Albanía íbúarnir,


ALBANÍA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Byggðarþróun.  Vesturhluti landsins er þéttbýlastur og u.þ.b. þriðjungur landsmanna býr í borgum og bæjum.  Fjalllendið er strjálbýlt og sums staðar eru byggðir mjög afskekktar og illaðgengilegar.  Þar byggir fólkið afkomu sína aðallega á kvikfjárrækt og býr í steinhúsum með einu eða tveimur herbergjum í kringum eldstó.  Bæir eins og Elbasan, Korçë og Berat þróuðust sem viðskiptamiðstöðvar bændabýlanna í fjöllunum.

Á tímum Ottomana voru slíkir bæir í strandhéruðunum litlir og iðnaður nánast óþekktur.  Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa þeir stækkað mjög.  Þar voru byggðar stórar íbúðablokkir, sumar með sameiginlegu eldhúsi og salerni fyrir nokkrar íbúðir.  Sums staðar í sveitunum eru skipulagðar byggðir, sem hýsa verkamenn samyrkjubúanna, sumar þeirra í kringum fyrrum óðalsetur.

Íbúarnir. Þéttbýlustu albönskumælandi svæði utan Albaníu eru við landamæri Makedóníu, einkum í Kosovo, þar sem Albanar eru í meirihluta.  Einnig býr fjöldi Albana á Ítalíu, í Grikklandi, Tyrklandi, Búlgaríu og Rúmeníu.  Allt frá sjöunda áratugnum hafa margir Albanar flutzt til Vestur-Evrópu og BNA.  Ekkert annað land í Evrópu er byggt jafnmörgu fólki af sama stofni og Albanía.  Um þessar mundir eru aðeins 2% íbúanna af öðrum uppruna, s.s. Grikkir, aðallega í suðausturhlutanum og slavar, flestir Makedóníumenn.  Albönum hefur fjölgað u.þ.b. fimm sinnum hraðar en fólki í öðrum Evrópulöndum.  Þetta hefur að mestu leyti verði náttúruleg fjölgun, því lítið hefur verið um innflytjendur.  Fæðingartíðnin hefur verið hin hæsta í Evrópu frá síðari heimsstyrjöldinni og dánartíðnin hefur verið með því lægsta, sem gerist annars staðar.  Af þessu leiðir, að albanska þjóðin er hin yngsta í Evrópu, þriðjungur hennar er yngri en 15 ára.

Tungumálið.  Albanskan (shqip) vekur áhuga málamanna vegna þess, að hún er eina eftirlifandi grein illýrísku meðal indóevrópsku tungumálanna.  Vegna erlendra yfirráða og áhrifa annarra tungumála hefur málið kryddast latneskum, grískum, tyrkneskum, ítölskum og slavneskum orðum.  Geg er talað norðan Shkumbinárinnar og tosk sunnan hennar.  Gegmállýzkur eru líka talaðar í Júgóslavíu og Makedóníu og toskmállýzkur á albönskum svæðum í Grikklandi og á Ítalíu.  Þrátt fyrir ýmis tilbrigði innan þessara mállýskna, skilja Albanar hver annan án erfiðleika.

Erlend tungumál voru ráðandi í viðskiptum og í kirkjunni, þannig að Albanar fengu ekki fasta staffræði fyrir tungu sína fyrr en 1908, þegar stafrófið var byggt á hinu latneska.  Næstu áratugina á eftir var reynt að treysta geg í sessi sem ríkismál en eftir síðari heimsstyrjöldina tóku kommúnistar völdu tosk í staðinn.  Allt frá 1952 hefur tosk verið notað við útgáfu allra ritsmíða.

Munurinn milli geg- og toskmállýzknanna var mjög áberandi fyrir síðari heimsstyrjöldina.  Albanar voru fastheldnir á siði og venjur og gegmælandi folk skiptist í ættkvíslar, sem voru undir stjórn höfðingja.  Kommúnistastjórnin gætti þess, að landsmenn yrðu ekki fyrir erlendum áhrifum og hélt þjóðlegri arfleifð á lofti.  Samt sem áður gekk hún á milli bols og höfuðs á siðum gegfólksins, þannig að toskmállýzkan varð að ríkismáli og ættkvíslaskiptingin leið undir lok.  Þessarar skiptingar gætir þó enn þá í Júgóslavíu og Makedóníu.

Suðurhluti landsins, þar sem toskfólkið býr, var og er opnari fyrir erlendum áhrifum.  Þjóðskipulag þess var í ætt við lénskipulag fyrir síðari heimsstyrjöldina.  Bændur stunduðu sjálfsþurfrarbúskap en fámennur hópur landeigenda stjórnaði tveimur þriðjungum landsins.  Þarna fékk kommúnistaflokkurinn mesta stuðning í upphafi baráttu sinnar eftir stríð.

Trúarbrögð.  Albanía er eina islamska Evrópulandið, enda réðu Ottomanar þar ríkjum í tæplega fimm aldir.  Í lok síðari heimsstyrjaldarinnar voru u.þ.b. 70% íbúanna múslimar, 20% rétttrúaðir og 10% rómversk-katólskir.  Hinir síðastnefndu voru aðallega í norðurhlutanum, einkum í borginni Shkodër, rétttrúaðir aðallega í Gjirokastër-, Korçë-, Berat- og Vlorëhéruðunum.  Múslimar voru dreifðir um allt land, en þó einkum í miðhlutanum.  Flestir þeirra voru sunnítar en u.þ.b. fjórðungur tilheyrði flokki Bektashi-múslima, sem áttu sér miðstöð í Tiranë.

Þessi skipting milli trúarbragða hefur ekki leitt til árekstra vegna þess, að Albanar hafa ætíð sýnt mikið umburðarlyndi í trúmálum.  Kommúnistastjórnin, sem ríkti í 45 ár, ofsótti alla trúaða með miklum ofstopa og lýsti Albaníu trúarlaust land árið 1967.  Þá var öllum kirkjum og moskum lokað, eignir þeirra gerðar upptækar og fólki bannað að iðka trú sína.  Þegar þessu banni var aflétt árið 1990 og trúfrelsi tryggt, voru kirkjur og moskur opnaðar á ný um allt land.  Albanar hafa orðið að leita aðstoðar og styrkja til að endurbyggja guðshús sín og mennta klerkastéttina.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM