Túnis stjórnsýslan,
Flag of Tunisia


TÚNIS
STJÓRNSÝSLAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Túníska stjórnarskráin, sem var lögleidd 1959 og síðar breytt, kveður á um lýðræðisríki með islam sem opinber trúarbrögð og arabísku sem opinbert tungumál.  Löggjafarvaldið er í höndum einnar deildar þings með 163 þingmenn, sem eru kosnir til fimm ára í senn í almennum kosningum.  Héruðin kjósa 144 og sigurflokkurinn í hverju héraði fær alla þingmennina.  Mismununinum er skipt hlutfallslega milli andstöðuflokkanna.  Árið 1994 var lögum breytt í þá átt, að enginn flokkur mætti hafa fleiri en 80% þingsæta.  Framkvæmdavaldið er í höndum forsetans, sem er æðsti maður landsins og ríkisstjórnarinnar.  Hann verður að vera múslimi og er kosinn í almennum kosningum til fimm ára í senn samtímis þingmönnum.  Síðan 1988 hefur sama forseta verið leyft að sitja í þrjú kjörtímabil.  Með lagabreytingum síðla á tíunda áratugnum var mótframbjóðendum leyft að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta.

Ráðherraráð undir stjórn forsætisráðherra stjórnar landinu síðan 1969.  Ráðherrar eru ábyrgir gagnvart forsetanum en ekki þinginu, sem hefur þó völd til að lýsa vantrausti á þá.  Gerist slíkt, getur forsetinn rofið þing og efnt til nýrra kosninga og ríkisstjórnin verður að segja af sér.

Landinu er skipt í 23 stjórnsýsluhéruð (wilayat; et.: wilayah), sem eru undir stjórn landstjóra (walis).  Hvert hérað ber nafn höfuðborgar sinnar og er skipt í 250 sýslur (mu’tamadiyat), sem eru undir stjórn sýslustjórna (mu’tamad) og þeim er skipt niður í 2000 hreppa (mantaga turabiyyas).  Landinu er einnig skipt niður í rúmlega 250 sveitarfélög og 154 sveitaráð.

Dómskerfi landsins er byggt á franskri fyrirmynd og frjálslegri túlkun islam.  Í ríkisráðinu eru tvö dómstig, framkvæmdastig, sem annast mál milli ríkis og einstaklinga eða opinberra stofnana og ríkisendurskoðun.  Dómskerfið skiptist í héraðs-, glæpa- og áfrýjunardómstóla og hæstarétt.  Dómsvaldið er rækilega aðskilið frá löggjafar- og framkvæmdavaldinu í stjórnarskránni.

Stjórnmálin.  Stjórnarskráin á að tryggja mál- og skoðanafrelsi, frelsi dagblaða, frelsi til útgáfustarfsemi, til fundarhalda, félagafrelsi og frelsi til stofnunar verkalýðsfélaga.  Stjórnmálaflokkar, sem byggjast á kynþáttum, trúarbrögðum, svæðaskiptingu eða tungumáli eru bannaðir.  Nýir stjórnmálaflokkar skutu upp kollinum árið 1981.  Fjölflokkakerfi var tekið upp með lögum árið 1988 og fyrstu kosningar byggðar á því voru haldnar árið eftir.  Kosningaþátttaka er mikil í landinu en stjórnarandstöðuflokkarnir telja að kosningar séu undantekningalaust óheiðarlegar og atkvæði séu fölsuð.  Af þessum sökum hefur landið enn þá einsflokkskerfi, þótt lögin segi annað.  Stjórnarflokkurinn heitir Demókratíski stjórnarskrárflokkurinn (RCD).

Stjórnarandstöðuflokkarnir eru litlir og byggjast á vinsældum einstaklinga eða litlum hópum manna.  Þeir hafa hvorki fjárhagslegt né skipulagslegt bolmagn til að reka mikinn áróður fyrir kosningar.  Í lok tíunda áratugarins hafði enginn frambjóðenda þeirra ná kjöri.  Árið 1989 fékk Islamflokkurinn 20 menn kjörna og þá vantaði 7,5% upp á að stjórnarandstaðan væri fullskipuð samkvæmt lögum.  Oft voru og eru þingmenn stjórnarandstöðunnar hnepptir í fangelsi eða reknir úr landi til að draga úr áhrifum þeirra fyrir kosningar.  Fjöldi félaga um allt land starfa í nánum tengslum við RCD.

Menntamál.  Börn á skólaskyldualdri njóta ókeypis menntunar.  Næstum öll börn á aldrinum 6-16 ára stunda skóla og u.þ.b. 17% þeirra halda áfram í háskóla eða öðrum æðri menntastofnunum.  Nemendum, skólum og kennurum hefur fjölgað mikið síðan landið varð sjálfstætt og læsi aukizt meðal allra landsmanna.  Þessi þróun hefur verið ríkissjóði dýr en samt sem áður hafa nemendur orðið að afla sér aukastyrkja, því að ríkisstyrkirnir nægja ekki.  Það færist í vöxt, að nemendum er synjað um nám á ákveðnum sviðum eða í ákveðnum skólum.  Vegna ástands í atvinnumálum hefur fólki verið beint inn á námsbrautir á tækni-, fag-, kennslu- og landbúnaðarsviðum til að það geti gengið að atvinnu í námslok.  Túnisháskóli var stofnaður 1960.  Tveir aðrir háskólar voru opnaðir í Al-Munastir (í grennd vi Susah) og Safaqis á miðjum níunda áratugnum.

Heilbrigðis- og félagsmál.  Lífskjör íbúa Túnis eru almennt fábrotin en samt að batna smám saman.  Ríkisstjórnin fullyrðir, að tala þeirra, sem lifa undir fátækramörkum, sé lág.  Niðurskurður fjárlaga og afnám niðurgreiðslna hafa dregið úr félagslegum stuðningi.  Fátækasta fólkinu hefur þó verið sinnt í samræmi við sérstakar áætlanir.  Þjóðareiningarsjóðurinn, sem var stofnaður 1992, hefur látið fé frá einstaklingum og ríkinu af hendi rakna til margs konar þróunarverkefna vítt og breitt um landið.  Aðrir sjóðir styðja fjölda félagslegra þátta.  Heilbrigðiskerfi landsins veitir langflestum íbúanna aðgang að heilbrigðisþjónustu.  Æ meiri fjármunum hefur verið varið í þetta kerfi, en samt sem áður leita æ fleiri einstaklingar til einkarekinna heilsugæzlustöðva, því að opinbera kerfið hefur ekki undan.  Fjöldi tiltölulega góðra sjúkrahúsa og heilsugæzlustöðva hefur dregið úr dánartíðni og lægsta barnadauða á meginlandi Afríku.

Einn mest áberandi þáttur í opinberri stefnu hefur verið að bæta stöðu og lífskilyrði kvenna.  Þessi þróun hefur staðið yfir síðan landið fékk sjálfstæði og jafnrétti milli kynjanna eykst stöðugt.  Lög um stöðu einstaklingsins voru samþykkt árið 1956 og þeim hefur verið breytt til að konur njóti sín betur á sviðum stjórnmála, félagsmála og búi við betri hag.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM