Túnis sagan I,
Flag of Tunisia


TÚNIS
SAGAN I

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landið var kallað „Ifrigiyah” snemma á tímum múslima.  Þetta nafn er fengið úr latínu Rómverja og þýðir Afríka.  Rómverjar notuðu það líka um fyrstu afrísku nýlenduna eftir púnversku styrjaldirnar við Karþagómenn á árunum 264-146 f.Kr.  Eftir stutt yfirráð vandala og Býsantínumanna, unnu arabar landsvæðið, sem Túnis nær yfir, árið 647.  Arabar sameinuðu Norður-Afríku en í kringum 1230 var komin upp höfðingjaætt, Hafsids, í Túnis.  Múslimskir Andalúsíumenn fluttust þangað eftir að þeim var þröngvað frá Spáni 1492.  Árið 1574 var Túnis innlimað í Ottómanaveldið allt til ársins 1922.

Túnis er minnst „Maghreb-ríkjanna” og því er samheldni íbúanna þar mest.  Í upphafi 19. aldar töluðu nálega allir íbúarnir arabísku.  Tungumál berba var áður aðaltunga „Maghreb-ríkjanna” og varðveittist í Túnis á afmörkuðum svæðum, einkum allrasyðst í landinu.  Langflestir íbúanna voru múslimar og eini minnihlutahópurinn var gyðingar.  Ein borg, Túnis, réði yfir sveitum landsins.  Borgin var í grennd hinnar fornu Karþagó.  Vegna þess, hve miklu auðveldara var að hafa stjórn á innanlandsmálum í Túnis en hinum stærri „Maghreb-ríkjum”, voru landsmenn opnari fyrir erlendum áhrifum og hugmyndum.  Hinn rómverski hluti Afríku var áberandi kristnari ein önnur Afríkuríki og síðar voru íbúarnir tiltölulega fljótir að semja sig að islam.

Túnis er lítið ríki með takmarkaðar auðlindir.  Samt sem áður tókst íbúunum að viðhalda talsverðri sjálfstjórn, þegar landið laut stjórn fjarlægra stórvelda.  Sem dæmi má nefna stjórnarár Abbasída á 9. öld og Ottómanaveldisins.  Landslag landsins og söguleg hefð þess dró úr áfallinu á 19. öld, þegar það lenti á milli steins og sleggju hins dvínandi Ottómanaveldis og Evrópumanna, en það beið efnahags- og hernaðarlegt tjón af.

Aukin áhrif Evrópumanna.  Árið 1830, þegar Frakkar réðust inn í Alsír, var Túnis ottómanskt hérað að nafninu til, þótt landið væri í raun sjálfstætt ríki.  Landsmönnum hafði löngum staðið ógn af innrás Alsíringa og tóku með varúð fullyrðingum Frakka um áhugaleysi þeirra á því að gera Túnis að nýlendu sinni.  Husayn Bey féllst á þá hugmynd, að túnískir prinsar réðu fyrir borgunum Konstantín og Oran.  Þetta ráðabrugg átti ekki framtíð fyrir sér og fljótlega var fallið frá því.

Árið 1835 var öryggi landsins ógnað, þegar Ottómanar ýtti ráðandi höfðingjum frá völdum og kom á beinni stjórn.  Þá komu Frakkar til sögunnar frá hinni hliðinni og höfðingjaættin var milli steins og sleggju, því að bæði stórveldin höfðu augastað á landinu.  Á tímabilinu þar til landið varð að frönsku verndarsvæði 1881, reyndu ráðamenn í Túnis að styrkja innviði landsins samtímis því að reyna að halda stórveldunum í skefjum.

Ahmad Bey, sem var við völd frá 1937 til 1955, var hlynntur þróun í nútímaátt og mikill umbótamaður.  Hann naut mikillar aðstoðar vestrænna ráðgjafa, aðallega franskra, við uppbyggingu land- og sjóhers og iðnaðar tengdum hernum.  Herskylda var tekin upp bændum til mikillar skelfingar, en þeir fögnuðu þeirri stefnu Ahmads að skipa ríkisstjórnina einungis arabískumælandi Túnismönnum í stað mamlukkanna og Tyrkjanna, sem höfðu stjórnað landinu.  Ahmad afnam þrælahald og stefndi að aðlögun að evrópskum siðum, sem gerði landið viðkvæmara fyrir efnahagslegum og stjórnmálalegum áhrifum Evrópumanna.  Umbætur hans höfðu neikvæð áhrif á staðnað efnahagskerfi landsins.  Skuldir þess jukust, skattar hækkuðu og ólga meðal íbúanna í sveitum landsins jókst.

Næsti höfðingi, Muhammad (1855-59) reyndi án árangurs að sniðganga evrópsk áhrif.  Óeirðir í landinu héldu áfram og spilling í stjórnkerfinu varð til þess, að Bretar og Frakkar neyddu Muhammad til að leiða mannréttindasáttmála (‘Ahd al-Aman) í lög 9. september 1857.  Þessi sáttmáli var byggður á tilskipun Ottómana frá árinu 1839.

Á valdatíma Muhammad as-Sadiq (1859-82) leið veldi höfðingjanna undir lok.  Þessi Mohammad var of veikur foringi til að koma á þeim umbótum, sem hann óskaði og halda Evrópumönnum í skefjum.  Hann samþykkti fyrstu stjórnarskrá (dustur), sem gekk í gildi í arabaheiminum 1861.  Ókleift reyndist að koma á fót lýðræðislegri ríkisstjórn vegna hinna sívaxandi skulda og okurvaxta evrópskra banka.

Þegar aðalráðherrann, Mustafa Khaznadar, sem hafði þjónað síðan á dögum Ahmad Bey, reyndi að hækka skatta, risu bændur og fylgdarlið þeirra upp á afturfæturna og gerðu uppreisn árið 1864.  Við lá, að ríkisstjórnin félli, en um síðir tókst að bæla uppreisnina niður með svikum og mikilli grimmd.

Landið varð gjaldþrota árið 1869.  Brezkir og franskir fulltrúar lánastofnana og ríkistjórna landanna komu sér fyrir í Túnis.  Samtímis var gerð úrslitatilraun til styrkingar innviða landsins til að koma í veg fyrir evrópsk yfirráð.  Fyrir þessari tilraun stóð Khayr ad-Din (1873-77), sem var einhver mesti stjórnmálaskörungur 19. aldar í arabaheiminum.  Óvinir hans innanlands og evrópskar valdaklíkur náðu að ýta honum frá völdum.  Á ráðstefnunni í Berlín 1878 samþykktu Bretar yfirráð Frakka í Túnis.

Frakkar gerðu innrás í landið 1881 í skjóli Kasser Said (Al-Qasr as-Sa’id)-friðarsamningsins, sem kvað á um rétt Frakka til hernáms landsins.  Frakkar tóku völdin úr höndum höfðingjaættarinnar, skipuðu franskan landshöfðingja til að sinna innanlandsmálum og réðu fjármálum og utanríkismálum eftir sínu höfði.  Þessi ráðstöfun leiddi til uppreisnar í suðurhluta landsins.  Frakkar réðust gegn uppreisnarmönnum og náðu undir sig borgunum Susah (júlí 1881), Al-Qayrawan (október) og Qafsah og Qabis (nóvember).  Eftir lát Muhammad As-Sadiq, var eftirmaður hans, ‘Ali, neyddur til að standa fyrir umbótum á svið stjórnsýslu, dómsmála og fjármála, sem franska ríkisstjórnin áleit nauðsynlegar.  Þessar aðgerðir, sem voru bundnar í samninginn í Al-Marsa 1883, festu stjórn Frakka í landinu í sessi.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM