Túnis íbúarnir,
Flag of Tunisia


TÚNIS
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landið skiptist í fjögur landfræðileg svæði:  Norðurhlutann, sem er nokkuð frjósamur og fær allgóða vökvun, hálfþurrlent miðbikið, As-Sahil (Sverðið) á austanverðri miðstrandlengjunni, þar sem mest er ræktað af ólífum og eyðimerkurnar í suðurhlutanum, þar sem allur gróður hverfur nema í vinjunum.  Í mið- og suðurhlutunum býr enn þá fólk, sem lifir enn þá hálfgerðu hirðingjalífi.  Í norður- og austurhlutunum, einkum með ströndum fram, eru íbúarnir mun blandaðri, búa þéttar og stunda jarðrækt.  Líf þeirra er mun flóknara í borgum og þorpum landsins en hirðingjanna í suðri.  Íbúum borga hefur fjölgað vegna flótta úr dreifbýlinu og síðla á 20. öld bjuggu rúmlega 60% þeirra í þéttbýli.  Í Túnisborg býr u.þ.b. níundi hlutin íbúa landsins.  Borgirnar Bizerte, Qabis, Qafsah, Safaquis, Susah og Jundubah hafa líka vaxið mikið.

Þjóðfræði. 
Íbúar landsins eru flestir arabískir berbar.  Túnis hefur orðið fyrir aðstreymi annarra þjóðflokka um aldir, þ.á.m. Fönikíumanna, Afríkumanna sunnan Sahara, gyðinga, Rómverja, vandala og araba.  Múslimskir flóttamenn frá Sikiley settust að í As-Sahil eftir að normanar lögðu undir sig heimaland þeirra árið 1091.  Spænsku márarnir voru þó atkvæðamestir.  Þeir komu eftir fall Seville á Spáni árið 1248 og síðan flykktust þeir til landsins á 17. öld.  Þegar upp var staðið, höfðu 200 þúsund spænskir múslimar setzt að í Majardah-dalnum og Bon-skaga.  Þeir fluttu með sér borgarmenningu og þróaðri landbúnað og áveitubúskap.  Frá 16. til 19. aldar fluttu Tyrkir með sér blöndu af asískri og evrópskri menningu.  Áhrifa þessarar blöndunar gætir enn þá í fjölbreytni túnískra fjölskyldunafna.

Íbúafjöldi landsins tvöfaldaðist á síðustu þremur áratugum 20. aldar.  Náttúruleg fjölgun íbúanna er hægari en í öðrum löndum Norður-Afríku vegna velheppnaðrar fjölskyldustefnu stjórnvalda, sem gerði m.a. stöðu kvenna styrkari en víðast í öðrum löndum múslima.  Flutningur fólks frá landinu hefur líka dregið úr fjölguninni.  Hundruð þúsunda Túnismanna starfa erlendis, m.a. í Frakklandi og Miðausturlöndum.  Lífsskilyrði í landinu eru tiltölulega góð eins og lífslíkur landsmanna gefa til kynna.  Dánartíðni barna við fæðingu dvínar, íbúarnir giftast eldri og þjóðin eldist smám saman.

Tungumál.  Í lok 12. aldar var arabísk menning næstum allsráðandi í landinu.  Innan við 1% íbúanna í suðurhlutanum talar enn þá Tungu berba.  Franskan, sem haslaði sér völl á árabilinu 1881-1956, þegar landið var franskt verndarsvæði, breiddist enn frekar út eftir að landið fékk sjálfstæði vegna aukinnar menntunar íbúanna.  Arabíska er opinbert tungumál þjóðarinnar en franskan á sér fótfestu í dagblöðum, menntastofnunum og í ríkisstjórninni.  Enska og ítalska eru mörgum íbúum landsin töm.

Trúarbrögð.  Langflestir íbúanna eru múslimar og Malikite Sunnítar eru ráðandi.  Kristnir og gyðingar eru í miklum minnihluta, sem hélt áfram að minnka eftir að landið fékk sjálfstæði.  Árið 1956 játuðu rúmlega 300 þúsund aðra trú en islam en núna eru þeir u.þ.b. 50 þúsund.  Trúfrelsi ríkir í landinu.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM