Úganda íbúarnir,
Flag of Uganda

Lýðfræði Trúarbrögð Tungumál Þjóðerni

ÚGANDA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Úgandamenn eru að mestu dreifbýlisbúar.  Borgarbúar eru 15-20% þjóðarinnar og fjöldi þeirra eykst ár frá ári.  Nokkur samfélög í norðurhlutanum, s.s. karamoiongfólkið, lifa af kvikfjárrækt (hirðingjar) en flestir aðrir hópar sameina hana smáræktun til eigin þarfa.  Frá miðjum áttunda áratugi 20. aldar til loka hins níunda dró mjög úr nautgriparækt vegna sjúkdóma, gripaþjófnaðar og vannæringar.  Strax var gripið til aðgerða til að fjölga nautgripum á ný.  Í suðurhluta landsins er meira um fasta búsetu og ræktun Geita, kjúklinga, anda, kanína og gæsa.  Sæmilega efnaðir bændur eiga líka 1-2 nautgripi af innlendum stofni en hinir ríku rækta erlenda stofna.  Í mið- og austurhlutunum standa bændabýlin umhverfis ræktarlöndin.

Höfuðborgin Kampala er stærsta borg landsins og næst koma Jinja, Mbale, Masaka, Entebbe og Gulu.  Þær eru allar í suðurhlutanum nema Gulu.  Þéttbýliskjarnar hafa myndast í sunnanverðu landinu vegna flóttans úr sveitunum og vegna tilflutnings fólksins í norðurhluta landsins.  Á nýlendutímanum voru Bretar ekki hvattir til að setjast að vítt og breitt um landið andstætt því, sem gerðist í Kenja og brezkir og asískir innflytjendur bjuggu aðallega í borgunum.  Myndun og vöxtur þéttbýliskjarna innfæddra var mjög hægur.

Síðan 1986 hafa borgir og bæir, einkum í austur-, mið- og vesturhlutum landsins, verið endurskipulagðir og stækkað.  Einnig hefur fjöldi lítilla verzlunarstaða þróast meðfram aðalþjóðvegum og járnbrautum.

Víða í borgum er fjöldi ungs fólks úr sveitunum, einkum karlmanna, sem er í atvinnuleit.  Það stundar margt erfiðisvinnu eða þjónustustörf en flestir eru atvinnulausir eða í lausamennsku.  Miðstétt borgarbúa hefur vaxið fiskur um hrygg og víðast sjást merki um framfarir í borgunum, s.s. bætt húsnæði í útjaðri þeirra.  Eftir miðjan tíunda áratuginn hefur borið meira á götubörnum og fátæklingum í Kampala.  Ýmsar stofnanir hafa reynt að grípa inn í þessa þróun með fræðslustarfi fyrir heimilislausu börnin og aðstoð við fjölskyldurnar, sem hafa flosnað upp.


Þjóðerni Fjöldi þjóðflokka og ættkvísla byggir Úganda en gleggstu skilin eru á milli Nílóta í norðurhlutanum og bantu í suðurhlutanum.  Bantumælandi fólk er í meirihluta í landinu.  Þar ber mest á gandafólkinu, sem er næstum fimmtungur þjóðarinnar.  Aðrir þjóðfélagshópar, sem eru bantumælandi, eru soga, gwere, gisu, byole, samia, toro, nyoro, kiga, Rwanda, nyankole, amba og konjo.

Tungur Nílóta eru helztar:  Acholi, lango, alur, padhola, kumam, teso, karamojong, kakwa og sebei.  Fólkið, sem talar þær, er u.þ.b. 10% þjóðarinnar.  Fólk frá Mið-Úganda býr einnig í norðurhlutanum (lendu, lugbara og madi).  Fjöldi þess er innan við 10% þjóðarinnar.

Á nýlendutíma Breta voru aðalmiðstöðvar efnahagslífsins og menntunar í suðurhluta landsins.  Afleiðingin varð sú, að bantumenn urðu valdastétt, sem ræður flestum embættum og æðri stöðum þjóðfélagsins.  Uppistaðan í her og lögregluliði Breta var norðanmenn, þannig að þeir eru innstu koppa í búri í hernum.  Þetta ójafnvægi hefur ráðið mestu um þróunina í landinu eftir að það fékk sjálfstæði.

Suður-Asíumenn (indverjar, Pakistanar og Bangladeshmenn), sem tala flestir gujarati og hindi, kom til landsins á 19. og 20. öld og fjöldi þess var orðinn rúmlega 50.000 árið 1969.  Þessu fólki stóð til boða ríkisborgararéttur í landinu, þegar það fékk sjálfstæði, en flest kaus að hafna boðinu.  Á ógnarárum Idi Amins (1971-79) fluttist fjöldi þess úr landi og harðstjórinn rak allt Suður-Asíufólkið, sem hafði ekki borgararéttindi úr landi með harðri hendi árið 1972.  Hann lagði undir sig allar eignir þess og skipti þeim á milli afrísku borgaranna.  Þessar aðgerðir hans voru vinsælar um tíma en efnahagslegur afturbati þjóðfélagsins hefur verið hægur eftir þessar hamfarir.  Snemma á tíunda áratugnum bauð ríkisstjórn landsins þessum útlægu borgurum að koma aftur og þiggja bætur fyrir eignamissinn.  Sumir þeirra snéru heim og fengu eignir sínar aftur.

Á sjöunda áratugnum bjuggu rúmlega 10.000 Vestur-Evrópu- og Norður-Ameríkumenn í landinu og gegndu mikilvægum stöðum.  Flestir þeirra fóru úr landi á svipuðum tíma og Asíufólkinu var vísað úr landi.


TungumálAlls eru töluð 32 tungumál í landinu, en enska, swahili og ganda eru hin algengustu.  Einungis lítill hluti þjóðarinnar talar góða ensku, þótt hún sé nauðsynleg þeim, sem hyggjast komast í háar stöður í þjóðfélaginu.  Síðla á níunda áratugnum var swahili gert að opinberu tungumáli í landinu til að stuðla að meiri samheldni og samkennd.  Sömu sögu er að segja um þetta tungumál, því að Úgandamenn valda því langt frá því eins vel og Kenjamenn og Tanzanar og íbúar Austur-Kongó (Kinshasa).  Swahili er óvinsælt tungumál meðal fjölda Úgandabúa, sem líkar illa við tungu fyrri harðstjóra og hermanna.  Þetta varð til þess, að stjórnarskránni var breytt árið 1995, þannig að einungis enska er skráð þar sem opinbert tungumál landsmanna.

Tungumál innfæddra afríkumanna eru bundin þjóðflokkum og ættkvíslum.  Ríkisútvarpið í landinu sendir út efni á ensku, frönsku og swahili auk 20 annarra tungumála innfæddra (alur, ganda, lugbara, masaba, Rwanda, nyankole, nyole, soga, teso o.fl.).  Flestir íbúar landsins eru mælandi á fjölda þessara tungumála.


TrúarbrögðÚgandabúar iðka þrenn trúarbrögð, hin hefðbundnu, islam og kristni.  Næstum tveir þriðjungar þeirra eru kristnir, jafnt katólskir og mótmælendur.  Lítið eitt stærri hópur iðkar trú forfeðranna en islam.  Algengt er, líkt og annars staðar í Afríku, að íbúarnir blandi saman hinum fornu trúarbrögðum og hinum, kristni og islam.

Islam barst fyrr til landsins en kristni og varð að pólitískt mikilvægum trúarbrögðum á áttunda áratugnum.  Kristni barst til landsins á nýlendutímanum og breiddist aðallega út í suðurhluta landsins.  Þar voru katólikar kallaðir „bafaransa” (hinir frönsku) og mótmælendur  „bangerezza” (hinir brezku).  Mikil samkeppni og jafnvel átök milli þessara krisnu trúflokka ríkti og ríkir enn þá og bilið milli þeirra er breiðara en milli hvors um sig og islam.  Meðal annarra trúflokka kristinna manna eru aðvetnistar, baptistar, rétttrúnaðaramenn, vottar jehóva og mormónar.


Lýðfræði Landsmönnum hefur fjölgað mjög síðan Úganda fékk sjálfstæði.  Þá voru þeir u.þ.b. 7 miljónir talsins en um aldamótin 2000 hafði Íbúafjöldinn þrefaldast.  Næstum helmingur þjóðarinnar er yngri en 15 ára og fjórðungur á aldrinum 15-29 ára.  Frá níunda áratugi 20. aldar hefur fjölgun íbúa borga landsins verið hæg.  Í Kampala býr næstum þriðjungur þéttbýlisbúa landsins.  Aðrar helztu borgir landsins eru mun fámennari.  Þéttbýlustu svæði landsins eru í suðurhlutanum, einkum umhverfis Viktoríuvatn og Elgonfjall.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM