Jarðvegur.
Frjósömustu svæði landsins eru þar sem vatn er nægilegt í
fjalladölum og á sléttum norðurhlutans, þar sem eru kalkrík sand-
og leirsetlög. Steppur
landsins eru ekki eins frjósamar og víðast í sunnanverðu landinu er
jarðvegur sendinn og grýttur auk þess að vera saltur vegna mikillar
uppgufunar. Stærsta landbúnaðarsvæði
landsins er á strandsléttunum milli flóanna Hammamat og Gabes
(Qabis).
Loftslag.
Túnis er í heittempraða beltinu milli 37°N og 20°N.
Norðantil er Miðjarðarhafsloftslag, sem einkennist af mildum
og úrkomusömum vetrum og heitum og þurrum sumrum og lítið ber á
skiptum milli þessara árstíða.
Sunnantil er loftslagið mun þurrara á steppunum og í eyðimörkunum.
Sicorro er árstíðabundinn, heitur vindur frá Sahara, sem
veldur stundum eyðingu gróðurs.
Hitafarið við Miðjarðarhaf er jafnara en sunnar.
Í Susah er meðalhitinn í janúar 7°C en 32°C í ágúst.
Í Al-Qayrawan er hiti í sömu mánuðum 4°C og 37°C.
Úrkoma er talsvert mismunandi milli suður- og norðurhlutans.
Meðalársúrkoma í Kroumirie-fjöllum í norðvesturhlutanum er
1520 mm (hin mesta í Norður-Afríku) og innan við 100 mm í Tawzar í
suðvesturhlutanum. Mestur
hluti úrkomunnar fellur á veturna en hún er ákaflega mismunandi
milli ára. Þessar aðstæður
gera landbúnaðinn erfiðan og valda stundum uppskerubresti.
Flóra
og fána.
Loftslag og
veðurfar í landinu hafa mikil áhrif á gróður og dýralíf.
Uppi í Kroumirie-fjöllum eru korkeikarskógar og mikið vex af
burknum á skógarbotninum. Þar
eiga villisvín kjörlendi. Annars
staðar er víða runnagróður og steppurnar eru þaktar esparto-grasi.
Þar hafast við lítil veiðidýr.
Á eyðimerkursvæðum eru veiðar bannaðar og þar eru nokkrar
litlar hjarðir gasellutegunda. Sporðdrekar
eru um allt land og meðal hættulegra slöngutegunda eru gleraugnaslöngur
og hornhöggormar. Engisprettur
valda stundum tjóni í suðurhluta landsins. |