Albanía efnahagslífið,


ALBANÍA
EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Á kommúnistaárunum var efnahag landsins stýrt í samræmi við „fimm ára áætlanir” eins og víðast annars staðar í kommúnistaríkjum.  Öll framleiðslutæki voru ríkiseign, landbúnaðurinn byggðist allur á samyrkjubúum, iðnaðurinn var þjóðnýttur og allur einkarekstur stranglega bannaður.  Ákvæði í stjórnarskrá landsins bannaði ríkisstjórninni að leita aðstoðar erlendis og taka erlend lán og öll erlend fjárfesting í landinu var bönnuð.  Þetta kerfi brást og ríkisstjórnin varð að leysa efnahaginn undan miðstýringunni.  Einkarekstur var leyfður og ríkisstjórnin hefur þegið erlend lán og landið var opnað fyrir erlendri fjárfestingu.  Vonast er til að þessar aðgerðir efli iðnaðinn, matvælaframleiðslu og landbúnaðinn.  Helztu hindranir framþróunar er skortur á nauðsynlegustu matvælum, lamað stjórnkerfi, hráefnaskortur, ómenntað vinnuafl og stjórnendur, lág framleiðni og agaleysi.  Þetta gerir það að verkum, að Albanía er enn þá fátækasta land Evrópu.

Auðlindir.  Þetta litla land býr yfir talsverðum auðlindum.  Talsvert er af olíu og gasi í suðvesturhlutanum og málmgrýti í norðausturhlutanum, s.s. krómi, kopar og járnnikkel.  Miklar birgðir eru af brúnkolum í grennd við Tiranë og bik er unnið við Selenicë.  Fjöldi straumvatna gerir rafvæðingu mögulega og þau hafa verið nýtt til útflutnings raforku.  Nokkur stór orkuver hafa verið reist við Drinána og rúmlega helmingur ræktaðs lands er búinn áveitum frá uppistöðulónum virkjananna.

Iðnaður.  Kommúnistastjórnin stefndi að öflugri iðnvæðingu til að gera landið eins sjálfbært og kostur var á.  Þessi þróun leiddi til uppbyggingar tiltölulega nútímalegs og fjölþætts iðnaðar, sem stendur undir rúmlega helmingi þjóðartekna og áherzla er lögð á nýtingu auðlinda landsins til útflutnings.  Albanía er þriðji stærsti framleiðandi króms í heiminum.  Rafvæðingu landsins var lokið 1971 og innan tveggja næstu áratuga var farið að flytja raforku til nágrannalandanna.  Albanar fullvinna málmgrýti sitt að mestu og vélar og tæki til annarrar framleiðslu eru framleidd í landinu.  Talsvert er flutt út af olíuvörum og gasi.  Albanar eiga í erfiðleikum með iðnframleiðslu sína, þrátt fyrir allar þessar framfarir, einkum í olíuframleiðslunni og orkugeiranum.  Nýting náttúruauðlinda hefur strandað á aflóga búnaði, skorti á tækniþekkingu, skipulagsleysi og vanmætti til að tileinka sér innflutta tækni.  Áherzla yfirvalda hefur einkum beinzt að eflingu þungaiðnaðar og þau hafa ekki sinnt þörfum innanlandsmarkaðarins fyrir ýmsar neyzluvörur.

Landbúnaður.  Núverandi skipulag í landbúnaði krefst tæplega helmings vinnuafls landsins og u.þ.b. fjórðungur landsins er ræktaður.  Næstum öll matvæli eru framleidd innanlands.  Á miðjum áttunda áratugnum varð landið sjálfu sér nógt um kornvöru.  Aðaláherzlan er lögð á ræktun hveitis, maís, sykurrófna, baðmullar, sólblómafræs, tóbaks, kartaflna og ávaxta og sauðfjár, geitna nautgripa og svína.

Kommúnistastjórnin hefur eytt talsverðum fjámunum til þróunar landbúnaðarins, s.s. landgræðslu, jarðvegsbóta, áveitna og framleiðslu áburðar, sem hefur leitt til aukins mikilvægis þessarar atvinnugreinar.  Helztu agnúar framþróunarinnar er íhaldsemi, lítil vélvæðing og skortur á hvatningu til frumkvæðis.  Þjóðnýting lands, sem var fyrrum í einkaeign, hefur líka leitt til þess, að stjórnin hefur smám saman skipt landinu milli bænda og leyft þeim að stunda eigin ræktun, sem gerir þeim kleift að afla sér tekna á mörkuðunum.   Þessari stefnu stjórnvalda er ætlað að auðvelda innleiðingu nýrrar tækni og vélavæðingar. 

Viðskipti.  Helztu viðskiptalönd Albaníu eru Rúmenía, Ítalía, Tékkland, Slóvakía og Þýzkaland.  Útflutningsvörur eru aðallega benzín, krómgrýti, járngrýti, koparvír, grænmeti, ávextir, tóbak og vín. Aðalinnflutningsvörur eru vélar og tæki, varahlutir, kol, málmar, byggingarefni og matvæli.

Samgöngur.  Fyrsta járnbrautin var lögð í Albaníu árið 1947 og 40 árum síðar var Tiranë tengd við aðalþéttbýlissvæði landsins.  Vegakerfið hefur verið bætt og lengt til afskekktustu afkimanna í fjöllunum.  Flugsamgöngur eru enn þá lítt þróaðar og ekkert áætlunarflug innanlands.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM