett takmarkandi lög og verndarsvæðum komið upp til að vernda sjakala, úlfa og refi auk hinna sjaldgæfari tegunda, bjarna, svína og gemsa.  Milt strandloftslagið laðar til sín mikinn fjölda farfugla, s.s. svölur, storka, endur, gæsir og pelíkana.  Talsvert er af fiski í hafinu (safdínur) og nokkuð er um silung í ám og vötnum landsins.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM