Franskt
verndarsvæði 1881-1956.
Í
orði kveðnu varð Túnis að frönsku verndarsvæði með samningum en
ekki hernámi eins og í Alsír. Höfðingjaættin
var við völd að nafninu til og innlendir ráðherra voru skipaðir,
þannig að stjórnmunstrinu var haldið við.
Frakkar tóku ekki land eignarnámi, breyttu ekki moskum í
kirkjur og skiptu sér ekki af tungu þjóðarinnar.
Hershöfðingi franska setuliðsins var valdamesti maður
landsins.
Frakkar
komu skikk á fjármál landsins á skömmum tíma og nútímasamskiptum
var komið á. Frakkar
fluttu landsmenn ekki nauðuga frá heimasvæðum sínum eins og þeir
gerðu í Alsír en beztu landbúnaðarsvæðin í norðanverðu
landinu, í Majardah-dalnum og á Bon-skaganum, voru fengin öðrum Evrópulöndum
til nýtingar. Frakkar hófu
vinnslu fosfats í námum í grennd við Qafsah í suðurhlutanum.
Franskir og ítalskir bændur settust að í Majardah-dalnum og hófu
ræktun grænmetis til útflutnings.
Á
tíunda áratugi 19. aldar hóf ungur, franskmenntaður hópur, sem
kallaði sig „Ungir Túnismenn”, að berjast fyrir frekari umbótum
í nútímaátt að evrópskri fyrirmynd og hvatti ríkisstjórn
landsins til frekari dáða. Þessi
hópur gætti hófs í framgöngu sinni á meðan landið var franskt
verndarsvæði. Aðalmálgagn
þeirra var dagblaðið „Le Tunisien”, sem var stofnað árið 1907
og gefið út á frönsku. Þegar
arabíska útgáfan hófst tveimur árum síðar, varð blaðið
uppspretta þekkingar fyrir landsmenn og hvatti Frakka til að stuðla að
umbótum.
Þessi
hófsama bylting fór í taugarnar á Frökkum, sem beittu þessa ungu Túnismenn
þvingunum á árunum 1911-12 til að draga úr þjóðernisbaráttu þeirra.
Hennar gætti lítið á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar
(1914-18) en eftir stríðið gætti fyrstu alvöruviðleitni til víðtækrar
þjóðernisvakningar með stofnun „Destour”-flokksins (Stjórnarskrárflokksins).
Árið 1920 lagði flokkurinn kröfuskjal fyrir Frakka og
konunginn, þar sem krafizt var lýðræðislegrar stjórnar og jafnræði
milli Evrópumanna og landsmanna. Viðbrögðin
létu ekki á sér standa og ‘Abd al-Aziz ath-Tha’alibi, forsprakki
„Destour” var tekinn fastur. Tveimur
árum síðar fór hinn aldni höfðingi fram á, að kröfum
„Destour”-flokksins yrði mætt, ella segði hann af sér.
Viðbrögð hershöfðingja Frakka, Lucien Saint, voru að
umkringja konungshöllina og konungurinn dró kröfu sína til baka.
Saint greip til ýmissa takmarkandi aðgerða og kom á nægilegum
umbótum til að friða landsmenn.
Þessar aðgerðir drógu máttinn úr þjóðernissinnum um
nokkurra ára skeið.
Árið
1934 klufu nokkrir löglærðir Túnismenn sig úr röðum
„Destour”-manna. Forsprakki
þeirra var Habib Bourbuiba og þeir stofnuðu ný samtök, Nýja stjórnarskrárflokkinn,
sem stefndi að útbreiðslu áróðurs til að tryggja sér fylgi.
Þetta markmið náðist undir öflugri forystu Bourguiba og nýi
flokkurinn tók brátt við af hinum gamla.
Tilraunir Frakka til að bæla þessa hreyfingu niður urðu
henni til eflingar. Flokkurinn
jók áhrif sín eftir að ný ríkisstjórn á vinstri kantinum tók við
völdum í Frakklandi 1936 (Popular Front).
Þegar þessi stjórn geispaði golunni, hófust gagnaðgerðir
Frakka aftur í Túnis og þeim var mætt með almennri andstöðu íbúanna. Árið 1938 urðu alvarlegar óeirðir, sem ollu handtöku
Bourguiba og annarra leiðtoga flokksins, sem var leystur upp.
Síðari
heimsstyrjöldin.
Leiðtogar Nýja stjórnarskrárflokksins voru fluttir til
Frakklands í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar og þar leystu
nasistar þá úr haldi árið 1942, þegar þeir lögðu undir sig
Vichy-Frakkland. Hitler
leit á Túnis sem áhrifasvæði Ítala og kom leiðtogunum í hendur
ítalskra fasista. Fasistastjórnin
fór mjúkum höndum um þá til að afla möndulveldunum stuðnings þeirra.
Bourguiba neitaði stöðugt samstarfi við Ítala. Í marz 1943 gaf Bourguiba út efnislausa yfirlýsingu í útvarpi
og Ítalar leyfðu túnísku leiðtogunum að fara heim. Muhammad al-Munsif, konungur, myndaði þá ríkisstjórn,
sem var hliðholl stefnu Nýja stjórnarskrárflokksins.
Þegar
Frjálsir Frakkar tóku við völdum eftir stríðið varð það mikið
áfall fyrir hreyfingu flokksins. Frakkar
settu konunginn af og ákærðu hann fyrir stuðning við nasista.
Hann flúði í dulargervi til Egyptalands árið 1945.
Baráttan fyrir sjálfstæði landsins hélt áfram og í kjölfar
stofnunar arabaríkjanna í Miðausturlöndum og Líbýju urðu Frakkar
að slaka á taumunum í Túnis. Árið 1951 leyfðu Frakkar myndun ríkisstjórnar á þjóðernissinnuðum
nótum, Salah Ben Youssef, einn leiðtoga Nýja stjórnarskrárflokksins,
varð ráðherra, og Bourguiba var leyft að snúa heim úr útlegð.
Þegar nýja ríkisstjórnin óskaði eftir stofnun þings,
beittu Frakkar ýmsum þvingunum, ráku Bourguiba aftur úr landi og
handtóku flesta ráðherra hennar.
Með þessum aðgerðum kölluðu Frakkar yfir sig hryðjuverkastarfsemi.
Þjóðernissinnar komu sér fyrir uppi í fjöllum og lömuðu
allt athafnalíf í landinu með aðgerðum sínum.
Í
júlí 1954 lofaði franski forsætisráðherrann, Pierre Mendes-France,
að veita Túnis heimastjórn í samræmi við samning milli landanna.
Bourguiba snéri heim og tók þátt í samningaviðræðum að
tjaldabaki. Í júní 1955
var samkomulagið undirritað, þótt það takmarkaði mjög sjálfræði
landsins á sviði utanríkismála, menntunar, hermála og fjármála.
Flokkurinn myndaði ríkisstjórn, sem var skipuð flokksmönnum
að mestu leyti. Salah Ben
Youssef hafnaði samningnum og lýsti hann allt of takmarkandi.
Hann neitaði að taka þátt í ráðstefnu, sem boðað var til
í skyndi og studdi Bourguiba einróma. Salah hervæddist í suðurhluta landsins en var brátt kveðinn
í kútinn. Hann flúði úr
landi til að komast hjá handtöku og var myrtur árið 1961. |