Túnis
við Miðjarðarhaf er höfuðborg Túnis og jafnframt stærsta borg
landsins. Borgin reis við
enda hins grunna Túnisvatns, sem er vík inn úr Túnisflóa.
Hún er tengd hafnarborginni Halq al-Wadi, sem er 10 km norðaustar.
Líbýumenn stofnuðu borgina.
Þeir gáfust upp fyrir fönikíumönnum á 9. öld og létu þeim
Karþagó eftir. Árið 146 f.Kr, þegar þriðja púnverska styrjöldin stóð
yfir milli Rómverja og Karþagómanna, tortímdu Rómverjar Karþagó
og Túnisborg. Síðan blómstraði
borgin undir stjórn Rómverja. Vegur
hennar var mestur undir stjórn múslima, sem náðu henni á sitt vald
á 7. öld. Hún varð höfuðborg,
þegar Aghlabids (800-909) voru við völd, og lifði blómaskeið sitt
undir stjórn Hafsid-ættarinnar (1236-1574).
Hið heilaga rómverska keisaradæmi undir stjórn Karls V,
keisara, lagði borgina undir sig árið 1535 og árið 1539 náðu
Tyrkir yfirhendinni. Spánverjar
réðu borginni 1573-74, þegar Ottómanar tóku við.
Þeir réðu borginni þar til Frakkar gerðu Túnis að frönsku
verndarsvæði á árabilinu 1881-1956.
Þjóðverjar náðu landinu undir sig 1942 en brezkar hersveitir
ráku þá brott árið eftir. Árið
1956, þegar landið fékk sjálfstæði frá Frökkum, var borgin lýst
höfuðborg landsins.
Undirstaða
atvinnulífsins í borginni er landbúnaðurinn í umhverfi hennar.
Mest er ræktað af ýmsu korni og ólifum og vinnsla þessara hráefna
fer fram í henni. Auk þess
er mikið framleitt af textílvöru og fatnaði, teppum, sementi,
styrktarjárni fyrir byggingar, efnavöru (fosfat), stáli, vélbúnaði
og raftækjum. Þarna er
einnig aðalverkstæði járnbrautanna. Nokkrar málmbræðslur starfa í Halq al-Wadi og í Magrin
er blýgerð. Ferðaþjónustan
er mjög mikilvæg atvinnugrein. Alþjóðaflugvöllurinn
Al-‘Uwaynah og völlurinn, sem er kenndur við Túnis og Karþagó,
eru norðaustan borgarinnar.
Helztu
menningarmiðstöðvar borgarinnar eru tvær.
Sumarhátíð Karþagó í júlí ár hvert er orðin allþekkt.
Meðal áhugaverðra staða í borginni eru rómversku böðin
(Antoníus; 2. öld), Sidi-Bu Sa’id-hæðirnar, markaðirnir (sugs) og
moska Az-Zaytunah (8.öld), sem er elzta og merkasta minnismerki
landsins. Túnisháskóli
var stofnaður 1960. Suðaustan
borgarinnar, í hlíðum Wadi Milyan-dals, eru tilkomumiklar rústir
vatnsleiðslna, sem Rómverjar byggðu frá lindunum í Zaghwan-fjalli
til Karþagó. Áætlaður íbúafjöldi Túnisborgar 1984 var tæplega 600
þúsund í höfuðborginni sjálfri en tæplega 1,5 milljónir á öllu
höfuðborgarsvæðinu. |