Kampala Úganda,
Flag of Uganda


KAMPALA
ÚGANDA
 

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Kampala, höfuðstaður Úganda, er stærsta borg landsins.  Hún stendur á nokkrum hæðum í 1190 m hæð yfir sjó í suðurhlutanum, rétt norðan Viktoríuvatns.  Rétt sunnan hennar er fyrrum höfuðborg konungsríkisins Buganda (19. öld).  Frederick Lugard, höfuðsmaður og síðar lávarður, kaus núverandi borgarstæði Kampala fyrir höfuðstöðvar Brezka Austur-Afríkufélagsins árið 1890.  Virkið, sem hann lét reisa á Kampalahæðum varð stjórnsýslumiðstöð nýlendustjórnarinnar til 1905, þegar hún var flutt til Entebbe.  Árið 1949 fékk Kampala borgarréttindi og árið 1962 varð hún höfuðborg nýfrjáls Úganda.  Við uppbyggingu borgarinnar var kjarna þinghússbygginga og viðskipahverfi haldið aðskildum frá íbúðarhverfum.

Borgin er í frjósamasta og gjöfulasta landbúnaðarhéraði landsins og þaðan er flutt út kaffi, baðmull, te, tóbak og sykur.  Jinja, 64 km austar,  stendur Kampala framar í iðnaði en þar er engu að síður talsvert framleitt af matvælum, málmvöru og húsgögnum.  Þar er einnig verksmiðja, sem setur saman dráttarvélar.  Í borginni eru höfuðstöðvar flestra stærstu fyrirtækja landsins og aðalmarkaðurinn við Viktoríuvatn auk tæknistofnunar og Makerere-háskólinn, sem var stofnaður 1922 (háskólastig 1949; háskóli frá 1972).  Þjóðminjasafnið er einnig í borginni.  Þarna er fjöldi moska, þ.m.t. hvíta Kibulimoskan, hindúamusteri og kristnar kirkjur (Namirembe, dómkirkja biskupakirkjunnar, og katólsku kirkjurnar Rubaga og St Peter).

Kampala er miðstöð samgangna.  Þaðan liggja vegir og járnbrautir í allar áttir (Kasese-Mombasa í Kenja).  Hafnarborg Kampala er Port Bell, 10 km austar við Viktoríuvatn.  Millilandaflugvöllurinn er við Entebbe, 34 km suðvestar.  Áætlaður íbúafjöldi 1991 var 774 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM